"Hið kalda hjarta hafanna" frá 1997 fjallaði um hættuna á kólnun við Ísland.

Danskir haffræðingar hafa löngum staðið framarlega í rannsóknum á nyrsta hluta Norður-Atlantshafsins og á grundvelli þess var gerður danskur sjónvarpsþáttur um málið, sem sýndur var ytra. 

Lýsing þáttarins á áhrifum loftslagshlýnunar var ansi ólík því, sem nú er gefið út sem norsk rannsókn á þessu efni, því að niðurstaðan var sú, að hætta gæti verið á því að vegna stóraukins flæðis af fersku leysingavatni frá Grænlandshafi út í straumaskilin við Ísland myndi Golfstraumurinn að hluta til ekki ná eins langt í norður og áður, af því að saltur sjór væri þyngri en leysingavatnið. 

Í gangi er hringrás og straumakerfi, sem þeir dönsku kölluðu "Hið kalda hjarta hafanna", sem Golfstraumurinn er hluti af, en hann kemur úr suðri norður til straumaskilanna, þar sem hann sekkur og rennur suður allt Atlantshaf, austur í Inlandshaf og þaðan til baka. 

Vegna þess hve þetta efni tengist Íslandi mikið var danski þátturinn gerður að uppistöðu í íslenskum þætti, sem vakti það mikla athygli að bæði forseti Íslands og forsætisráðherra gerðu þetta að umtalsefni í áramótaávörpum sínum og voru sem oftar býsna ósammála. 

Sú sviðsmynd, að færsla drekkingar Golfstraumsins til suðurs gæti valdið staðbundinni kólnun loftslags í norðvestanverðri Evrópu var áhyggjuefni. 

Á öllum þeim ráðstefnum sem síðan hafa verið haldnar hér á landi síðan 1997 hafa verið birtar tölvulíkön með loftslagi jarðarinnar til framtíðar, og á þeim öllum eru þrjú svæði, sem skera sig úr miðað hina miklu hlýnun um alla jörðina. 

Eitt þessara þriggja svæða var í nær öllum tilfellum suðvestur af Íslandi.  


mbl.is Flæði Golfstraumsins í Norðurhöf aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Já og þeir sem gleðjast yfir því að flæði Golfstraumsins hafi aukizt í Norðurhöf gætu orðið hissa síðar ef það flæði minnkar eða hverfur. Ég man eftir heimildamynd á RÚV sem ég gleymi aldrei, að mig minnir fyrir 20 árum þar sem vísindamenn fjölluðu um breytingar ekki á 100 árum heldur 300.000 ár aftur í tímann, og þar var sýnt hvernig talið var að ísaldirnar hefðu byrjað hugsanlega svona, með breytingum á Golfstraumnum, og þá kannski vegna mengunar vegna loftsteinahraps í fyrndinni. Áhrif mannsins gætu orðið þau sömu.

Það er of snemmt að fagna, að fikta í náttúrunni getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, og Trausti veðurfræðingur hefur fjallað um óvenjumikla umhleypinga á þessu ári. Þar eru vísindi.

Ingólfur Sigurðsson, 25.3.2022 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband