MiG er skammstöfun yfir heitið Mikoyan Gurevitsh sem hlaut heimsfrægð í upphafi Kóreustríðsins sem fyrsta orrustuþota Sovétríkanna með tegundarheitið MiG 15 og hrellti Bandaríkjamenn, gerði bulluhreyflavélarnar P-51 Mustang úreltar og þóttu hafa marga kosti fram yfir Sabreþoturnar, sem Bandaríkjamenn voru að taka í notkun. Myndin hér er af Mig 29.
Þær rússnesku voru mun léttari og liprari og klifruðu betur.
Í ljós kom að þessir kostir byggðust að hluta til á því að einfalda mjög gerð MiG 15 þotnanna og létta þær, og til dæmis voru hemlar þeirra hlægilega einfaldir, knúnir af þrýstilofti á kútum.
Gat komið fyrir að þær yrðu hemlalausar af loftleysi í lendingu. Brynvörn var spöruð og fleira í þeim dúr. Aðeins miklu betri þjálfum bandarísku flugmannanna gat snúið taflinu við auk þess sem þotur þeirra voru stórlega endurbættar.
Í kjölfar MiG 15 komu nýjar gerðir fram í Kalda stríðinu með hækkandi númerum, sem allar reyndust býsna vel hannaðar, og hefur MiG 29 orðið svo langlíf eftir 33ja ára feril, ekki aðeins vegna furðu mikillar getu, heldur líka vegna þess hvernig reynt hefur verið að tryggja að sem einfaldast,ódýrast og öruggast sé að halda henni vel við.
Þegar þessi þota fer nú frá NATO landinu Póllandi, þar sem hún hóf feril sinn upphaflega þegar Pólverjar voru í Varsjárbandalaginu og henni var ætlað að berjast við þotur NATO, en á nú að herja á þotur Rússa, hefur hún farið í einstæðan hring, sérstaklega vegna þess hve einföld hún er í rekstri.
Eftir 1990 hafa Sukoi Su27 og Su 35 orðið að skæðustu orrustuþotum Rússa, og sýndu á flugsýningu í París 1997 frábærustu hæfni, sem sýnd hefur verið á flugsýningum.
Af þessum sökum talar Pútín digurbarkalega um eyðileggingu hinna nýju verkfæra Pólverja.
Úkraínumenn fá einstaklega erfiðan andstæðing að fást við, og verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður.
Þoturnar verða eyðilagðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í bók Max Hastings um sögu Kóreustríðsins sem ég þýddi og kom út nú í vetur er heill kafli bara um lofthernaðinn þar. Kóreustríðið var merkilegt í flugsögunni því þar tókust orrustuþotur í fyrsta skiptið á í stríði.
Magnus Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.3.2023 kl. 23:03
Þer ber að þakka sérstaklega fyrir tvö glæsileg þýðingarverk, bækur Hastings um Seinni heimsstyrjöldina og Kóreustríðið. Þá síðarnefndu las ég af sérstakri ánægju, því að sú styrjöld var fyrsta styrjöldin sem háð var undir ógn stigmögnunar upp í notkun kjarnorkuvopna og því sérlega áhugaverð samsvörun við Úkraínustríðið.
Stærðarmunurinn er hins vegar óskaplegur. Vitað var að Bandaríkjamenn voru komnir með um 50 kjarnorkusprengjur 1948, en fyrstu vetnissprengjurnar komu ekki fyrr en 1952.
Nú er hins vegar samanlagt kjarnorkuvopnabúr heimsins svo margfalt öflugra, að um er að ræða allsherjar ragnarök ef mistök verða, samanber MAD (ísl. GAGA) sem alloft hefur verið fjallað um hér á síðunni.
Ómar Ragnarsson, 18.3.2023 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.