Frændfólk og líka smáþjóð.

Mikið er gaman að því að frændþjóð okkar skuli fagna gulli í flokkaíþrótt eins og við vonumst til að geta gert. Miðað við flestar þjóðir heims eru Norðmenn smáþjóð og við Íslendingar þá örþjóð. Mér finnst allt í lagi að nota það orð því að við verðum þá enn stærri hlutfallslega þegar við sláum stórþjóðunum við.

Ættarböndin milli Norðmanna og Íslendinga eru sterk. Mér er enn í fersku minni þegar ég hlustaði á íþróttafréttamenn norska sjónvarpsins lýsa handboltaleik milli Íslendinga og Norðmanna þar sem Íslendingar slógu Norðmenn út á stórmóti.

Mestallan tímann héldu þulirnir alveg hlægilega mikið með sínum mönnum og hölluðu í öllu á íslenska liðið með fádæma hlutdrægni, - kölluðu Duranona til dæmis aldrei Íslending heldur kúbverja. "Kúbverjinn skorar", "Kúbverjinn nær frákastinu", o. s. frv. Ókunnugur hefði á tímabili haldið að Norðmenn væri að leika við Kúbverja en ekki Íslendinga.

Við könnumst svo sem við þetta hjá okkur sjálfum og kannski er þetta dæmi um það að margt sé líkt með skyldum. Þetta orðalag og fleira sem valt upp úr norsku þulunum var auðvitað liður í hlutdrægni þeirra og viðleitni til að gera sem minnst úr íslenska liðinu.

En þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum snarbreyttist hljóðið í norsku þulunum þegar ljóst var að Íslendingar væri komnir með of mikið forskot til að Norðmenn ættu möguleika á sigri eða jafntefli.

Allt í einu hættu þeir að tala um Kúbverjann og nú voru það "litlu frændur okkar og vinir úti í Atlantshafinu" sem héldu uppi merki frændþjóðanna tveggja! Þeir hældu Íslendingum óspart í stað þess að hafa þá á hornum sér og hallmæla þeim og gerðu hlut Íslendinga sem mestan á alla lund.

Úr því að ekki þýddi lengur að halda með Norðmönnum snerust þeir á sveif með "litla bróður" á ekki síður broslegan hátt en þegar allt var gert sem hægt var til að minna á það að "Kúbverjinn" væri allt í öllu og ekkert að marka þegar Íslendingar héldu því fram að lið þeirra væri norrænt.

Þetta minnir á orðtakið "Þau eru súr sagði refurinn," nema að hin íslensku handboltaber voru sæt en ekki súr.


mbl.is Norðmenn ólympíumeistarar í handbolta kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

... vissi það, Ragnar Reykás er Norðmaður... gamall norskur íþróttafréttamaður...

Brattur, 23.8.2008 kl. 23:10

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í sumum íslenskum héruðum eru afkomendur Norðmanna áberandi en í öðrum afkomendur Íra, til dæmis á Vopnafirði. Vopnfirðingar hafa lítið blandast öðrum Íslendingum, enda er vegasamband þangað slæmt.

Þorsteinn Briem, 24.8.2008 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband