"Síldin lagðist frá" 1967, en bankabólan 2003 er ógn, sem "leggst ekki frá."

Efnahagsuppsveiflan, sem varð hér á landi á fyrri hluta sjöunda áratugs síðustu aldar, "síldarævintýrið", var sú næst mesta í sögu þjóðarinnar, - aðeins stríðsgróðatímabilið 1949 til 1945 var stærra. 

Í kjölfarið á báðum fylgdi erfitt samdráttarskeið, sem höfðu verið fyrirsjáanleg og hægt að milda ef tímanlega hefði verið gripið til aðgerða í þá átt. 

Vesturveldin höfðu ráðist inn í Normandy ellefu dögum fyrir lýðveldisstofnun og ósigur Öxulveldanna blasti við þegar leið á sumarið.

Eftir stríðslok leið ekki nema rúmt ár þar til öllum hinum gífurlega stríðsgróða hafði verið eytt upp til agna og við tók rúmur áratugur hafta, skömmtunar og stöðnunar. 

Síldarævintýrið fór stigvaxandi á sjöunda áratugnum í krafti ákafra veiða á einhverjum öflugasta fiskistofni heims, norsk-íslenska síldarstofnsins. 

Þá gerðist hið óhjákvæmilega: Stofninn hrundi skyndilega og afar hastarlega og þótt það hrun hafi kannski ekki verið eins fyrirsjáanlegt og bakslagið eftir Heimsstyrjöldina, var það sársaukafullt. 

Afneitunin var mikil. Á ferðum um síldarslóðir á norausturhluta landsins árin á eftir sögðu heimamenn margir þegar rætt var um það sem var að gerast eða hafði gerst, að það hefði gerst "eftir að síldin lagðist frá", já, hún hafði ekki verið ofveidd heldur fór hún bara eitthvað annað!  

Nú ber svo við að Gísli Gíslason, svæðisstjóri "Norður-Atlandshafs fiskveiðiráðsins" varar sterklega við ofveiði á þessu hafsvæði og færir sterk rök fyrir því, að tekið verði í taumana. 

Þau rök virðast ekki veikari en rök þeirra, sem vöruðu sterklega við hruni í efnahags- og bankamálum í aðdraganda bankahrunsins 2003-2008 þegar flestir aðrir fóru með himinskautum í að blása upp hina risavöxnu sápukúlu sem sprakk síðan framan í þjóðina. 

Þessa dagana erum við minnt á upphafsár bankabólunnar þegar Framsóknarflokkurinn rak kosningabaráttu á þeim forsendum, að rétt væri að hefja stórsókn í lánveitingum bankakerfisins upp á 90 prósent lán. 

Aðvaranir gegn slíku voru hunsaðar og hæddar, en núna, tveimur áratugum síðar heldur skuldabólan, sem stofnað var til, áfram að vaxa með veldishraða og mun fyrirsjáanlega springa þeim mun harkalegra, sem seinna verður gripið til aðgerða í LÍN-málinu svonefnda. 

Lánabólan 2003 til 2008 og síldveiðibólan 1960-1967 eru hliðstæð fyrirbæri fyrirhyggjuleysis og raunsæisskorts; hið eyddist upp til agna í stað þess að "leggjast frá" en hið síðara fyrirbærið á eftir að springa upp til agna í stað þess að vandamálið "leggist frá." 


mbl.is Varar við ofveiði á Norður-Atlantshafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eða eins og þær gömlu sögðu "Ef þið hættið ekki að njóta sólarinnar þá kemur rok og rigning". Það er allavega öruggt að áfram mun gott veður, góður afli, góðæri, happ og hamingja verða af einhverjum sagt undanfari hörmunga. Og þarf ekki til, smá jarðris eða lítill jarðskjálfti nægir til að eldgosi á borð við Skaftárelda sé spáð. Og það getur orðið snúið að læra eitthvað af þeim spádómi sem rættist sem hinir þúsund sem ekki rættust kenna okkur um eðli spádóma og ástæður til að taka á þeim mark og bregðast við.

Vagn (IP-tala skráð) 3.11.2022 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband