Næg ástæða til orkuskipta þótt engin loftslagsvá væri.

Í allri umræðunni um loftslagsmál hafa andstæðingar orkuskipta forðast að minnast á ástæðu til þeirra, sem er fyllilega gild, en það er sú óumdeilanlega staðreynd að helstu orkugjafar mannkyns eru óendurnýjanlegir og munu óhjákvæmilega ganga til þurrðar. 

Íslendingar hafa raunar fyrr farið út í gagnger orkuskipti á einu sviði, en það er orka til húsahitunar. 

Á síðari hluta 20. aldar var farið út í dýr og umfangsmikil orkuskipti til húsahitunar um allt land. 

Furðulegt er að sjá og heyra, að sumir þeirra sem studdu þau fjárfreku orkuskipti, fara nú hamförum gegn frekari orkuskiptum og nota um þá, sem þeim fylgja orkuskiptunum núna niðrandi orð eins og "fjörtíu þúsund fífl." 

Þeir skulda í umræðunni útskýringar á því af hverju orkuskipti nú eru svona mikill fíflagangur, en orkuskiptin með hitaveitunum þjóðráð. 


mbl.is Grunar töluverða minnkun jökla þetta árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar olíukreppan skall á, á áttunda áratug síðustu aldar, fékk eldhuginn, Bragi Árnason, þá hugmynd að gera Ísland óháð allri innfluttri orku. Þá var áburðarverksmiðjan í Gufunesi enn starfandi, en þar var framleitt vetni. Bragi sá strax fram á að vetnið væri sá orkugjafi sem okkur hentaði best.

Þessi hugmynd hans um vetnið var honum alla tíð mikið áhugamál, flutti hann erindi um það út um heim allan og hreif ýmsa áhrifamenn með málflutningi sínum. Hlaut hann titilinn "Professore Hydrogeno" í erlendum fjölmiðlum.

Enda þótt vetnið sé frumorkugjafi sem knýr stjörnur alheimsins, þá finnst það vart í óbundnu formi á jörðinni. Því verður að vinna það úr algengasta efnasambandi sínu, vatni. Sú aðferð er orkufrek og fer mikil orka forgörðum við framleiðsluna. Einnig er geymsla þess og önnur meðhöndlun bundin nokkrum vandkvæðum. Notkun vetnis sem orkumiðils hefur því dregist á langinn, enda löngum verið í samkeppni við olíuna. Svo hafa rafbílarnir slegið í gegn á síðustu árum.

En nú virðist áhuginn á vetninu vera að vakna á nýjan leik og miklar rannsóknir í gangi til þess að ná meiri hagkvæmni í framleiðslu og notkun þess á ýmsu sviði. T.d. er nú farið að framleiða ýmsar gerðir af  hágæða olíu úr vetni og kolsýringi, svo kallað E-fuel. Einnig er nú farið að framleiða pasta eða deig úr vetni og magnesíum sem geyma má uppi í hillu í þar til gerðum ílátum.

Bragi Árnason sagði að öld vetnisins kæmi fyrr eða síðar. Hún kemur kannski fyrr en hann sjálfur bjóst við.

Bragi Árnason andaðist 8. sept. 2017. 

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 14.9.2021 kl. 22:24

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bragi spáði því líka í síðasta útvarpsviðtalinu við hann, sem Ari Trausti Guðmundsson tók, að notkun sólarorkunnar yrði síðasta þróunarstig orkuvinnslu mannsins. 

Ómar Ragnarsson, 14.9.2021 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband