30.9.2022 | 23:09
Gasgrímum dreift á milli tugmilljóna fólks 1939. "MAD" og "GAGA."
Ein helsta viðbúnaðarráðstöfunin hjá Bretum, þegar stríð braust út með þeim og Þjóðverjum 3. september 1939, var að dreifa gasgrímum til íbúa Bretlands.
Ári fyrr hafði Neville Chamberlain forsætisráðherra rætt um það í ræðu þegar í óefni stefndi í deilunum út af Súdetahéruðunum í Tékkóslóvakí hve fáránlegt það væri að Bretar væru tilbúnir að setja upp gasgrímur út af þjóð í fjarlægu landi, sem þeir þekktu ekki neitt.
Þá náðust samningar sem höfðu þó ekki meiri áhrif en þau, að aðeins sex mánuðum síðar rauf Hitler þá og lagði alla Tékkóslóvakíu undir sig.
Orð hans 15. mars 1939 hljóma kunnuglega núna: "Tékkóslóvakía er ekki lengur til." Hún var orðin hluti af þýska ríkinu líkt og Austurríki hafði orðið ári fyrr.
Árin 1938 og 1939 hafði eiturgas sem vopn svipaða stöðu og kjarnorkan nú. Gasið hafði verið notað í það miklum mæli undir lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar að það var erfitt og jafnvel ómögulegt að reikna út hvert það myndi berast og drepa jafnvel fleiri úr röðum þeirra, sem beittu því en þeirra sem gasinu var ætlað að drepa.
Niðurstaðan varð sú að eiturgasi var aldrei beitt í styrjöldinni, enda líklegt að sá, sem ráðist yrði á, myndi bregðast við með gagnárás með eiturgasi.
Þegar Bandaríkjamenn urðu fyrsta og eina þjóðin til þess að beita milljón sinnum öflugra gereyðingarvopni í Hirosíma og Nagasaki, var hugsunin að baki býsna skammsýn.
Fram til 1949, í fjögur ár, áttu Bandaríkjamenn einir slík vopn, og sprengjurnar voru orðnar fimmtíu árið 1948 og hægt að beita þeim á tugi borga í Sovétríkjunum. Hótunin um beitingu þeirra hafði bit í ljósi "hefðarinnar" sem beiting þeirra á Japani hafði haft.
Í skjóli þessarar hótunar gátu Bandaríkjamenn haft minni hefðbundinn herafla en ella.
En þeir hefðu átt að geta séð það fyrir, að Sovétmenn hlytu fyrr eðs síðar að eignast slíkt vopn og þar með skapað hræðilegasta vopnakapphlaup allra tíma og svonefnt ógnarjafnvægi í krafti kennisetningarinnar MAD, "Mutual assured destruction", GAGA á íslensku, "Gagnkvæm altryggð gereyðing allra."
Það er hálfsannleikur hjá Pútín að Bandaríkin hafi skapað fordæmi með notkun kjarnavopna, því að það var líka fordæmi hjá þeim eftir það að nota ekki kjarnavopn í Kóreustríðinu né Víetnamstríðinu.
Harry S. Truman rak yfirhershöfðingjann og stríðshetjuna Douglas Mac Arthur fyrir að mæla með beitingu kjarnavopna gegn Kínverjum og Mao kallaði Bandaríkjamenn "pappírstígrisdýr."
Það er ábyrgðarleysi hjá Pútín að tala eins og hann gerir varðandi kjarnavopnin.
Hann mætti muna það, að Úkraínumenn afsöluðu sér öllum kjarorkuherafla og stórvirkasta herbúnaði sínum eftir hrun Sovétríkjanna til þess að skapa traust, sem nú hefur verið laskað herfilega.
P
Vísar til fordæmis Bandaríkjanna með kjarnavopn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.