19.2.2008 | 23:10
SAMGÖNGUR FRÁ 1950.
Á laugardag og sunnudag verða haldin málþing um olíuhreinsistöðvar á Bíldudal og Ísafirði. Ef samgöngur við þennan landshluta væru eins og í öðrum landshlutum væri ekkert mál að fara á báða staðina eins og ég er að íhuga. En í staðinn er þetta stórmál og minnir mann á árin í kringum 1950 í öðrum landshlutum, þegar ekki var hægt að fljúga að næturlagi og fjallvegir ófærir víðast á landsbyggðinni. Vestfirðir eru á þessu stigi enn, einir allra landshluta. Ég get ekki flogið á FRÚ-nni á milli staða á Vestfjörðum nema í björtu. Og ef ég ek frá Reykjavík til Bíldudals er lengra fyrir mig á þessum árstíma að aka þaðan til Ísafjarðar heldur en frá Reykjavík til Ísafjarðar vegna þess að Hrafnseyrar- Dynjandis-Þorskafjarðar- og Tröllatunguheiðar eru ófærar og verður að aka frá Bíldudal til baka til Búðardals, þaðan um Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð og síðan þaðan alla hina löngu vetrarleið vestur á Ísafjörð. Flugleiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar er rúmir 220 km en landleiðin að vetrarlagi næstum þrisvar sinnum lengri. Flugleiðin liggur um Breiðafjörð en landleiðin er teygð langt austur í næsta landshluta. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það hafi verið verstu mistökin í samgöngum á Vestfjörðum þegar ákveðið var að aðalleiðin vestur lægi um Ísafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði. Ef áhersla hefði verið lögð tengingu um Breiðafjörð væri nú komin heilsársleið sem tengdi saman Vesturland og sunnanverða og norðanverða Vestfirði í stað þess hörmungarástands sem ég lýsti hér að framan. Í stað leiðar yfir Steingrímsfjarðarheiði væri nú farið milli Hólmavíkur og Ísafjarðar um Arnkötludal. Og næturlokunin á fluginu á norðanverðum fjörðunum væri engin hindrun fyrir flugi ef heilsársleið lægi frá Barðaströnd til Ísafjarðar því hægt er að fljúga að næturlagi til Patreksfjarðar. Enn styttra, eða aðeins rúmlega klukkstundar akstur, væri frá nýjum flugvelli við Brjánslæk sem myndi gerbylta samgöngum vestur því að Vestfirðir eru eini landshlutinn sem aðeins er hægt að fljúga til örfáar klukkustundir á veturna vegna myrkurs. Þessar samgönguhömlur standa að mínum dómi mest í vegi fyrir framförum á Vestfjörðum og eru langstærsti þátturinn í byggðavandamálunum þar. |
Athugasemdir
Stórhugur þinn í samgöngumálum er þakkarverður. Það er eitt sem ég skil ekki: Hvernig styttir vegur um Arnkötludal leiðina milli Hólmavíkur og Ísafjarðar?
Ég set hér inn mynd (vonandi kemur hún rétt út) sem á að sýna hvar Arnkötludalur liggur, rétt norðvestan við Tröllatunguheiði:
img src="http://theodorn.blog.is/tn/500//users/28/theodorn/img/vestfirdir.jpg"Theódór Norðkvist, 20.2.2008 kl. 00:01
Því miður kom myndin ekki inn, en hægt er að afrita slóðina í vafrann og þá birtist hluti af Vestfjarðakjálkanum.
Theódór Norðkvist, 20.2.2008 kl. 00:35
Kæri Theodór. Þegar ég tala um þetta fer ég aftur í tímann ogh miða við að það Steingrímsfjarðarheiði hefði ekki orðið fyrir valinu í upphafi heldur hefði leiðin frá Ísafirði til annarra landshluta legið um Reykhólasveit. Þá hefði vegur um Arnkötludal komið miklu fyrr á dagskrá, bæði sem stysta leiðin milli Reykjavíkur og Hólmavíkur og einnig sem styttri leið frá Vestfjörðum til Stranda heldur en leiðin um Laxárdalsheiði er núna þegar ætlunin er að fara frá Bíldudal til Ísafjarðar.
Ómar Ragnarsson, 20.2.2008 kl. 13:13
Ég get alveg bætt annarri athugasemd við. Nú er verið að verja 6 - 7 milljörðum króna til ganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Hvorugur þessara staða á við jafn erfitt að glíma í landssamgöngum og Vestfirðir og á Vestfjörðum býr margfalt fleira fólk.
Ef spurt er hvaðan peningarnir hefðu átt að koma til samgöngubóta á Vestfjörðum liggur næst beinast við að spyrja um forgangsröðun jarðgangaframkvæmda á landinu öllu.
Ómar Ragnarsson, 20.2.2008 kl. 13:18
Ég skil þig betur og er sammála þér. Mig langar að gera lokatilraun til að birta þessa mynd, þá skilst þetta betur. Ef hún birtist ekki máttu alveg eyða athugasemdinni.
Theódór Norðkvist, 20.2.2008 kl. 15:07
PS Mesti munurinn er að sleppa við Strandirnar. Eins og sést á myndinni yrði vegur um Arnkötludal u.þ.b. 22,7 kílómetrar, gróflega mælt á vefsíðunni www.ganga.is, gagnvirka Íslandskortinu þar.
Theódór Norðkvist, 20.2.2008 kl. 15:11
Sælt veri fólkið.
Ég set hér inn eitt kort, sem sínir berlega möguleika á styttri leið milli Ísafjarðar og Hólmavíkur en Djúpið gefur færi á.
Vísa einnig á grein eftir mig á Skutull.is þar sem farið er nánar út í útfærsluna á þessari tengingu: http://skutull.is/heiti_potturinn/Staerra_samhengi_staerra_taekifaeri
Sigurður Jón Hreinsson, 20.2.2008 kl. 20:08
ok ekki kom kortið.
Hvernig settir þú kortið inn Theódór?
Sigurður Jón Hreinsson, 20.2.2008 kl. 20:11
Sigurður, ég sendi þér svar á blogginu þínu.
Theódór Norðkvist, 20.2.2008 kl. 20:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.