26.5.2022 | 18:43
"Svalt að vera stúdentar."
Nú er tími útskriftanna og þeirra, sem hafa löngum og hafa gengið undir heitinu "júbílantar", og gera það enn, að minnsta kosti í elsta menntaskólanum MR.
Í þeim skóla hefur ákveðinn sönghópur, MR60, iðkað reglubundnar söngæfingar síðan 1994, lengst af undir stjórn Sigvalda Snæs Kaldalóns.
2020 gaf þessi árgangur skólanum lagið og ljóðið "Svalt að vera stúdentar", sem líkast til er eina alíslenska lag og ljóð um það að vera "júbílant".
Einföld gerð hans, ein rödd með píanóundirleik, var afhent skólanum við útskriftarathöfnina þegar árgangurinn 1960 fagnaði 60 ára stúdentsafmæli sínu.
Til stóð þá að sönghópurinn kláraði verkið með því að syngja lagið saman, en kórónaveikin kom í veg fyrir starf sönghópsins þar til nú.
Búið er að syngja lagið inn að níu, og verið að hljóðblanda eintak. Textinn, sem sunginn er, er svohljóðandi - áherslurímorð í innrími eru skáletruð.
SVALT AÐ VERA STÚDENTAR.
Nú gleðibraginn okkar syngur sérhver júbílant,
er til í slaginn eins og menntaskólafólk er vant.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða menntaskólastúdentar.
Á skólaárum margt er brallað, það er brjálað fjör,
svo létt á bárum þá við erum, lífsins nautn er ör.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða menntaskólastúdentar.
Svo skilja leiðir og við förum svona sitt á hvað,
en gamli seiðurinn, hann blundar samt við hjartastað.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða aldarfjórðungsstundentar.
Og hvort sem hárunum, þeim fækkar eða eru grá
þegar árin fara´að líða hraða okkur hjá.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða 40 ára stúdentar.
Nú glösum klingjum við, um seiglu okkar segir allt,
að kát við syngjum alltaf Gaudeamus hátt og snjallt.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða 50 ára stúdentar.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða 60 ára´og 70 ára´
og eilíflega stúdentar!
Ætlar að vera með stúdentshúfuna út árið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.