8.12.2007 | 01:11
"SECOND TO NONE"
Ofantalin þrjú orð eru í miklu dálæti hjá Bandaríkjamönnum þegar hernaðarmáttur er annars vegar og dugði vel í kalda stríðinu. Þegar menn önduðu léttara við fall Sovétríkjana og veiklingu Rússlands vildi hinn mikli kjarnorkuhernaðarmáttur landsins gleymast, en hann gefur landinu sérstöðu miðað við önnur öflug ríki eins og Japan og Kína.
Gallinn við stefnu í varnarmálum öflugra ríkja er sú kenning sem menn treysta sér ekki til að hafna, að einhliða varnarviðbúnaður nægi ekki nema til staðar sé líka geta til sóknar.
Líklega er besta dæmi hernaðarsögunnar um þetta einhliða varnarviðbúnaður Frakka og Breta við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Engin áætlun var til hjá þeim um sókn inn í Þýskaland og vesturveldin höfðu ekki þorað að framleiða stórar sprengjuflugvélar vegna þess að þær yrðu taldar sóknarógnun.
Fyrir bragðið gátu Þjóðverjar ósköp rólegir sent nær helming herafla síns í innrásina í Pólland og lungann úr brynsveitum sínum (panzer), skriðdrekasveitum. Þeir luku leiðangrinum á methraða og voru síðan komnir til baka með heraflann til vesturlandamæranna á methraða eftir nýlögðum hraðbrautum.
Ráðamenn í austustu ríkjum NATÓ telja líklega ekki nægja að hafa þar hreinan varnarbúnað til að tryggja sig gegn huganlegri ásælni Rússa heldur þrýsta á sóknarbúnað í formi eldflauga.
Rússar telja sig á sama hátt ekki getað látið sem ekkert sé og aðeins treyst á varnarbúnað sinn heldur grípa þeir að sjálfsögðu til kjarnorkumáttar síns, eflingu sóknareldflauga og hefðbundins herafla í Evrópu.
Afleiðingin getur varla orðið nema ein: Vígbúnaðarkapphlaup, enn eina ferðina.
Það var dásamlegt að mannkynið slapp við gereyðingarstríð þegar kalda stríðið stóð sem hæst. Gallinn við það er bara sá að úr því að mannkynið slapp í það sinn fara menn að treysta því sem gefnum hlut að vígbúnaðarkapphlaup geti ekki endað í slíku stríði.
En lögmál Murphys lætur ekki að sér hæða. Ef eitthvað getur farið úrskeiðis mun það fyrr eða síðar gerast. Þess vegna var sú viðleitni sem hófst hér í Reykjavík á frægum fundi leiðtoga risaveldanna til að eyða gerðeyðingarvopnunum svo nauðsynleg.
Menn líta oft einhliða á Reagan sem haukinn sem vildi vígbúast svo heiftarlega að Sovétríkin yrðu undir í vopnakapphlaupinu.
Þá vill það gleymast í frægri ræðu sinni um geimvarnaráætlunina eða stjörnustríðsáætlunina setti hann fram þann vilja sinn að kjarorkuógninni yrði aflétt. Hann taldi ekki hægt að sætta sig við það að hún vofði yfir.
Nú er Rússland á uppleið efnahagslega og ef það stefnir smám saman í stigvaxandi vopnakapphlaup austurs og vesturs með þeirri hugsun að Rússland verði beygt í duftið í annað sinn eins og þegar Sovétríkin hrundu, þá er það hættuleg hugsun.
Hún leiðir til nýrrar og vaxandi kjarnorkuógnar og í þetta sinn er ekki víst að Rússland hrynji innan frá eins og Sovétríkin gerðu því að þrátt fyrir takmarkað lýðræði í Rússlandi hefur hið misheppnaða skipulag kommúnismans verið lagt þar niður, ríkið sæmileg heild en ekki kraðak sambandsríkja og aðstæður því aðrar en var í kringum 1990.
Rússar segja upp afvopnunarsamningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bandaríkjamenn hafa beitt kjarnorkuvopnum. Hafa Rússar gert það, Stalín til dæmis? Eystrasaltslöndin til dæmis og Finnland eru komin í Evrópusambandið og Úkraína mun að öllum líkindum ganga í það seinna. Áhrifasvæði Rússa hefur því minnkað mikið og þeim fækkar gríðarlega ár frá ári en þeir búa í stærsta landi heims.
Sendu Rússar eftirlitsmenn til Bandaríkjanna þegar núverandi Bandaríkjaforseti var "kosinn" í Flórídaskandalnum, þar sem bróðir hans Jeb var ríkisstjóri? Skipta Rússar sér af íslenskum og frönskum innanríkismálum, til dæmis? Helstu óvinir okkar voru Bretar en ekki Rússar en að sjálfsögðu vilja allir gæta hagsmuna sinna á úthöfunum vegna til dæmis olíu, fiskveiða, mengunar og siglinga.
Rússar hafa engan áhuga á innrás í Vestur-Evrópu, ekki frekar en Bandaríkjamenn hafa áhuga á ráðast á Kúbu. Þeir hafa engan hag af því, ekki frekar en Kínverjar hafa hag af því að ráðast á Tævan. En allir herir vilja eiga góðar græjur, alveg eins og flestir Rússar vilja frekar eiga BMW (Búmer) en Lödu. Og nú hefur hagur þeirra almennt vænkast með hærra verði á olíu, ekki síst vegna uppgangsins í Kína.
Steini Briem (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 04:28
Blindur fimm ára krakki sér hvað er að gerast í heiminum. Vopn og stríðstól hafa aldrei verið framleidd í jafn miklu magni á "friðartímum" og einmitt í dag. Er ekki kominn tími fyrir íslensk stjórnvöld til að mótmæla þessari þróun á alþjóðavetvangi. Ætli Geiri og sætasta stelpan á ballinu eða þessi sem gerir sama gagn vilji verða púuð niður á næsta NATO fundi?
Öll þessi vopn verða notuð fyrr en seinna til að verja frelsi, fegurð og ást. Þú þarft ekki að halda neitt annað. Víetnam, Kórea tilheyra fortíðinni, Írak og Afganistan í dag og á morgun verður það Íran og Evrópa.
Björn Heiðdal, 8.12.2007 kl. 11:14
Ég las nýlega athyglisverða bók, "Nazism at war". Í bókinni er sýnt fram á það með mjög sterkum rökum að alveg frá árinu 1936 var hernaðaruppbyggingin svo mikil í Þýskalandi að óhjákvæmilegt var að það yrði að nota vopnin í stríði og það stóru stríði. Annars féll hið þýska "efnahagsundur" í kreppunni saman.
Ég tel þetta að vísu ekki sanna það að smíði vopna leiði óhjákvæmilega til notkunar þeirra en hitt er jafnvíst að þeim mun meiri sem hervæðingin er, þeim mun "nauðsynlegra" verður að nota vopnin, stríðshættan vex í réttu hlutfalli við vopnarframleiðsluna.
Ómar Ragnarsson, 9.12.2007 kl. 06:50
Nasistar byggðu markvisst upp þýska herinn, ekki síst til að skapa sér það "Lebensraum" sem Hitler talaði um í bók sinni "Mein Kampf", sem fyrst var gefin út á árunum 1925-1926. Þýski herinn var því ekki bara upp á punt árið 1939, heldur ætluðu Nasistar sér að nota hann út í ystu æsar í stríði og gerðu það.
Rússar stöðvuðu hins vegar þýska herinn í orrustunni við Volguborg á árunum 1942-1943, í blóðugustu styrjöld mannkynssögunnar. Þeir eru nú 141 milljón, eða eins og Þjóðverjar og Bretar til samans, en helmingi færri en Bandaríkjamenn.
Þeir sem töpuðu stríðinu, Þjóðverjar og Japanir, áttuðu sig hins vegar á því eftir stríðið að þjóðir sigra heiminn með viðskiptum, kaupum á hráefni og sölu á fullbúinni vöru, en ekki stríði.
http://en.wikipedia.org/wiki/Lebensraum
Steini Briem (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.