Sérkennilegt lýðræði að vöntun á örfáum atkvæðum þurrki út sex þingmenn.

Sú sérkennilega staða er uppi varðandi hugsanlegt fylgi flokka í næstu kosningum, að örfá atkvæði til eða frá geti "drepið" fylgi um tíu prósent kjósenda. 

Eins og er, er um að ræða fylgi Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins, sem er rétt ofan við 5 prósenta "þröskuldinn" hjá hvorum um sig, sem er í íslensku stjórnarskránni og táknar það, að flokkur verði að fá minnst 5 prósenta fylgi á landsvísu til þess fá mann á þing, þótt 5 prósent innifeli nóg til þess að öðrum kosti að tryggja hvorum flokki um sig þrjá þingmenn, eða sex alls. 

Réttlætið í þessu tilfelli sést best á því, að tæp tíu prósent atkvæða, sem flokkarnir tveir fengju samtals en féllu "dauð" niður, samsvara því að Norðvesturkjördæmi fengi engan mann á þing!

Heyra má í umræðunni um nýjustu skoðanakönnun MMR skelfingaróp vegna þeirrar ógnar, sem stafaði af því að allir flokkar fengju þingmannatölu í samræmi við fylgi sitt! 

Lýsir það sérstæðri lýðræðisást í ætt við það þegar tveir flokkar ætluðu sér með úthugsuðu kosningabandalagi 1956 að ná meirihluta þingmanna út á minna en 40 prósent atkvæða, en í kosningunum þar á undan, 1953, munaði fáum atkvæðum að Sjálfstæðisflokkurinn fengi meirihluta þingmanna út á innan við 40 prósent af heildarfylgi. 


mbl.is Stjórnarmyndun ákaflega erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"flokkur verði að fá minnst 5 prósenta fylgi á landsvísu til þess fá mann á þing"

Nei, það lágmark á eingöngu við um jöfnunarsæti.

Flokkur getur hæglega fengið kjördæmakjörinn mann á þing þó hann nái ekki yfir 5% lágmarkið á landsvísu til að fá að auki jöfnunarsæti.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.7.2021 kl. 21:43

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, hárrétt, ég reyni að tala aðeins um aðalatriðin. Frjálslyndi flokkurinn kom manni á þing 1999 sem kjördæmakjörnum þingmanni, þótt á landsvísu hefði flokkurinn aðeins 3,7 prósent atkvæða. 

Ómar Ragnarsson, 16.7.2021 kl. 23:12

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kerfið útilokar ekki heldur að flokkur geti jafnvel fengið fleiri en einn mann kjördæmakjörinn án þess að ná yfir 5% á landsvísu. Ég hef þó ekki reiknað út af neinni nákvæmni hvar þau mörk liggja.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.7.2021 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband