26.1.2022 | 13:21
Kannski sá Íslendingur, sem komist hefur næst því að vinna leiki einn.
Fyrirsögnin hér að ofan var að vísu um leikmann í sjö manna liði, sem lék að jafnaði gegn öðru sjö manna liði, en vísar samt til þess, að í glæstustu sigrum hans á handboltavellinum snerist allur leikur liðs hans um hann, hann var leikstjórnandinn og hægt var að treysta því, að ef á þyrfti að halda í leik og staðan erfið og tvísýn, gat hann þess utan tekið það að sér upp á eigin spýtur að skora mörkin, sem vantaði upp á.
Sem þýddi, að ef hann var ekki inni á vellinum, gat það eitt leitt til taps.
Einhver magnaðasti handboltaleikur, sem Íslendingur hefur spilað, var í úrslitaleik í Evrópukeppni sem félagslið hans Madgeburg lék.
Yfirburða geta Ólafs Stefánssonar á öllum sviðum handboltans réði úrslitum um það að liðið varð Evrópumeistari. Hann gat skorað mörk á svo fjölbreytilegan hátt og leikið svo glæsilega á mótherjana, að þótt reynt væri að setja hann í sérstaka gæslu og "setja á hann yfirfrakka" var það eins og að stökkva vatni á gæs.
Hvort sem hann var í sérstakri gæslu eða ekki snerist allur leikurinn í kringum hann í svo miklum mæli, að maður spurði sjálfan sig: Drottinn minn dýri, hvað gerist ef hann meiðist svo að hann geti ekki spilað?
Til þess kom ekki í þessum leik, en liðið virtist ráða yfir leikaðferðum, sem gengu jafnvel upp þótt gæslumenn Ólafs hefðu sig alla við að taka hann úr umferð.
Telur Ólaf fimmta besta handboltamann sögunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.