Er gúanófýla "peningalykt" ?

Sú var tíðin að lykt frá bræðslum var stundum kölluð peningalykt hér á landi. Dæmi um það var fnykurinn frá bræðslunni á Kletti í Reykjavík sem réttlætt var með því hve mikil peningaverðmæti hún skapaði. 

Þó er vitað að það að bræða fisk eins og loðnu og síld á þennan hátt skapar aðeins brot af þeim verðmætum, skapa má með veiðum á þessum fisktegundum og verkun þeirra á annan hátt. 

Fyrir rúmum áratug voru kynnt áform um risa olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum, sem áttu að bjarga byggð þar, því annars væri hún dauðadæmd. 

Sveitarstjóri Vesturbyggðar sagði að 99 prósent líkur væru á því að ein slík risi í Hvestudal. 

Í viðtali við bóndann þar kom fram, að hann hefði hætt við alls konar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar og biði eftir olíuhreinsistöðinni. 

Þeir, sem höfðu efasemdir um þessa olíustóriðju voru úthrópaðir sem óvinir Vestfjarða. 

Þegar málið var skoðað nánar kom í ljós að að baki þessum stórfelldu framkvæmdum stóð skúffufyrirtæki í Skotlandi með enga peningaveltu. 

Síðuhafi fór í vettvangsferð til Noregs til að kynna sér þær tvær olíuhreinsistöðvar sem þar voru reistar á sínum tíma. 

Í tengslum við þá ferð kom í ljós að engin ný olíuhreinsistöð hefði verið reist í Evrópu í áratugi vegna hinnar miklu mengunar, sem af þeim stafar. 

Það fundust sem sagt ekki neinir sem vildu hafa slíkt skrímsli í nágrenni við sig. 

Nema Íslendingar, sem þyrsti í slíkt. 

Nú fréttist af því að Mosfellingar vilji ekki hlaupa til við að fá til sín mengandi sorpeyðingarstöð.  

Það er athyglisvert. 

 

 


mbl.is Samþykkir hvorki mengun, lykt né sjónræn áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar

Sagt er að nýta eigi hitan frá þessari stöð til framleiðslu á raforku og enn aftur til húshitunar. Þrínýting er ekki slæm, þar sem þörf er. En þá komum við að því að velta fyrir okkur hvort ekki væri þá betra að reisa slíka stöð þar sem skortur er á raforku eða hita, eða jafnvel hvoru tveggja.

Að reisa slíka afbragðsfyrirbæri, er þrínýtir orkuna, á stað þar sem bæði er nægt aðgengi að hita og raforku, leiðir væntanlega til þess að þessi seinnistiga nýting hennar falli forgörðum.

Vissulega er rétt að megnið af sorpi okkar verður til á höfuðborgarsvæðinu, enda íbúafjöldi mestur þar. Flutningskostnaður yrði því eitthvað hærri. En hærri en hvað? Urðun er að hverfa og er það gott. Því er ekki um annað að ræða en að brenna sorpið, annað hvort innanlands eða erlendis. Því má segja að meiri flutningur þess innanlands svo nýting afurðanna verði sem best, sé hagkvæmari en að flytja sorpið milli landa og láta aðra njóta afraksturs þeirrar brennslu.

Jafnvel mætti minnka flutninga nokkuð með því að hugsa aðeins lægra, að í stað þess að byggja eina stóra brennslu fyrir allt landið yrði byggðar fleiri minni á köldum svæðum þess. Þannig mætti nýta aukaafurðina sem mest. Þetta gera Svíar og því ættum við að geta það líka. Vandinn kannski sá að hugsanaháttur okkar er oft ærið stór, sér í lagi ef við komumst í þá stöðu að vera falið gæslu á fé almennings.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 17.12.2021 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband