Já, ef...

Ég er ekki nei-maður heldur já,ef-maður. Stundum er sanngjarnasta og ódýrasta lausn vandamáls fólgin í því að banna eitthvað ekki alfarið heldur leita að málamiðlun sem gefur jafnvel betri árangur þegar upp er staðið en algert bann.

Mín tillaga er þessi: Borgaryfirvöld bjóða áhugafólki um veggjakrot á lokaðan trúnaðarfund þar sem heitið er nafnleynd, enda teljist fundurinn ekki sönnun á aðild neinu ólöglegu athæfi.

Fulltrúar veggjakrotara og borgarinnar fari um borgina og leiti að heppilegum stöðum til veggjakrotsins. Ég held að hægt yrði að feta milliveg þess að þessir staðir verði ekki of margir en þó nógu margir til þess að krotarar geti notið sín og hafi nóg rými.

Hugsanlega þarf að leita samþykkis einstakra eigenda húsa eða veggja, - það eru margir veggir í Reykjavík sem gætu orðið að notum í þessu efni. Hugsanlega þyrfti að veita einhverju fé í því skyni að leyfi fengjust en það yrði aldrei nema brot af því tjóni sem veggjakrotið veldur nú.

Þegar þetta samkomulag er fengið yrði tekið mjög hart á ólöglegu veggjakroti og reynt að uppræta það, jafnvel með samvinnu við veggjakrotarana sem stóðu að samkomulaginu.


mbl.is Röktu slóð krotaranna frá miðborg upp í Hlíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála......... sammála!!!

Linda Björk (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 09:50

2 identicon

Það reyndar gæti bara verið ágætis hugmynd!

Anna (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 10:24

3 identicon

Þetta myndi eflaust bara ganga fyrir þá sem í alvöru setja eitthvað myndrænt á veggina.

Þeir sem gera það ekki og krota bara barnaleg ,,gengja" nöfn eða ,,gettó" nöfn á veggina eiga ekkert skárra skilið en að taka út þegnskylduvinnu við að þrífa upp eftir sjálfa sig og aðra krotara í sumar.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 10:26

4 Smámynd: Rúna Vala

Þetta er það sem allir vita að þarf að gera nema borgaryfirvöld. Mér líkar útfærslan með fundinn og að hafa samráð með krökkunum.Þá standa þeir líka vörð um það að ekki sé krotað annars staðar, því þá eiga þeir á hættu að missa þessa veggi. Áður voru svona veggir, s.s. við bílastæðið við Austurbæjarskóla, en nú er bannað að krota á þá. Það þarf að opna veggi víðs vegar um bæjinn svo að þessir krakkar geti notið sín en þurfi ekki að krota í leynd og á ólöglega staði. En hvað ef það er það sem sumir sækjast eftir? Einmitt að krota á ólöglega staði? Er það ekki mesta útrásin? Spyr sá sem ekki veit.

Rúna Vala, 29.4.2008 kl. 10:32

5 identicon

Sæll Ómar.

Að taka veggi í fóstur, kalla ég þetta. 

Ekki galin tillaga hjá þér, en virkar bara ekki, því miður.

Ég bý í 108 Reykjavík,  einhverju alræmdasta veggjakrotshverfi í Reykjavík skv. könnun sem ég las í fjölmiðlum fyrr á þessu ári. 

Þegar ég flutti hingað fyrir tæpum tveim árum, var ansi mikið krot á öllum veggjum (og er enn) Nokkuð um góðar myndir, eða listaverk sem þó höfðu fæst fengið að vera í friði fyrir kroturum.(taggarar)

Ein eða tvær myndir/listaverk bættust við, og kvartaði ég ekki mikið undan því. Svo komu krotararnir.  Krotararnir krotuðu á listaverkin, á glugga, útidyrahurðir, veggi fyrirtækja, nánast á hvað sem fyrir var.

Í dag mála ég yfir allt sem birtist óumbeðið á húsveggjum í nágrenni mínu, krot sem listaverk. Mála yfir allt innan 24 stunda eftir að það birtist. 

Ég nefndi svipaða tillögu, og nefnir á bloggi þinu,  við nokkra unga veggjakrotara í mínu hverfi, 108 Reykjavík.   Að ræða við eigendur/forráða menn húseigna í nágreni við mig, fá leyfi fyrir myndskreytingum á vissa veggi á húseignum, þar sem við ætti. Nóg er af slíkum veggjum í húsi því sem ég bý í. Stórum dapurlegum auðum veggjum sem vel mætti skreyta veglega.

En því miður, þar sem verslunar-og fyrirtækjaeigendur eru/hafa verið í baráttu við krotara sem krota á glugga, hurðir og veggi fyrirtækja þeirra, sjálfa ímynd fyrirtækisins, andlit þess út á við, þá  hafa krotarar eyðilagt þann möguleika fyrir sjálfum sér, að fá að taka nokkra vel valda veggi í fóstur.

Ég held, að kenning eins verslunareigenda sem ég ræddi við, sé rétt. "Zero tolerance". Kenningin er svipuð í grunninn og hjá borgarstjóra New York um árið, þegar taka átti á aukningu glæpa. kenningin yfirfærð á veggjakrot er sú, að leyfa ekkert veggjakrot, engin listaverk, engar myndir. Slíkt dregur að sér krotara.

Nákvæmlega það sem ég hef upplifað á húsi því sem ég bý í.

