17.5.2008 | 12:17
"Sjaland sælla her..."
Sjáland er ekki bara þéttbýlt marflatt svæði heldur má finna skógi vaxnar hæðir og jafnvel friðuð svæði eða litla þjóðgarða þar. Í heimsókn hjá Tryggva Felixsyni sem býr í nágrenni Helsingör hefur hann sýnt okkur dæmi um slíkt. Thorsteinn Erlingsson orti á sínum tíma um "...sælla Sjáland hér / sumarið þitt og blómin / ef þú gætir gefið mér /gamla fossaróminn." Hann dáðist að sumarblíðu og gróðri Sjálands en saknaði íslensku fossanna, fossarómsins heima á Fróni, þess hins sama og mönnum er svo mikið í mun nú að þagga niður í. Í sumar stendur til að þagga niður í tugum fossa í Jökulsá á Fljótsdal og Kelduá, meðal annars tveimur samliggjandi fossum í flokki með Gullfossi, fossunum Faxa og Kirkjufossi. Með Norðlingaölduveitu verður þaggað niður í nokkrum fossum Þjórsár, þeirra á meðal Gljúfurleitarfossi sem er álíka stór og Gullfoss og í fossinum Dynk, sem að mínum dómi var flottasti og magnaðasti foss Ísland vegna þess að hann var ólíkur öllum stórfossum Íslands, samansettur af alls átján fossum sem drundu hátt og fékk fossinn af því nafn sitt. Ég segi "var" um Dynk, því þegar hefur verið tekin af honum yfir í Kvílsaveitu 40% hins nauðsynlega vatnsmagns til að hann hann njóti sín. Fossinn er því að líkjast Samsoni án hársins og Norðlingaölduveita fullkomnar útrýmingu Dynks og bræðra hans í Efri-Þjórsá. Ekki þarf að minna á Urriðafoss og Búðafoss í Neðri-ÞJórsá, Ég sæi Torstein Erlingsson í anda á okka tímum fara upp með Þjórsá og andvarpa: "Nú væri Suðurland sælla hér, / sumarið þitt og blómin / ef þú gætir gefið mér / gamla fossaróminn.
Athugasemdir
Fekk i gestbok athugasemd vid upprunalegan texta bloggsins her a undan thar sem eg sagdi ad Jonas Hallgrimsson hefdi gert ljodlinurnar. Svona geta hlutirnir skolast til a 60 arum og eg er buinn ad leidretta thetta.
Ómar Ragnarsson, 17.5.2008 kl. 18:13
Sá Dynk f. nokkrum árum og það var mjög sérstakt, vissulega hefði hann verið mun flottari með meira vatnsmagni og meðfylgjandi krafti, en "fossastæðið/umhverfið" og þrepin í fossinum eru samt sem áður mjög sérstök. Geturðu sagt mér hvenær þessi 40% var veitt annars?
ari (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 02:03
"....fossarómsins heima á Fróni, þess hins sama og mönnum er svo mikið í mun nú að þagga niður í".
Þetta er sorgleg áróðurstaktík, ýkjur eingöngu til þess fallnar að plata saklaust fólk til fylgilags við öfgakennd náttúruverndarsjónarmð. Ykkur nægir ekki sannleikurinn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.5.2008 kl. 21:22
Já, Gunnar. Það yrðu sem sé "öfgakennd náttúruverndarsjónarmið að leggjast gegn virkjun Gullfoss.
Kvíslaveitan var gerð í fimm hlutum sem eru númeraðir frá 1 uppí 5. Ég fjallaði á sínum tíma um hvern hluta eins og aðrir fjölmiðlar af miklum fjálgleik og áttaði mig ekki á því að með hverjum hluta voru teknar þverár Þjórsár að austanverðu og þeim veitt yfir í Þórisvatn. Safnast þegar saman kemur.
Ómar Ragnarsson, 19.5.2008 kl. 18:02
Ef þú hittir Tryggva Felixson öðru sinni Ómar, bið eg bestu kveðjur til hans.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 20.5.2008 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.