Höldum okkur við það besta og tryggasta.

Halldór Laxness var snilldarskáld. Jóna Hallgrímsson var það líka. En það þýðir ekki að allt sem tengist þeim sé þeirra eign eða tær snilld. Vísurnar tvær eru varla eftir tólf ára dreng, - stíllinn bendir ekki til þess. Þar að auki munu þær í engu auka við hróður Nóbelskáldsins.

Ég segi þetta vegna þess að þegar ég las mig í gegnum öll verk Jónasar Hallgrímssonar undraðist ég hve mikið af kveðskap hans var ósköp venjuleg hagmælska, hvorki betri né verri en kom frá venjulegu fólki sem aldrei komst á skáldabekk. Gat nánast verið eftir hvern meðaljón sem var.

Í stórri útttekt tímaritsins Time um 100 mestu snillinga 20. aldarinnar rakst ég á niðurstöðu sem setti þetta í nýtt ljós. Þegar sérfræðingarnir sem gerðu þessa úttekt á snillingunum kom eitt atriði í ljós sem var sameiginlegt hjá þeim næstum því öllum.

Það var það hve gríðarleg framlegð þeirra var, miklu meiri en hjá öðrum. En einnig það að megnið af því var meðalmennskan uppmáluð.

Hin miklu afköst hins frjóa hugarjarðvegs virtust hins vegar leiða til þess að innan um voru hreinar gersemar. Þannig virðist þetta hafa verið hjá Jónasi.

Eini íþróttamaðurinn, sem komst á listann yfir 100 mestu snilinga (genius) aldarinnar var Muhammed Ali, - ekki eingöngu vegna þess að vera einstakur afburðaíþróttamaður, heldur líka vegna þess hvernig hann vann úr sínu í súru og sætu og fyrir það að hafa jafnframt því valdið byltingu í umgjörð, áhrifum og kjörum á vettvangi íþróttanna og hafa verið áhrifamikill stjórnmála- og þjóðmálamaður.

Ég tel mig þekkja nokkuð sæmilega til þess sem þessi maður lét eftir sig í bundnu og óbundnu máli, en það voru raunar ósköpin öll, rétt eins og hjá hinum snillingunum. Megnið af því sem ég hef séð virðist vera er allt að því að blaður og grallaralegur munnsöfnuður, sumt bull og óhróður, sem skilur lítið eftir sig í hverju tilfelli fyrir sig. Kveðskapurinn, rappið, eftir því. Sumt minnisvert en flest ekkert sérstakt.

En inni á milli eru síðan gersemar sem hafa lifað og haft áhrif, jafnvel slík að rapparar, margir hverjir, telja hann forgöngumann þess kveðskaparforms.

Dæmi um hnyttið tilsvar Ali er þegar hann var krafinn um röksemd fyrir því að gegna ekki herþjónustu og neita þar með að vera sendur til Vietnams ef þörf krefði.

Hann svaraði: Hvers vegna ætti ég, svartur maður, að fara til að skjóta gulan mann, fyrir hvítan mann sem rændi landi af rauðum manni?

Það má ekki taka öllu sem tengist Laxness sem snilld og þaðan af síður sem hans eigin snilld.

Frændi minn, Eiríkur Jónsson, dáði Laxness á þeim tíma sem ég var unglingur, og þeir Laxsness og Eiríkur báðir kommúnistar. Laxness var hans maður og næstum því guð að öllu leyti.

Eiríkur virtist kunna verk Laxness utanbókar og þegar tímar liðu fram tók hann eftir minnum og ýmsu í verkum Laxness þar sem hið íslenska Nóbelskáld virtist hafa leitað fanga hjá öðrum skáldum og nýtt sér það.

Eiríki þótti þetta til merkis um fjölbreyttari snilld Laxness en aðeins þeirri að ala af sér snilldarhugsanir sem væru algerlega hans eigin. Og vegna þess að hann var orðinn af áhuga sínum og ástríðu, eins og mörgum af nánustu ættmönnum okkar var eiginlegt, sérfræðingur í verkum Nóbelskáldsins, sökkti hann sér niður í þessa nýju hlið af snillingnum og setti saman lærða og merka ritgerð um það hvernig skáldið hafði sótt sér efni og leitað fanga um víðan völl kollega sinna erlendra.

Eiríkur vildi fá að verja þessa ritgerð sem doktorsritgerð en skemmst er frá því að segja að þeir, sem ríkjum réðu í Háskólanum, fannst þetta svo mikil helgispjöll að Eiríki var neitað um vörn sinnar merku úttektar.

Laxness var snillingur og höfuðskáld en hann var ekki guðlegur. Honum er eignað með réttu og sannanlega alveg nóg af snilldarefni þótt ekki sé verið að bæta þar við eða hefja upp til skýja hvað sem vera skal.



mbl.is Elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness í póesíbók á Vegamótastíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband