24.8.2008 | 02:17
Usain Bolt, hvað nýtt og hvað ekki?
Usain Bolt er einstakur í því að setja heimsmet bæði í 100 og 200 metra hlaupi á Ólympíuleikum. Hins vegar er ekki rétt hjá DV í dag að hann sé einstakur í því að vinna bæði í 100 og 200 metra hlaupi. Það gerðu þeir Jesse Owens og Bobby Moorow 1936 og 1956 og bættu við sig gulli í 4x100 metra boðhlaupi. Owens sigraði auk þess í langstökki, hampaði gulli í fjórum greinum og átti heimsmet í þessum sömu greinum sem stóðu lengi.
Carl Lewis er hinn eini sem hefur leikið eftir Owens að vera besti spretthlaupari heims og besti langstökkvarinn á sama tíma.
Bolt er 1,96 m á hæð og þarf því færri skref en menn sem eru styttri. Hæð manna virðist þó ekki skipta öllu í þessu efni. Þegar heimsmet Jesse Owens var loks bætt um eitt sekúndubrot var annar þeirra, sem það gerði, Ira Murcison, aðeins 1,58 m á hæð.
Tíu árum seinna var það svo risavaxinn vöðvabolti, Bob Hayes sem færði metið niður í 10,0 sekúndur.
Bill Cosby sagði skemmtilega frá því hjá Jay Leno um daginn hvernig Murcison, þessi litli maður, vakti svo mikla athygli þegar hann hljóp, að Cosby, sem var lipur hástökkvari á yngri árum, setti persónulegt met með því að vera svo óheppinn að renna undir rána og lenda á dýnunni í keppni á móti þar sem Murcison var að hlaupa, en um leið var Cosby svo heppinn að allir voru að horfa á Murcison einmitt þá stundina, líka starfsmennirnir sem áttu að fylgjast með hástökkinu, og héldu því að Cosby hefði farið yfir!
Eftir allt var Cosby því heppinn að renna undir rána!
Á gullaldarárum spretthlauparanna hér heima á árunum 1947-51 gnæfði Hörður Haraldsson yfir aðra, 1,92 m á hæð.
Á þessum árum voru tveir Jamaíkumenn, Herbert MacKenley og Arthur Wint, bestu 400 metra hlauparar heims og Wint, var svipuð týpa og landi hans Bolt er nú.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.