Múrar aðskilnaðarstefnu hafa ekki gott orð á sér.

"Gorbatsjof, rífðu þennan múr niður" voru fleyg orð Ronalds Reagans í ræðu hans nálægt Berlínarmúrnum, skömmu fyrir fall múrsins. 

Múrinn var tákn ófrelsis og kúgunar sem vestrænar þjóðir gagnrýndu mjög. Yfirvöld í Austur-Þýskalandi afsökuðu byggingu hans með því, að hinu kommúniska þjóðfélagi í landinu myndi blæða út með sama áframhaldi fólksflótta úr landinu. 

Lungann úr síðustu öld ríkti aðskilnaðarstefna í Suður-Afríku. Fyrsta aðgerð Gandhis samkvæmt módelinu "borgaraleg óhlýðni" fólst í því að hann mótmælti aðskilnaði með því að vera án beitingu ofbeldis, staddur á landsvæði, þar sem hann mátti ekki vera, og var fjalægður með lögregluvaldi. Þrátt fyrir þá röksemd, að aðskilnaður kynþáttanna væri óumflýjanlegur, hrundi þessi aðskilnaður um síðir.  

Hundrað árum síðar sat andófsfólk gegn lagningu nýs Álftanesvegar í Gálgahrauni semkvæmt formúlunni um borgaralega óhlýðni og var fjarlægt og borið burt með lögregluvaldi. Í úrskurði dómara í málinu var viðurkennd tilvera borgaralegrar óhlýðni samkvæmt vestrænu réttarfari. 

Um alllangt skeið hefur staðið múr, sem Ísraelsmenn reistu til að tryggja aðskilnað Gyðinga og Palestinumanna, sem hefur verið þyrnir í augum mannréttindasamtaka. 

Frá valdatíma Donalds Trump 2017-2021, hefur verið byrjað á að reisa risavaxinn múr til að tryggja aðskilnað Bandaríkjamanna og fólks sem hefur sóst eftir að komast inn í Bandaríkin. 

Í viðtengdri frétt á mbl.is er greint frá slíkum múr við landamæri Arizonaríkis og Mexíkó, sem nú á að fara að rífa í kjölfar mótmæla. 

Enginn múr í sögunni jafnast þó enn á við Kínamúrinn, sem sést vel utan úr geimnum. 

Þótt ekki sé vitað nákvæmlega um ástæðurnar fyrir þeirri stórbrotnu framkvæmd, er þó ljóst, að ástæðurnar hafa verið eins konar aðskilnaðarviðleitni kínverskra valdhafa, beitingu valds, líkt og verið hefur um svo margar hliðstæður í árþúsunda sögu mannkyns, síðan þetta eitt af helstu undrum veraldar var reist. 

 


mbl.is Gámamúrinn verður fjarlægður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yfirleitt voru borgir til forna umkringdar múrum til varnar gegn óvinum sem reyndu að komast inn í þær. Þessir múrar voru þó ekki alltaf traustir. T.d.hrundu múrar Jerikó þegar Ísraelsmenn blésu í lúðra. Ekki hjálpuðu heldur múrar Tróju þegar íbúarnir fluttu tréhestinn inn fyrir þá. Og svo hafa margir múrar ekki verið nógu háir svo að asnar klyfjaðir gulli komust yfir þá.

Berlínarmúrinn var sérstakur að því leyti að hann var gerður til þess að varna íbúum borgarinnar að komast út úr henni. Hann hrundi svo einn góðan veðurdag, ekki vegna lúðrablásturs heldur vegna ógætilegra orða fulltrúa yfirvalda á blaðamannafundi.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 23.12.2022 kl. 00:06

2 identicon

Ómar! Donald Trump hefur einmitt svarað gagnrýni eins og þú kemur með á aðskilnaðarmúrinn. Hann benti á að þeir sem hefðu vegabréf og/eða vísa væru boðnir velkomnir inn í Bandaríkin, aðrir ekki. Ólöglegum innflytjendum þyrfti að halda fyrir utan. Við ættum sannarlega að taka undir þetta með Trump hér á Íslandi í dag.

Trump benti jafnframt á þá staðreynd að allir þyrftu vegabréf til að komast inn í Himnaríki. Vegabréfið væri játning trúar á Jesú Krist meðan men lifðu hér á jörðinni. Þetta vegabréf geta allir fengið sem sækjast eftir því á meðan þeir lifa hér á jörðu. En það er of seint að iðrast eftir dauðann.

Inn í helvíti þarf engan múr, enda sagði Trump að þangað væru allir velkomnir sem vildu, án vegabréfs.

Þessum aðskilnaðar-múr milli Himnaríkis og Helvítis lýsir Jesús í frásögninni sem hann segir um Ríka manninn og Lasarus. Sagan er í Lúkasarguðspjalli kafla 16.

Þú þekkir líka þjóðsöguna, Sálin hans Jóns míns, hvernig kerlingin fór að því að koma sálu Jóns inn fyrir Gullna hliðið með ólöglegum hætti. Það er betra að hafa allan varan á.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 23.12.2022 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband