24.3.2022 | 20:55
Enn haldið í aldar gamla bábilju um Reykjavíkurflugvöll.
Í kringum 1960 hófust umræður um að flytja Reykjavíkurflugvöll út á Álftanes. Í tengslum við þá umræðu kom fram tillaga um flugvöll í Kapelluhrauni.
Báðar hugmyndirnar fengu fljótlegt andlát. Þegar Hannibal Valdimarsson varð samgönguráðherra 1971 sló hann hugmyndina um Álftanesflugvöll út af borðinu.
Enn snöfurlegri var agreiðsla Agnars Koefoed-Hansen á Hvassahraunshugmyndinni.
Hann bauð þáverandi flugráði í stutta flugferð, þar sem hægt yrði að finna það út á einfaldan hátt hvort það erfiðasta og mikilvægasta varðandi þennan flugvöll væri hægt að afgreiða í einum stuttum leiðangri.
Agnar var einn af fróðustu og reyndustu flugsérfræðingum Evrópu og vissi, að í algengustu hvassviðrisvindáttinni við Straumsvík var miklu meiri ókýrrð vegna nálægðar við fjöll en í Vatnsmýri.
Einn ókyrrðardag vegna austsuðaustanhvassviðrirs var flogið tilraunaflug með flugráð í eftirlíkingu af aðflugi og fráflugi að hugsanlegri braut í Kapelluhrauni.
Í flugtakinu frá Reykjavíkurflugvelli var ansi mikil ókyrrð en þó voru skilyrði innan marka.
Í aðflugi að Kapelluhrauni máttu flugmennirnir hins vegar hafa sig alla við við að halda stjórn á vélinni vegna svo mikillar ókyrrðar, að augljóst var að ekki hefði verið hægt að lenda.
Í beinu framhaldi reyndist síðan ekki minni þraut að klifra vélinni og líkja eftir flugtaki og halda síðan til Reykjavíkur.
Nú voru ælupokarnir komnir á loft hjá flestum og menn því fegnir að geta endað þessa flugferð, sem ekki var endurtekin.
Þar var að vísu mikil ókyrrð í aðfluginu inn Skerjafjörðin, en ekki meiri en svo, að flugmennirnir gátu brugðist við á fullnægjandi hátt.
Þegar litið er til baka yfir þessa sögu virkar það svolitið skondið að nú þurfi margra ára vindmælingar á jörðu niðri til að finna það út sem fundið var út í raunverulegum flugskilyrðum hér um árið.
Ferill flugvéla í aðflugi, lendingu, flugtaki og fráflugi liggur að mestu leyti í gegnum loftrými, þar sem ekki er hægt að mæla hreyfingu vinds með neinni nákvæmni.
Bæði Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur eru á þeim einu tveim stöðum, þar sem hægt er að hafa flugvöll utan eldvirks svæðis Reykjanesskagans.
Í Reykjavík er minnsta úrkoman og bestu veðurfarsskilyrði sem völ er á fyrir flugvöll.
Það er hlálegt þegar nú er hafin eldvirkni á ný á Reykjanesskaganum eftir átta hundruð ára hlé, skuli menn ætla að rjúka til og eyðileggja þá öryggismöguleika sem núverandi flugvallaskipan skapar.
Þer sem hæst hafa nú um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður tala alltaf eins og þungamiðja byggðar höfuðborgarsvæðisins sé í Vatnsmýri.
Senn verða hundrað ár síðan þungamiðjan var þar, en núna er þessi þungamiðja á mörkum Kópavogs og Reykjavíkur við Smiðjuhverfi og Mjódd.
Andstæðingar vallarins eru svo heillum horfnir, að þeir halda því fram í alvöru að ef Reykjavíkurflugvöllur hefði ekki verið byggður, væri engin byggð austan Elliðaáa og þeir 130 þúsund íbúar, sem nú eiga heima austan Elliðaáa, ættu heima vestan ánna!
Hvassahraunsvöllur tilbúinn 2040? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk Ómar. Skora á þig að krefja frambjóðendur til borgarstjórnar um afstöðu til flugvallarins. Það er tekið eftir því sem þú leggur til málanna.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 25.3.2022 kl. 13:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.