Tvær skakkar forsendur stóriðjustefnu: Kolaver í Kína og sjálfbær ísl.orka.

Tvær skakkar forsendur voru nefndar í máli talsmanna tveggja framboða í sjónvarpinu í kvöld í málflutningi þeirra um stóriðjustefnuna, sem þeir héldu sterkt fram. 

1. Álver, reist á Íslandi, kemur í veg fyrir það að álver verði reist í Kína. Vegna þess að íslenska álverið er knúið með hreinni og endurnýjanlegri orku, en það kínverska knúið með kolaorku með margfalt meira kolefnisspori, sparar álverið á Íslandi kolefnisútblásturinn, sem annars væri í Kína. 

Merkilegt er að nokkur skuli trúa því og treysta að Kinverjar muni hætta við að reisa kolaknúið álver um leið og þeir frétta af álveri á Íslandi. Kína er risaveldi sem rekur sinn orkubúskap fyrir sínar orkuþarfir,  alveg óháð orkubúskap Íslendinga 

2. Þótt 80 prósent af notkun íslenskrar orku fari til álvera vegur á móti, að orkuframleiðsla okkar  er með endurnýjanlega og hreina orku. Þetta er rangt. Í gufaflsvirkjununum á Reykjanesskaga er stunduð rányrkja  með svonefndri "ágengri" orkuvinnslu, og einu kröfurnar fyrirfram um þær eru að orkan endist í 50 ár. Hálslón og fleiri miðlunarlón munu fyllast upp á 50 til 100 árum og miðlanirnar verða ónýtar. Vatnsorkan í heild er því talsvert frá því að vera endurnýjanleg og orka gufuaflsvirkjananna á Reykjanesskaga er það alls ekki, heldur á orkan þar eftir að klárast eins og í kolanámu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Furðulegur barnaskapur lýsir sér hjá ráðamaönnum okkar.

Merkilegt er að nokkur skuli trúa því og treysta að Kinverjar muni hætta við að reisa kolaknúið álver um leið og þeir frétta af álveri á Íslandi. Kína er risaveldi sem rekur sinn orkubúskap fyrir sínar orkuþarfir,  alveg óháð orkubúskap Íslendinga 

Ótrúlega blá eru augun í henni Katrínu Jakobsdóttur

Halldór Jónsson, 1.9.2021 kl. 11:15

2 identicon

Í lið 1. fellurðu í þá algengu gryfju að telja okkur svo smá að engu skipti hvað við gerum í stóra samhenginu.  Auðvitað spá Kínverjar nákvæmlega ekkert í hvort hér sé framleitt ál eða ekki þegar þeir gera sín plön. Breytir ekki þeirri ómótmælanlegu staðreynd að áltonn framleitt með rafmagni verður ekki framleitt með kolum. 

Ef á annað borð er þörf fyrir ál þá höfum við lagt okkar skerf til að draga úr kolanotkun við álframleiðslu. 

Í lið 2. er verið að rugla saman hugtökum til að rugla umræðuna. Þó vatnsorkan sem þú nefnir sé ekki til eilífðar þá er þar allt annar hlutur á ferðinni varðandi losun koldíoxíðs í andrúmsloft heldur en uppgröftur og bruni gamalla plöntuleifa.  Ef bráðavandi vegna hlýnunar og útblásturs koldíoxíðs er svo mikill sem margir telja þá hljóta menn að taka fagnandi öllum leiðum til að draga úr losuninni næstu áratugi meða mannkyn nær tökum á vandanum. 

Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 1.9.2021 kl. 12:45

3 identicon

Með vaxandi fólksfjölgun á Íslandi mun ágangurinn á náttúru landsins aukast. Þar með vex þörfin fyrir raforku og raforkuver, undan því verður ekki vikist.

Ef hvorki má nýta orku vatnsfalla né jarðvarma, hvað er þá til ráða?

Vindorkan er meðal þeirra orkulinda sem menn eru farnir að nýta í stað jarðefnaorkunnar. Byggðir hafa verið miklir vindorkugarðar víðsvegar um Evrópu og þykir víst sumum nóg um, enda er álfan þéttbyggð.

Ísland er sagt eitt mesta "veðravíti" í heimi, landið býr yfir ómældri vinorku.  Nú er farið að ympra á því að byggja hér vindorkugarða í líkingu við þá evrópsku. Samstundis hefur komið fram mikil andstaða gegn þessum fyrirætlunum. Slík mannvirki skaði ásýnd landsins, auk þess að verða fuglum, t.d. örnum að fjörtjóni. 

Væri ekki hægt að finna einhverja hentuga staði á landinu fyrir slík mannvirki sem trufluðu ekki að ráði flug arna og annara fugla, og skæru ekki í augu náttúruunnenda á göngu eða hjólreiðum um landið?

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 1.9.2021 kl. 15:37

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrir mörgum árum hefði átt að hefja vinnu við að skoða allt landið og grunnsævið með tilliti til mismunandi umhverfisáhrifa vindorkugarða. Nú þegar er hafið kapphlaup auðmanna og útlendinga í að kaupa upp jarðir, og eru þegar komnar fram áætlanir um orkunýtingu sem er meiri en öll orkuvinnsla landsins er nú. 

Ómar Ragnarsson, 2.9.2021 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband