"Það er svo gott þegar einhver talar til mín."

Um aldamótin síðustu var enn lifandi og komin yfir tírætt kona af íslenskum ættum í Gimli í Manitoba og tekið við hana sjónvarpsviðtal.

Hún var heimsótt í tengslum við för forseta Íslands um Íslendingabyggðir, en árið á undan hafði látist önnur kona af íslenskum ættum, Dóra Björg Björnsdóttir, sem elst hefur orðið af fólki af íslenskum ættum. 

Báðar þessar konur, sem nefndar eru, voru ættaðar frá Vopnafirði. 

Þegar reynt var að tala við  gömlu konuna 1999 var það alveg ómögulegt, því að hún var búin að gleyma svo miklu af þeirri ensku, sem töluð var, þótt allir töluðu það tungumál.  

Við hjónin byrjuðum að ræða vandamálið, þegar gamla konan tók allt í einu við sér og fór að tala íslensku, mál, sem hún hafði ekki talað í mörg ár, því að enginn afkomendanna talaði það mál. 

Þetta varð til þess að Helga fór að tala við hana og bjargaði því, að hægt væri að ná nógu miklu upp úr þeirri gömlu til að hægt væri að spila það á móðurmáli viðmælandans, íslensku.  

Þegar við kvöddum hana stundi gamla konan upp og beindi orðum sínum til Helgu: "Kemurðu ekki aftur?" 

"Nei, við erum á leið til baka til Íslands."

"Æ, hvað það var leiðinlegt; mér þykir svo gott þegar einhver talar til mín" sagði sú gamla. 

Þessi orð voru ógleymanlegt og sögðu svo mikið þegar málið var athugað nánar. 

Gamla konan sá sína nánustu sárasjaldan og skildi þá ekki. Þegar ókunnur maður byrjar að tala við hana, næst ekkert samband. 

En þegar hún heyrir fagra kvenrödd kemur rödd móður hennar upp í hugann frá dögum bernskunnar og allt verður svo bjart og hlýtt og yndislegt. 

Og mikilvæg og djúp merking orðsins móðurmál er ljóslifandi og sterk. 

Því er það henni þungbært að önnur svona stund muni kannski ekki koma.   


mbl.is Dóra setur Íslandsmet í langlífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Þetta var falleg frásögn Ómar minn og hjartnæm.

Halldór Jónsson, 13.12.2021 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband