9.1.2008 | 00:29
ÞORGERÐUR KATRÍN, BJARGAÐU AFTUR!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bjargaði nýlega Hótel Akureyri. Torfusamtökin björguðu Bernhöftstorfunni á sínum tíma. Um hana var sagt að þetta væru hundakofar, kofaræksni, ónýtt drasl, að hún stæði í vegi fyrir eðlilegri nýsköpun og uppbyggingu miðborgarinnar. Nú stæði þar steypuglerkassi ef torfan hefði ekki verið endurnýjuð og komið í það form að hún er borgarprýði.
Á forsíðu Morgunblaðsins má sjá hvernig húsin neðst við Laugaveg gætu litið út ef farið yrði svipuð leið og farin var við Bernhöftstorfuna. Þegar má sjá bæði á Akureyri og í Reykjavík vel heppnaða endurbyggingu einstakra húsa og húsaþyrpinga sem eru til sóma.
Laugavegurinn á enga hliðstæðu í Reykjavík hvað snertir lengd, hlutverk og sögulega þróun. Þegar gengið er upp götuna er mikilsvert að hægt sé að sjá þróun hans og þá er dýrmætt að hafa upphafið á þeirri gönguferð ljóslifandi í vestustu húsunum með lægstu húsnúmerin.
Víða í Evrópu harma menn að hafa eyðilagt sögulegan sjarma og hlýleika miðborga með því að ryðja öllu gömlu burtu miskunnarlaust og reisa í staðinn kuldalega einsleita steinkumbalda. Prag í Tékklandi gerir út á það í ferðaþjónustu að hafa sloppið svo vel við loftárásir í stríðinu að eftir stríðið var miðborginni ekki umturnað með steinkössum og glerhöllum eins og víða var gert annars staðar.
Þeir sem ekki vilja húsaröð á borð við þá sem sýnd er á forsíðu Morgunblaðsins myndu að sjálfsögðu vilja láta ryðja Bernhöftstorfunni burtu og fá þar stein-glerhöll eins og til stóð að reisa á sínum tíma.
Það eru peningar fólgnir í því að ryðja ekki sögunni og sjarma hennar algerlega í burtu ef menn vilja meta allt í beinhörðum peningum. Þeir peningar eru fólgnir í því að ferðamenn laðast að hlýlegu og aðlaðandi umhverfi sem hægt er að "selja" sem menningarumhverfi með sögu á bak við sig.
Afsökunin fyrir því að gereyða menningarverðmætum í formi gamalla húsa er venjulega sú að búið sé að fara svo illa með þau hvort eð er.
Þessi afsökun er notuð á fleiri sviðum. Nú er það notað sem afsökun fyrir því að ryðjast eftir endilöngum stærsta birkiskógi á Vestfjörðum með trukkaveg að það sé ekki rétt að hann sé að mestu ósnortinn heldur hafi verið beitt í hann fyrr á tíð.
Úr því að menn hafi ekki farið vel með hann fyrrum sé í lagi að fara enn verr með hann nú.
Þorgerður Katrín stóð sig vel í síðasta "húsræksnis"-málinu á Akureyri.
Vonandi stendur hún sig jafn vel nú svo að fáum í framtíðinni að upplifa Laugaveginn sem eftirsóknarverða gönguleið með sögu og sjarma.
Ráðherra friði Laugavegshús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gæti ekki verið þér meira sammála.
Sigurður Þór Guðjónsson, 9.1.2008 kl. 00:38
Ég vil þessa kofa í burtu, ekki til að reisa stein- eða glerhallir, heldur vegna þess að þetta eru stórhættulegar eldgildrur. Ef við sleppum því að tala um sóun á skattfé á að hætta lífi starfsfólks í þessum húsum fyrir meint menningarsjónarmið?
Theódór Norðkvist, 9.1.2008 kl. 00:39
Fúkkahjallana burt! Það er alveg hægt að byggja nýjar fallegar byggingar. Einstakt tækifæri til að hanna Laugaveginn upp á nýtt svo eftir verði tekið um veröld víða.
Og ekki líkja stórkostlegum steinhúsaþyrpingunni við kirkjutorgið (sem ég man ekki hvað heitir) í Prag, þar sem Kafka sprangaði um forðum, við þessa pappakassa á Laugaveginum. Fáránlegur samanburður!
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.1.2008 kl. 01:05
Ég man þegar ég dáðist að gamla miðbænum í Prag, þessar glæsilegu og reisulegu 4-500 ára gömlu byggingar, þá var manni hugsað til menningarinnar á Íslandi á þeim tíma sem þessi hús voru byggð.
Torfkofar og kassafjalahús eru ekki vel til þess fallinn að varðveita um aldur og æfi, þó vissulega sé mjög gaman að eiga sýnishorn af þeirri arfleifð okkar. Mjög góð hugmynd hjá Hrafni Gunnlaugssyni að flytja Árbæjarsafn í Hljómskálagarðinn eða Viðey.
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.1.2008 kl. 01:12
Ég vona að Þorgerður Katrín samþykki friðun þessara húsa. Það má ekki gerast að húsin verði rifinn og Laugavegurinn verði skemmdur. Sú hugmynd að byggja svo Hótel á þessari lóð er galinn. Það er ekki hægt að bjóða fólki sem er að koma hingað i frí að gista á Hóteli á Laugaveginum þar sem mikill háfaði og læti eru um helgar. Svo meiga rútur ekki aka niður laugaveginn og ekki er nein bílastæði við hótelið og væri það erfitt koma á hótelið. Ég hef nokkrum sinnum lent í því að aka fólki á hótel sem er við Laugaveginn eitt sinn þá var það seint á föstudagskvöldi og fólkið var að koma með kvöldflugi. Þegar ég stoppaði fyrir utan hótelið þá leist þeim ekki sérstaklega vel á þar sem þeim leist ekki vel á það ástand sem var í bænum.
Þórður Ingi Bjarnason, 9.1.2008 kl. 07:59
Eftir að sprengjurnar þögnuðu í stríðum Evrópu 20. aldar var fljótlega hafist að reisa aftur við þau hús sem eyðilögðust. Hvarvetna var lögð áhersla á endurgerð þeirra húsa sem eyðilögðust. Þessir miðbæir eru víðast hvar lausir við umferð og eru vinsæll vettvangur ferðafólks hvarvetna úr heiminum.
í Reykjavík hins vegar hefur ekki fallið nein sprengja, enn sem komið er a.m.k. ekki í eiginlegri merkingu. Nokkrum sinnum hafa orðið stórbrunar í miðbæ Reykjavíkur, sá fyrsti 1915 þá 20 hús brunnu, nú síðast í fyrravor þegar 2 hús brunnu. Því miður hafa Reykvíkingar ekki borið þá gæfu að leggja áherslu á varðveislu ásýnd eldri húsa. Fegurðarsmekkur þeirra sem ferðinni hafa ráðið er kannski mjög bundinn nýjungagirni og skammtímagróða. Allt skal burt sem minnir e-ð á það gamla!
Hér er mikill misskilningur á ferð. Gróðasjónarmiðin hafa því miður fengið að grasséra of lengi og það er vegna mistaka við að ekki hafi verið sett á alls herjar kvöð á elsta bæjarhlutann. Borgarstjórn átti fyrir löngu að setja þá kvöð að ekki verði reist hærri byggingar en fyrir voru og þá aðeins í sama byuggingastíl og fyrir var. Í dag erum við með miðbæ þar sem standa hús allt frá miðri 18. öld og fram á síðasta tíma. Í miðbænum ægir öllu saman bæði mismunandi byggingastíl, útliti húsa og byggingaefnum. Af hverju má ekki varðveita sem mest eftir því sem unnt er af eldri sögu og útliti bæjarins?
Í fjölmiðlum er greint frá kæruleysislegri veðsetningu húss í Heiðna hverfinu í Reykjavík. Húsið sem stendur við Baldursgötu er að sögn illa farið vegna skordýra. Einhver gróðamaður hyggst byggja þarna mun stærra hús og eru sem betur fer ekki allir á sama. Þarna er nefnilega slæmt fordæmi og þarna er meinsemdin: ef gróðasjónamiðin eru komin á kreik þá er hætta á ferðinni!
Óskandi er að skynsamleg lausn verði fundin á öllum þessum málum í eitt skipti fyrir öll. Það er með öllu óverjandi að byggja upp starfsemi í þröngum götum sem upphaflega voru ætlaðar hestakerruumferð. Nú á að draga enn meiri umferð að, jafnvel hefja hótelrekstur í þessum mjóu götum sem kallar á meiri umferð ásamt útskoti eða stæði fyrir hópferðabíla!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 9.1.2008 kl. 09:37
Sælir,
Ég hallast frekar að því að halda í þessa gömlu mynd á Laugaveginum, og sé ekki fyrir mér að hótel eigi heima þarna, eins og Mosi bendir á, er ekki beint þægilegt að leggja rútum þarna, og fyrir utan hávaðann sem fylgir skemmtanahaldi um helgar.
Það er auðvitað ekki fáránlegur samanburður að bera saman við Prag, eins og Gunnar Th. heldur fram, enda ekki verið að bera saman byggingarnar, sem eru sannarlega fallegri í Prag, en þetta er okkar saga og stíll, þó kanski ljótur sé, en stend ekki í deilum við títtnefndan Gunnar, frekar en aðrir, mátti samt til !
Bjartur (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 15:47
Ýmis verktakafyrirtæki hafa keypt upp mörg gömul hús í miðbæ Reykjavíkur og viljandi látið þau grotna niður svo að flestum finnist þau vera einskis virði eða kofarusl eins og sumir orða það. Ef þeir hefðu ekki keypt húsin og setið á þeim eins og gæs á gulleggi væri líklegt að áhugasamir einstaklingar væru löngu búnir að gera þau upp sjálfir og fluttir inn.
Út um gluggann hjá mér sé ég eitt þessara húsa, Bergstaðastræti 20 (sólarupprás máluð á gaflinn) frá 1902. Þar hefur enginn búið sl. 8-9 ár og útlit hússins er til háborinnar skammar, brotnar rúður, ryðgað bárujárn, o.s.frv. Eigandi þessa húss er skráður Þ.G. verktakar ehf, Fossaleyni 16, 112 R. Beint á móti þessu húsi er annað minna bárujárnsklætt hús frá 1896 sem nýlega var verðlaunað fyrir smekklega enduruppgerð og er til mikils sóma. Þarna má sitthvoru megin við götuna sjá þetta sem tekist er á um; óprúttna úthverfaverktaka sem reyna að maka krókinn á að byggja sem mest fyrir sem minnstan pening og hins vegar fólkið sjálft sem vill búa í fallegum uppgerðum húsum í gamla bænum. Synd fyrir fólkið í litla húsinu á nr. 19 að það sjái bara stóra og niðurnídda húsið þegar það kíkir út um gluggann.
Annað gott dæmi er Flatey. Þar voru yfirgefin gömul hús í stórum stíl í kring um 1970 þegar ég kom þangað með foreldrum mínum. Sem betur fer varð á svipuðum tíma til áhugi á að gera þessi hús upp áður en einhver sveitarstjórinn ákvað að ryðja öllu burt. Nú eru þessi hús öll smekklega uppgerð og í fínu standi. Þau fást ekki keypt þó að háar upphæðir séu í boði. Líklega er þarna hæsta fermetraverð á landinu öllu. Skrýtið?
Sigurður Hrellir, 9.1.2008 kl. 18:45
Ég get ekki séð að myndin á forsíðu Morgunblaðsins sýni ljót hús, - heldur ekki að húsin í Bernhöftstorfunni séu ljót. Hver þjóð á sína bygginarsögu. Í Prag er hún varðveitt í mun stærri húsum en hér en sérstaða borgarinnar byggist á því að sagan var varðveitt vegna þess að húsin voru ekki jöfnuð við jörðu í loftárásum.
Ferðamaðurinn vill sjá eitthvað sem er sérstakt. Húsin frá uppgangstíma aldamótanna 1900 í Reykjavík eru öðruvísi en húsin í Prag og skera sig því frá þeim.
Neðstikaupstaður á Ísafirði, Flatey á Breiðafirði, gamla Akureyri o. s. frv. vitna ekki bara um gamla sögu heldur tengja svona hús kynslóðirnar.
Kynslóð ömmu og afa og foreldra minna á minningar um umhverfi sem ég vil deila með þeim, börnum mínum, barnabörnum og komandi kynslóðum.
Hlutar Laugavegarins eru þegar orðnir þannig að þegar ég skokka eftir honum í austurátt kem ég á kafla hans sem eru mér framandi eins og ég sé kominn til útlanda.
Ég er ekki viss um að hvert einasta hús við Laugaveg eigi að vera friðað en augljóst er að stutt er í það að með sama áframhaldi verði gengið of langt í niðurrifinu.
Mér skilst að það hafi staðið til allar götur frá 1992 að láta húsin neðst við Laugaveginn þoka og það er fyrst núna sem húsafriðunarnefnd áttar sig á því hvað er í uppsiglingu.
Ómar Ragnarsson, 9.1.2008 kl. 21:48
Vona bara að Þorgerður Katrín geri ekki sömu mistökin og hún gerði á Akureyri. Það hús var aldrei fallegt, ólíkt öðrum húsum víðsvegar um Akureyrarbæ og öðrum fallegum sem finnast vítt og breytt um landið.
Eru menn ef til vill að starta keppni á að halda upp á ljótustu hús Íslandssögunnar??
Það, að líkja fúaspýtum við Laugaveginn við hallir í Prag, er ekki sæmandi vel hugsandi manni. Það sama á gildir þegar tildrin á dýrasta stað Íslands við Laugaveginn, eru borin saman við hús sem ekki eru fyrir neinum á landsbyggðinni, sem auk heldur eiga meiri sögu, eru fallegri og nánast í sinni upprunalegu mynd.
"Ferðamaðurinn vill sjá eitthvað sem er sérstakt." skrifar Ómar.
Hvernig er hægt að gera það betur en hér stendur til, en með þjónustu við ferðamenn, sem næst mörgum gömlum og fallegum húsum?? Menn verða einnig að átta sig á því, með þessu kemur meira lífi í miðborgina, fólkinu fjölgar á röltinu, sem nýta sé kaffihúsin í 101 Reykjavík. Er það ekki markmið út af fyrir sig??
Nýbyggingar gærdagsins verða fornminjar morgundagsins.
Benedikt V. Warén, 9.1.2008 kl. 23:39
Við höfum tilhneigingu til að takast á um málefni á ýktum og oft misskildum forsendum. Vernda þessi hús, sem engin sjáandi getur haldið fram að séu merkar byggingar og síðan það að fá hótel sem er ferkantað fjögurra hæða steypuvirki. Hvar er millileiðin? Ég tel að það sé ljóst að þarna verða byggð ný hús með einum eða öðrum hætti. Samkvæmt tillögu Torfusamtaka á að lyfta húsunum. Byggja nýja hæð undir þau og gera miklar breytingar á húsunum sjálfum.
Fyrir mér er það í raun nýbygging og því svolítið langsótt að það sé þá verið að vernda húsin. Það er ekki skaði í því að húsin sjálf hverfi heldur er tjónið fólgið í því að umrætt hótel mun verða stílbrot í götumyndina. Vonandi tekst ráðherra og öðrum að finna leið til að spinna götumynd Laugavegs áfram í gamla stílnum eins og tókst svo vel í Aðalstræti við hótelbygginguna þar.
Gunnlaugur B Ólafsson, 9.1.2008 kl. 23:58
Nýbyggingin á horni Aðalstrætis og Túngötu er gott dæmi um vel hepnað hús á þeim stað. Morgunblaðshöllin í Aðalstræti er dæmi um hið gagnstæða. Það ætti að vera hægur vandi að byggja hótel á Laugaveginum að undangenginni arkitektasamkeppni. Það er auðvitað príði að vel við höldnum gömlum húsum, en það verður bara að vera raunhæft að halda þeim byggingum við og þær verða líka að hafa eitthvert gildi annað en aldurinn.
Svo finnst mér hlægilegt þegar fólk setur upp spekingslegan svip og segir það slæma hugmynd að setja niður hótel á Laugaveginum. Hve langt er fólk tilbúið að ganga í forræðishyggjunni?
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.1.2008 kl. 00:25
Og hvað í ósköpunum viltu að gert sé í svona tilfellum eins og á Bergstaðastrætinu Sigurður Hr. ? Að fólk sé skyldað að gera þessi hús upp? Að opinberir aðilar kaupi eignirnar og geri þær upp? Ég efast ekki um að það eru fullt af fallegum húsum að grotna niður, en hvað viltu að sé gert?
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.1.2008 kl. 00:50
Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að segja reglur sem verja íbúa í grónum hverfum fyrir svona innrásum. Mér skilst t.d. að kaupendur lóða í nýjum hverfum hafi viss tímatakmörk til að byggja hús á lóðinni. Beita mætti sektarákvæðum ef hús væru sannarlega látin grotna niður mannlaus og í vanhirðu. Að vísu virðast eigendur Bergstaðastrætis 20 hafa beitt sjálfa sig e.k. sektarákvæðum því að þeir hafa orðið af húsaleigu uppá amk. 3 milljónir árlega undanfarin 8-9 ár en það er þeirra mál.
Annar möguleiki væri að gefa hverfasamtökum eða nágrönnum vald til að hafa áhrif á það hvort að stækkanir eða nýbyggingar í stað eldri húsa fáist samþykktar. Það er sanngjarnt að íbúar fái að hafa áhrif á hverfið sem þeir búa í. Þannig yrði það líka ólíklegt að verktakar kærðu sig kollótta um skoðanir fólks. Sjáið t.d. hvað er að gerast á svokölluðum Baldursgötureit. Þar eru einhverjir ósvífnir Kópavogsverktakar (Baldursgata ehf) búnir að ganga fram af íbúum af staðnum með því að kaupa upp hús og láta þau grotna niður mannlaus. Á sama tíma hafa þeir sótt um leyfi til stórfelldrar uppbyggingar á reitnum og láta sér standa á sama um hvað íbúum á staðnum finnst um þeirra fyrirætlanir.
Því miður bendir líka margt til þess að skipulagsyfirvöld í Reykjavík standi sig illa í stykkinu. Hugsanlega eru þau að drukkna í verkefnum.
Sigurður Hrellir, 10.1.2008 kl. 10:40
Ég setti mynd af þessu blessaða húsi við Bergstaðastræti inn á bloggsíðuna mína.
Sigurður Hrellir, 10.1.2008 kl. 13:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.