7.12.2007 | 12:47
FORSENDUR, HEPPILEGA OG HAGRÆDD GÖGN RÁÐA.
Stóriðjusinnar fagna því að Ísland skuli vera í 3.sæti á lista þjóðanna í umhverfismálum og virðast álíta að það sanni að umhverfsissamtök hér hafi rangt fyrir sér. Ísland hefur áður komist hátt á svipuðum lista, og gaf ég mér tíma til að kafa í gegnum alla skýrsluna. Eitt af því sem skipti máli í þeirri skýrslu var ástand gróðurs. Nokkrar þjóðir gáfu ekki upplýsingar um það og í reit Íslands, Króatíu, Ukrainu og nokkurra A-Evrópu- og þróunarlanda stóð: NA, þ.e. ekki vitað. Þetta eina atriði sýndi að hjá að minnsta kosti Íslandi og Ukrainu var lokaniðurstaðan röng, Ukraina með sína geislavirkni eftir Chernobyl og Ísland þá með verstu gróðureyðingu heims miðað við stærð landins og íbúafjölda. Nú þarf kannski að kafa í gegnum nýju skýrsluna til að sjá hvað er á seyði. Af hinni nýju frétt má þó álykta. Ætli það, sem ræður nú, sé ekki margtuggin síbylja um hreinar og endurnýjanlegar orkulindir og það að 70 prósent húsa á Íslandi séu hituð með slíkri orku? Það út af fyrir sig segir ekkert um að neinar hugsjónir Íslendinga hafi verið að verki, -húsin eru eingöngu hituð með þessu vatni vegna þess að það er ódýrast og sparar gjaldeyri. Íslendingar földu ástand gróðurs í skýrslunni fyrir sjö árum. Nú ljúgum við því að Kárahnjúkavirkjun sé sjálfbær eilífðarvél eins og Sogsvirkjanirnar og segjum ekki frá því að orkan á Hengils- Hellisheiðarsvæðinu verði uppurin eftir aðeins 40 ár, hvað þá að 88% orkunnar fari til spillis og að útblástur brennisteinsvetnis sé margfaldur útblástur allra álvera landsins. Í þessari skýrslu er áreiðanlega ekkert um rányrkjuna á nokkrum afréttum landsins sem landgræðslustjóri sagði fyrir nokkrum árum að væru ekki beitarhæfir. Við förum senn upp í fyrsta sætið í heiminum hvað snertir koldíoxíðsútblástur á mann en líklega bjargar miklu fyrir okkur í þessari skýrslu að drykkjarvatn á Íslandi er hreint og loftgæði góð, en hvort tveggja er eingöngu því að þakka hve landið er dreifbýlt. Ætli rykmengun í stærstu þéttbýlisstöðum landsins sé tiltekin í þessara skýrslu frekar en ástand gróðurs fyrir sjö árum? Um svona skýrslur gildir bandaríska máltækið: "Garbage in - garbage out." Með því að gefnar eru hagkvæmar forsendur og við ljúgum síðan um staðreyndir, felum þær eða hagræðum þeim má komast hátt í skýrslum. Þegar ég hef tíma til ætla ég að reyna að kafa niður í nýju skýrsluna. Ef ég hefði ekki kafað niður í skýrslu SÞ fyrir sjö árum stæðu niðurstöður hennar enn letraðar gullnu letri í sögu landsins því að enginn annar hafði fyrir því að skoða smáaletrið þá. Stóriðjusinnar sjá nú væntanlega hilla undir það að við getum haldið áfram að vera ofarlega listanum með því að hafa engar áhyggjur af útblæstri bílanna okkar því að loftgæði á Íslandi verði áfram í fremstu röð. Eins og við horfum nú framhjá ýmsu sem máli skiptir, þarf ekkert að vera að minnast á það að 300 hestalfa þriggja tonna bíldreki í innkaupaferð í Reykjavík blæs jafnmiklu út í sameiginlegan lofthjúp allra jarðarbúa og jafnstór bíldreki í New York.
Ísland í fremstu röð í umhverfismálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta hlýtur að vera brandari. Ísland í fremstu röð í umhverfismálum??? Hér hefur Árósarsamningurinn enn ekki verið samþykktur. Vitund almennings um umhverfismál er á ótrúlega lágu plani. Hversu margir flokka eigið sorp eða leggja mikið upp úr því að fara um á vistvænu farartæki? Á heimsvísu losa íslendingar hlutfallslega einna mest af gróðurhúsalofttegundum og Geiri vill meira!
Hér er tölulegum upplýsingum sífellt haldið frá hagfræðingum og umhverfissinnum sem setja spurningarmerki við arðsemi virkjana. Ekki liggja neinar tölur til grundvallar um verðmæti þeirrar náttúru sem verið er að fórna. Að sama skapi er orkuverðið ekki gefið upp af svonefndum viðskiptahagsmunum. Upplýsingum er stungið undir stól og fræðimönnum stillt upp við vegg ef rannsóknir þeirra sýna ekki niðurstöður sem framkvæmdaaðilum hugnast að birta.
Sigurður Hrellir, 7.12.2007 kl. 14:20
Það getur verið að við teljum okkur ekki vera á góðu róli, en ég held að við séum ekki síður svona hátt á þessum lista vegna þess hvað aðrir standa sig illa. Mér finnst léleg önnur einkunn ekkert til að hreykja sér af. Svo er þessi einkunnargjöf þeirra eitthvað einkennileg og ekki trúverðugar sveiflurnar sem hafa verið á stöðu Íslands síðustu þrjú skipti.
Marinó G. Njálsson, 7.12.2007 kl. 14:37
þetta er eins þegar íslendingar eru sagðir þeir hamingjusömustu í heimi á einum listanum og á öðrum lista eru íslendingar í fyrsta sæti yfir þær þjóðir sem taka flest þunglyndislyf... eitthvað verulega gruggugt við þetta.
Björgvin Gunnarsson, 7.12.2007 kl. 14:51
Ekkert gruggugt við það Björgvin, lyfin eru greinilega að virka!
Spurning hvort umhverfissinnar þurfi ekki svoleiðis lyf, nú þegar þunglyndið hellist yfir þá vegna þessarar skýrslu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.12.2007 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.