FRÁLEITUR UPPSLÁTTUR.

Síðan hvenær er það orðið að stórmáli í fréttum hvort stjórnmálamenn hafa læknisvottorð upp á vasann þegar þeir koma úr veikindaleyfi? Þeir hafa oft og iðulega eins og annað fólk farið í veikindaleyfi og komið aftur án þess að blásist hafi upp umræða um vottorð, enda finnst mér það vera einkamál viðkomandi hvort hann fær sér slíkt vottorð og framvísar því eða ekki.

Dæmi: Ólafur Thors fór í margra mánaða veikindafrí að læknisráði og kom aftur án þess að nokkur væri að pæla í vottorði. Ingibjörg Pálmadóttir fékk aðsvif og hélt síðan áfram og enginn talaði um vottorð. Nýlega flutti Einar Karl Haraldsson ræðu fyrir Össur og enginn talaði um vottorð. Þyrla sótti forseta Íslands á Snæfellsnes og hann var fluttur á sjúkrahús þegar hann axlarbrotnaði í Landssveit og enginn minnist á vottorð.

Bush Bandaríkjaforseti fór í læknisaðgerð og var frá á meðan og engan fjölmiðil sá ég minnast á vottorð.

Kannski fengu allir þessir menn sér vottorð? Ef svo var, - hvað með það? Það veit það enginn því enginn hefur spurt enda einkamál viðkomandi.

Á bloggsíðu Önnu Kristinsdóttur kemur fram að hvergi sé stafur um vottorð í reglum borgarstjónar og þess vegna eru allar þessar samsæriskenningar og upphrópanir út í hött.

Ég segi bara: Hættum þessu kjaftæði og leyfum Ólafi F. að eiga jól og áramót í friði.


mbl.is Ólafur F. látinn skila vottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar, settu þig smástund í spor fréttamannsins, sem þú varst svo góður í að túlka!

Heldur þú að það hefði verið þín fyrsta spurning til viðkomandi aðila hvort borgarfulltrúinn hafi skilað læknisvottorði?  Það held ég ekki.  Út frá þessari pælingu finnst mér þessi frétt merkileg, því ég spyr mig hverjir sjá hag sinn í því að slá þessum upplýsingum upp sem stórfrétt?  Hvaðan kom þessi "plantaði leki" til fjölmiðla? 

Ólafi og öllum öðrum óska ég friðsamra hátíðadaga!

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 14:41

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef verið báðum megin borðsins og á því að hafa fullan skilning á því að fréttamenn vilji þjóna fólkinu og færa því þær fréttir sem það vill helst heyra.

Ég bendi á að fréttin sú arna um vottorðið er ein af þeim mest lesnu.

Það breytir þó í engu þeirri skoðun minni sem ég hef reifað hér að framan. Sjálfur tók ég þátt í fréttafárinu vegna Geirfinnsmálsins og ýmissa annarra mála sem ég hef síðan ekki verið hreykinn af að hafa látið hafa mig út í.

Ég gæti rakið ýmislegt í því sambandi eins og til dæmis oft á tíðum hlutdrægan fréttaflutning af þorskastríðunum sem ég tók þátt í og lét þar berast með straumnum.

Ómar Ragnarsson, 30.11.2007 kl. 14:53

3 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Hingað til hefur maður fyrst og fremst litið til læknisvottorðsins sem staðfestingar á því að menn séu ekki að slæpast heima hjá sér á fullu kaupi og það er ekkert að þeim.

Núna sýnist manni að einhver skrifræðiskappinn sé að krefja Ólaf um staðfestingu læknis á því að hann sé í standi til að hefja vinnu aftur. Það hefur nú tíðkast hingað til að menn gefi það til kynna með endurkomu sinni til starfa að þeir séu búnir að ná heilsu aftur.

Ég ætla ekki að leggja fé undir, en spái því að gula pressan í Reykjavík muni greina okkur nákvæmlega frá einkahögum Ólafs á næstunni, hvort sem það kemur okkur við eða ekki

Flosi Kristjánsson, 30.11.2007 kl. 15:16

4 identicon

Það eru tíðindi ef framkvæmdastjóri hjá Reykjavíkurborg, embættismaður í vinnu hjá kjósendum , krefur borgarfulltrúa um læknisvottorð, mann sem útsvarsgreiðendur hafa

kosið í borgarstjórn. Þetta getur ekki verið rétt en setjum svo að svo illa sé komið fyrir

siðblindusýslunni hjá Reykjavíkurborg, að þetta sé á rökum reist, þá þarf auðvitað að drífa í að reka þá starfsmenn borgarinnar sem halda að þeir eigi skattekjurnar og borgarana.Hvað ef hann kemur ekki með læknisvottorð ætlar þá embættismaðurinn að

reka Ólaf M ??. úr borgarstjórn ??

Skal að vísu viðurkennt að óheppilegt er hvernig borgarfulltrúar sjálfir hafa ákveðið kaup sín og kjör. 80% prósent af þingfararkaupi fyrir tvo fundi í mánuði og alls konar sporslur  að auki fyrir hverja hreyfingu.Bílar með einkabílstjóra á hverja tvo borgarfulltrúa og svo. frv. Svo sennilega hefur embættismaðurinn haldið að þeir væru

ráðnir , eins og hann sjálfur.Því  Nómenklatúrann ræður auðvitað Reykjavík og hefur gert a.m.k síðustu 20 ár 

jonas jónsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 17:20

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hver átti frumkvæði  að því að biðja um vottorð?

Sigurður Þórðarson, 1.12.2007 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband