27.8.2022 | 23:27
GAGA (MAD) hefur sinn gang.
Hér um árið var það stundum haft á orði í umræðum um áfengismál að "áfengisbölið yrði að hafa sinn gang." Var að vísu dálítið hranalega orðað, en samt visst raunsæi varðandi svona endalaust erfitt viðfangsefni.
Eitthvað svipað virðist ráða ríkjum í svonefndu "ógnarjafnvægi", orð sem notað er um það fyrirbæri, að fremstu stórveldi heims skuli hafa komið upp hjá sér kjarnorkuvopnabirgðum, sem geta drepið alla íbúa þessara ríkja mörgum sinnum.
Sú fáránlega staðreynd sýnir að vísu kaldhæðnislega hlið á þeirri hugsun eigenda þessara vopna, að það sé "öryggisatriði" að eiga sem langstærstar birgðir til vara, svo að það sé alveg öruggt að öllu lífi verði eytt í kjarnorkustyrjöld, ef allt fer úr böndunum.
Í ofanálag kemur síðan sú mótsögn, að eign slíkra vopna sé gagnslaus, nema að mótaðilinn geti treyst því að menn geti átt það til að nota þau!
Í fúlli alvöru litaðri af ofboðslegri kaldhæðni heitir "fælingarkenningin" (deterrent) MAD, sem er skammstöfun fyrir Mutual assured destruction.
Í íslenskrir þýðingu GAGA, þ.e. Gagnkvæm altryggð gereyðing allra.
Engan þarf því að undra að á ráðstefnu Semeinuðu þjóðanna um kjarnorkuafvopnun hiksti menn á því að ná samkomulagi í þessari djöflavitleysu á þeim tíma sem stríð er háð milli aðila, sem báðir ráða yfir megninu af öllum kjarnorkuvopnum heims.
Rússar hindra samþykkt um kjarnorkuafvopnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Árið 1994 réðu Úkraínumenn yfir þriðju mestu birgðum kjarnavopna í heimi, næst á eftir Bandaríkjamönnum og Rússum. Það ár afhentu þeir Rússum öll kjarnavopn sín gegn því að Rússar ábyrgðust fullveldi og landamæri Úkraínu.
Hefði Pútín lagt út í þessar "sérstöku hernaðaraðgerðir" sínar ef Úkraínumenn réðu enn þá yfir kjarnavopnum?
Hörður Þoormar (IP-tala skráð) 28.8.2022 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.