Jökullinn, Kalli og Östlund, þrír snillingar.

Mér fannst persónulega hrein unun að hlusta á stórgóðan þátt um Gunnar Jökul Hákonarson trommuleikara á Rás tvö í kvöld, einkum vegna þess að á sínum tíma þegar ég var eins og grár köttur á skemmtistöðunum átti ég þess kost að standa við sviðið og njóta snilldar þessara þriggja manna. Það er alveg sama hvað upptökutækni verður góð, ekkert jafnast á við að fá svona kraft og snilli beint í æð.

Mér er til dæmis minnisstætt þegar ég kom á einn staðinn og átti að skemmta en niðurstaðan varð sú að ég kláraði fyrst á öðrum stað, að Pétur Östlund var með fleiri en eitt varakjuðasett við hliðina á sér. Mér varð starsýnt á hvernig flísarnar beinlínis rifnuðu af kjuðunum við barsmíðarnar svo að þeir átust upp.

Þegar ég kom aftur 45 mínútum seinna hafði hann gripið næstu tvo kjuða en við hliðina á honum lágu þeir fyrri, uppeyddir og ónýtir eftir hamaganginn.

Samleikur Gunnars Jökuls og Kalla var eitthvað sem ekki mun gerast aftur og örlög þeirra að látast báðir langt um aldur fram er einhver mesta harmsaga íslenskrar tónlistarsögu.

Ég tel að útgáfufyrirtæki ætti að taka að sér að safna bestu lögum Gunnars Jökuls á safndisk og yrðu lögin, sem spiluð voru í kvöld gott hryggjarstykki í slíku lagavali.

Að mínum dómi er fjögurra laga plata Flowers besta smáskífa íslensku rokksögunnar og Lifun hefur verið valin besta platan.

Það er ekki tilviljun að að Gunnar Jökull Hákonarson sá um trommuleikinn á báðum. Bítrokktíminn var einstakur og annað eins fjör, kraftur og frumleiki verður vart endurtekinn. Ég er þakklátur fyrir að hafa mátt njóta hans á sínum tíma.

P.S. Umsjónarmaður þessa góða þáttar sagði hvað eftir annað: "Þegar hér var komið við sögu." Með ólíkindum er hve margt fjölmiðlafólk segir þessa vitleysu sem stenst enga rökhugsun. Ruglað er saman tveimur orðtökum: annars vegar "þegar hér er komið sögu" og hins vegar þegar sagt er að einhver komi við sögu. Nú er gamli góði Pétur Pétursson ekki lengur á meðal vor og einhver verður að taka við hlutverki hans, þótt maður verði kannski kallaður nöldrari fyrir vikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég var að fá mér diskana Beatles Anthology. Þeir eru orðnir yfir 10 ára gamlir, svo það var kominn tími til. Ég hef alltaf haft meira gaman af seinni plötum þeirra, en það er gaman að heyra hvað þeir voru góðir. Betri en maður gerir sér grein fyrir. Það er þessi hráa orka sem þú talar um sem heillaði. Strax í byrjun var hún til staðar. Það jafnast ekkert á við góða spilamennsku.

Annars heyrði ég einhvern tíma að Roger Taylor hefði farið í gegn um sjö kjuðapör á hverjum Queen hljómleikum, enda gekk þar ýmislegt á. 

Villi Asgeirsson, 29.4.2008 kl. 08:55

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Orðasambandið, "þegar hér var komið við Sögu" á varla heima á opinberum vettvangi, ef átt er við samneyti eiginmanns við hana Sögu konu hans. Þetta er í því tilviki ágæt íslenska, eigi að síður.

En ég tek heils hugar undir þessa ábendingu þínu um ofnotkun orðtaksins og eins var þessi þáttur um Gunnar Jökul aldeilis frábær að öðru leyti.

Jón Halldór Guðmundsson, 29.4.2008 kl. 15:38

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég kynntist nafna mínum "Jöklinum" þegar við keyrðum á Steindóri, laust eftir 1980. Mér fannst gaman að spjalla við hann, en því miður varð hann fyrir töluverðu einelti af nokkrum af vinnufélögum okkar á þeim tíma. Sumir myndu segja að hann hafi ekki bundið bagga sína sömu hnútum og samferðarmenn hans. Slíkt hefur aldrei truflað mig, nema síður sé.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.4.2008 kl. 18:28

4 identicon

Þarfur þáttur um þarft efni. Samt vantaði meiri nákvæmni varðandi feril Gunnars Jökuls og var þar nokkurum atriðum því miður sleppt. Dæmigert að alltaf er einblínt á það helsta og markverðasta af ferli eða toppi manna, en ekki farið til hliðar, sem getur skipt máli. Þá ég ekki við um persónuna Gunnar Jökul og persónulegt líf hans, heldur á ég við um þau tónlistardæmi og ýmsu því tengt sem hann kom nálægt. Það sama á við um þáttinn um Karl Sighvatsson.

Nokkuð snöggsoðið, sem er óþolandi þegar þáttagerðarfólk fær tækifæri og hefur úr góðu hráefni að moða við prýðilegar aðstæður. Einnig þegar þáttagerðarfólk er svo mikið að flýta sér að tala og talar alltof hratt, að málvillur verða áberandi, sorglegt og leiðinlegt. Afhverju er þá ekki hægt að gera einum þætti betri skil í tveimur þáttum og leyfa efninu að anda, auk þess að vinna betur í öflun heimilda ?

Steinn Skaptason (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 00:46

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á okkar tímum þegar mestu virðist skipta á síbyljurásunum að láta tölvuheila mata okkur á tónlist og enginn má vera að því kafa neitt ofan í hlutina er maður svo þakklátur fyrir svona dagskrárgerð að gallarnir skipta minna máli en ella.

Ef flóran er nógu fjölbreytt, allt frá þáttum Ólafs Þórðarsonar og Svanhildar Jakobsdóttur til Uppruna tegundanna er þetta dagskrárgerð sem ég vil njóta.

Ómar Ragnarsson, 30.4.2008 kl. 02:04

6 identicon

Það er svo sem ekki á allt kosið eins og maður helst vildi. Ég átti nú einungis við einn ákveðin þátt með góðu mjög góðu efni sem ég var ekki alls kostar sáttur við hvernig var matreitt og fram borið. En miðað við það sem í boði er á rásum vélrænnar niðursuðu og síbylju, að þá er ég þakklátur fyrir margt sem ríkisútvarpið hefur boðið mér upp á, meðal annars þá þætti sem þú nefnir hér að ofan. Maður má vera þakklátur fyrir það sem maður á kost á að velja og hlusta á, svo er bara að rata rétt og gera sér það að góðu. Ég hef verið dyggur hlustandi ríkisútvarpsins frá morgni 23. Janúar 1973, þá 10 ára gamall, og til dagsins í dag.  

Steinn Skaptason (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 02:26

7 Smámynd: Hreggviður Davíðsson

þakka þér fyrir Ómar minn. Ég styð hvert orð í textanum þínum um Gunnar heitinn. Hann var mér fyrirmynd og mörgum öðrum, sem lögðu trommuleik fyrir sig. Mér finnst hins vegar miður að eins vel gerður og greindur maður og þú ert, látir setja undir þig órökstuddar hækjur í umhverfismálum átölulaust. Ég veit að þessi "krítík" á ekki heima í texta um Gunnar Jökul, en hvernig á ég að nálgast þig öðruvísi? Lifðu heill og eins og þú vilt helst.

Hreggviður 

Hreggviður Davíðsson, 30.4.2008 kl. 03:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband