25.2.2023 | 14:10
Ein af mörgum útskýringum: Örþreyttir menn gera frekar mistök.
18 mínútna kaflinn frægi og örlagaríki á HM hjá íslenska landsliðinu í leiknum gegn Ungverjum markaðist mjög af svonefndum tæknifeilum og mistökum.
Undirliggjandi orsök kann að vera sú, að of lengi hafi verið keyrt á sömu mönnunum og nefndi einn leikskýrandi í blaðaviðtali tölurnar, sem voru þessar: Ísland notaði 7-9 menn á sama tíma og aðrir notuðu 14-16.
Í eins ofboðslega hröðum bolta og spilaður er látlaust í nútíma handbolta, reynir mun meira á hvern mann meðan hann er inn á heldur en ef hann er ekki notaður.
Nefnt hefur verið að Aron Pálmarsson sé að meðaltali aðeins inn á hjá Álaborg í helming leiktímans.
Það hefur verið nefnt að Aron sé svo frábær varnarmaður að hann þurfi að vera lengur inni á, jafnvel heila leiki á HM til þess að færni hans sem varnarmanns nýtist.
Þetta er augljós mótsögn; þvert á moti er verið með þessu að keyra manninn út um of og hann fer óhjákvæmilega að gera óþarfa mistök.
Til þess að komast að kjarna málsins þyrfti að skoða leiki liðsins vandlega með skeiðklukku og samlagningu og bera þær mælingar við keppinautana.
Þá gæti blasað við að óvenju mikil breidd í leikmannahópi Íslands hafi verið stórlega vannýtt, sem meðal annars kom fram í því að Kristján Kristjánsson kom aðeins inn á í nokkrar mínútur og stóð sig mjög vel, en fékk því miður alltof stuttan tíma til þess.
Óánægja með störf Guðmundar innan landsliðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það sem mætti líka velta fyrir sér eru mínúturnar á undan "18 mínútna kaflanum", þegar frönsku systurnar tóku ákvarðanir sem hæglega mátti deila um.
Á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks var leikmaður Íslands rekinn út af í tvær mínútur, vegna þess að þær töldu hann hafa truflað hraða miðju Ungverja. Við nánari skoðun var hann ekki í miðjuhringnum, heldur rétt utan hans og átti fullan rétt á að hlaupa þar. Þótt ungverski markvörðurinn kastaði boltanum í bakið á honum, þá gerði hann enga tilraun til að trufla hröðu miðjuna og var ekki í sendingarleiðinni að miðjuhringnum.
Þegar tæplega 9 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik hljóp ungverskur leikmaður í veg fyrir íslenskan leikmann sem var á leið í miðjuhringinn og trufluðu hann þannig við að grípa sendingu frá markmanni Íslands. Þetta virtust þær frönsku ekki hafa séð, heldur ráku þær íslenska leikmannin út af í tvær mínútur - að því er virtist vegna þess að þær töldu hann hafa reynt að "fiska" tveggja mínútna brottvísun á annan leikmann Ungverja (vegna truflunar á hraðri miðju). Í þokkabót fengu Ungverjar þar með boltann aftur og fengu þannig tvær sóknir í röð.
Það sem á eftir fylgdi var hrun í leik íslenska liðsins og Ungverjar virtust fá aukinn baráttuvilja til að snúa við leik, þar sem þeir höfðu fram að því verið mun lakara liðið (og eiginlega alveg "á hælunum"). Íslenska liðið virtist ekki eiga nein vopn til að brjóta upp leikinn og koma Ungverjunum í opna skjöldu, það hjakkaði nánast í sama farinu og því fór sem fór.
Ég kenni frönsku systrunum ekki um að þessi leikur tapaðist, heldur kenni ég því um að íslenska liðið virtist brotna við þetta mótlæti. Tvær ákvarðanir frönsku systranna sem litu út fyrir að vera augljóslega rangar, Ungverjarnir sáu vonarneista og íslenska liðið koðnaði niður. Þeir sem stjórnuðu því brugðust ekki við, heldur virtust standa ráðþrota á hliðarlínunni. Ungverjar gengu á lagið, þökkuðu pent fyrir og hirtu þannig tvö stig og innbyrðist sigurinn sem þeir þurftu til að komast áfram úr riðlinum.
Einhvers staðar stendur að það sé skilgreining á brjálæði þegar haldið er áfram á sömu braut, um leið og búist er við annarri niðurstöðu en áður. Það má með rökum líkja stjórnun íslenska liðsins á mótinu - og þá sérstaklega á þessum kafla - við þetta.
TJ (IP-tala skráð) 25.2.2023 kl. 15:05
Ólafur Stefánsson fór á kostum í hádegisverði hjá Þrótti fyrir Hm, þegar hann útlistaði hve heimskulegt það væri að kenna dómurunum um hluti í handbolta; þeir væru bara einfaldlega alltaf mistækir og lélegir og hluti af vellinum eins og stengur og þverslár, og auðvitað þýddi ekkert að kenna stöngum og þverslám um það að vera í vegi fyrir boltanum þegar skotið væri í þetta heimska tréverek!
Ómar Ragnarsson, 25.2.2023 kl. 21:59
Fjðldi "tæknifeila" á þessum kafla voru ekki vegna vonleysis eða skorts á viðleitni, heldur báru þeir augljós merki um þreytu´útkeyrðra leikmanna.
Síðan er líka að líta til þess að það er eðli leikja, að mistök raðast ekki alltaf jafnt yfir leiktímann, heldur koma oft í bylgjuj.
Ómar Ragnarsson, 25.2.2023 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.