Sem er miður, bæði fyrir húseigendur og veggjaskreytifólk. Húseigendur þurfa að leggja á sig aukna vinnu og fjárútlát vegna krots. Veggjaskreytifólk kemur list sinni ekki á framfæri. Sem er kannski verst.  

Veggjaskreytifólk og krotara geta skreytt heima hjá sér. Inni í stofu, á stigaganga, á góða veggi utanhúss.

Ef þeir/þau eru svona góðir listamenn, byrjið þá á þessu heima hjá ykkur. Fáið leyfir fyrir því að setja verk ykkar á veggi. Eftirtektarverð verk spyrjast út, gerandin verður beðin að koma og gera verk eftir sig annarstaðar. Og getur gert kröfu um greiðslu fyrir sköpun sína.

Krotarar, hættið að krota. Þið eruð að eyðileggja fyrir öllum öðrum. Krotið á veggina í herberginu ykkar eða fáið ykkur tattoo. 

Konan mín skreytir bílinn sinn, sjá t.d. :

http://tigercar.blogcentral.is/myndasafn/221330/

og gerir tilraunir innanhúss. Hún gerir ekki tilraunir á eigur annara óumbeðin.

Betur að fleiri héldu sig við að skreyta eigur sínar, og létu annara eigur í friði, meðan þær valda öðrum ekki skaða.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson. 

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 10:43

6 identicon

Hugmyndin hljómar vel, en hún hefur verið reynd og virkar ekki. Við bílastæði Austurbæjarskóla er veggur þar sem menn höfðu leyfi til að sprauta að vild. Eina skilyrðið var að þeir sprautuðu ekki á skólan sjálfann. Því miður virtist það ekki geta gengið. Ákveðið var að mála vegginn og banna mönnum að spauta frekar á hann. Krot á skólann sjálfann hvarf nánast því algjörlega eftir það.

Kristinn (IP-tala skráð) 29.4.2008 kl. 11:39

7 Smámynd: Auðun Gíslason

Og svo mætti leyfa smá sinubruna, og smá...

Auðun Gíslason, 29.4.2008 kl. 13:00

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvernig væri að setja alla vænan umhverfisskatt á alla þá brúsa og annað efni sem unnt er að krota með? Þá mætti selja í sérstökum búðum þar sem enginn fengi að kaupa meira en til eðlilegrar notkunar til þess sem þessu sprautudóti er upphgaflega ætlað?

Einnig mætti setja himinháan umhverfisskatt á eldspýtur og önnur eldfæri ef það mætti koma í veg fyrir léttúð fyrir að kveikja í.

Mosi  

Guðjón Sigþór Jensson, 29.4.2008 kl. 13:24

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Veggjakrotararnir virðast vera með álíka dellu og skíðafólk og golffólk, að flakka um. Að minnsta kosti bendir nýjasta ferð veggjakrotara til þess. Gallinn við fyrri tilraunir til að hemja krotið var sá að krotararnir fengu allt of lítið og afmarkað svæði til umráða.

Tillaga mín beinist að því að teygja sig eins langt til móts við veggjakrotarana og unnt er og að gefið verði út sérstakt kort sem sýni alla staðina í borginni þar sem krotið er leyft.

Tilraunin yrði kynnt sem úrslitatilraun og það látið fylgja með, að ef hún mistækist yrði það á ábyrgð veggjakrotara og veggjakrotinu útrýmt með hörku.

En það þarf samt tvo til. Ég hef sem fordæmi brautryðjendastarf lögregluþjóns fyrir hálfri öld sem var kallaður Siggi Palestína og tók lögregluþjónsstarfið mjög alvarlega. Það skulfu allir á beinunum við að heyra nafnið.

En Siggi var í raun skynugur náungi, mannþekkjari og mannvinur. Þegar spól og skemmdir skellinöðruunglinga þóttu stefna í óefni tók hann það að sér að kalla til sín alla hljólastrákana og hjálpaði þeim til þess að stofna vélhjólaklúbbinn Eldinguna.

Sjálfur var hann á stærsta og flottasta hjólinu og tókst að öðlast trúnað og virðingu strákanna, kenndi þeim að ná valdi á hjólunum og viðhaldi þeirra og efldi tilfinningu þeirra fyrir öryggi. Hann fann æfinga- og keppnissvæði með þeim og umsneri þessu vandamáli á svo frábæran hátt að málið varð dautt.

Nú vantar annan Sigga Palestínu. Æskilegast væri að það væri drátthagur lögregluþjónn sem notaði aðferð Sigga, gengi í raðir krotara, öðlaðist trúnað þeirra og virðingu og kenndi þeim og leiðbeindi.

Ómar Ragnarsson, 29.4.2008 kl. 14:06

10 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ómar. Það er hellingur af liði sem er bara af þessu vegna skemmdar fíknar. að eyðileggja og skemma fyrir öðrum er kickið. svona svipað eðlis og brennuvargarnir sem voru að brenna heilan skóg.

það verður bara að vera Zero tolerance. þeir sem krota á veggi eiga að vera látnir þrífa þá opinberlega á eiginn kostnað.

Fannar frá Rifi, 29.4.2008 kl. 14:44

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því miður, Fannar, eru mestar líkur á að þú hafir í grundvallaratriðum rétt fyrir þér. En fyrir fimmtíu árum voru líka háværar raddir uppi um það að unglingarnir á skellinöðrunum væru brjálaður skríll. Það þurfti afburða lögregluþjón og skilningsríka yfirmenn hans til að beina flestum þeirra á rétta braut og refsa hinum, sem ekki létu sér segjast, harðlega.

Ómar Ragnarsson, 29.4.2008 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband