KOMNIR Í GJÁSTYKKI, - LÍTIL BYRJUN Á STÓRU VERKI.

Myndin hér fyrir neðan segir sína sögu, - vinnuvélar að störfum í Gjástykki innan um gígaraðir og sprungur. Í fréttum má nú sjá að búið sé nánast að afla 70 prósenta af þeirri orku sem þurfi fyrir fyrsta áfanga álvers  við Húsavík. Gefin er sú meginhugmynd að búið sé að útvega orkuna og nú sé bara að byrja að reisa álverið. Þetta er byggt á því að nýjar holur nyrðra gefi vonir um 90 megavött og í viðbót geti menn notað 60 megavöttin sem nú eru framleidd í Kröflu. Þetta er lúmsk aðferð en hefur reynst vel til að "selja" álvershugmyndir því þegar rýnt er nánar í þetta sést að þessi orka er bara lítið brot af því sem þarf.

60 megavöttin sem nú fást við Kröflu eru nefnilega notuð annars staðar í kerfinu og þeir sem hafa notað hana munu ekki sleppa hendinni af þeim svo auðveldlega.

Fyrri áfanginnn, sem rætt er um, er aðeins 120 þúsund tonn og þarf 200 megavött. Þá vantar 200 megavött í viðbót fyrir síðari áfangann. Og síðan hafa talsmenn allra álfyrirtækjanna sagt að lágmarksstærð varðandi hagkvæmni sé 500 þúsund tonn.

Álver á Bakka mun í lokin þurfa 800 megavött eða níu sinni meira en nemur hinni "nýju orku" sem nú á að vera í hendi. 

Rætt er um að eðlilegt sé að 150 megavatta orka Blönduvirkjunar verði notuð fyrir norðan en hennar er sárlega þörf fyrir sunnan eins og verið hefur, enda er Orkuveita Reykjavíkur búin að lofa upp í ermina á sér orku fyrir Helguvík.

Orkan fyrir norðan er nú tekin á þremur svæðum, við Þeystareyki, Bjarnarflag og Kröflu en þegar flogið er yfir svæðið sést að virkjanaherinn sækir inn að Leirhnjúki og Gjástykki. Rannsóknarleyfi fyrir Gjástykki var veitt tveimur dögum fyrir kosningar og á myndinni hér á síðunni, sem var tekin fyrir nokkrum dögum í Gjástykki fyrir norðan Kröflu, sést að vinnuvélar eru þegar komnar þangað.

Þetta byrjar smátt, - þeir segja að hér sé aðeins verið að taka efni í veginn, en  sporin frá Sogunum við Trölladyngju hræða. Þar var algerlega að óþörfu valdið miklum umhverfisspjöllum við mynni þessa frábærlega litfagra gils og á bakka Sogalækjarins. 

Spjöllin sem virkjanir á Leirhnjúks- Gjástykkissvæðinu eiga eftir að valda eru margfalt meiri en fólk gerir sér grein fyrir vegna þess að ekkert hefur verið gert til að upplýsa um hið einstæða umhverfi fjórtán eldgosa Kröfluelda 1975-84 sem gefur færi á sérstakri úrvinnslu kvikmyndanna af þeim.

Með hjálp kvikmynda og ljósmynda má gefa ferðamönnum færi á að öðlast einstaka upplifun sem hvergi er að fá annars staðar í heiminum.  

Aðferð virkjanafíklanna er ávallt sú sama, - þeir ráðstafa margsinnis sömu orkunni suður og norður og gefa þá mynd að þetta sé ósköp saklaust hjá þeim hvað snerti umhverfisröskun og orkuþörf. 

Í upphafi skyldi endinn skoða, - með einfaldri samlagningu má sjá að sex risaálver á Íslandi munu þurfa alla efnahagslega virkjanlega orku landsins.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr Ómar,

Er bara ekkert heilagt lengur, fyrir hvern er verið að þessu ég bara spyr.  Það vantar fólk til starfa um allt land og atvinnublað moggans slær hvert metið af öðru í umfangi.  Er ekki tímabært að staldra við, ekki fæ ég séð að verið sé að búa til störf fyrir Íslendinga, því við virðumst ekki fjölga okkur nógu hratt til að manna þau störf sem fyrir eru í landinu.  Það er bara hamast endalaust eins og óþekk börn þar til menn fá það sem þeir vilja. Er enginn alvöru stjórnmálmaður til sem þorir að segja stopp, nú er komið nóg.

Kv. Jón

Jon Sigurdsson (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 21:32

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Stjórnmálamaðurinn er til og hann skrifaði þessa færslu. Atvinnbindin inni á Alþingi sáu hinsvegar til þess að hann kæmist ekki að með því að setja 5% regluna.

Ég held að Lýðveldið Ísland þýði vald yfir lýðnum. 

Villi Asgeirsson, 2.9.2007 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband