Hvar liggja rányrkjumörkin?

Össur Skarphéðinsson þarf ekki að furða sig á umsókn landeigenda í Reykjahlíð vegna 50 megavatta jarðvarmavirkjun, sem þeir vilja reisa á eignarlandi sínu. Þeir hafa heyrt það eins og aðrir að Samfylkingin muni ekki efna það kosningaloforð sitt að breyta lögum til að koma í veg fyrir að sveitarstjórnir og fyrirtæki ráðskist með og eyðileggi ef því er að skipta stórfelld náttúruverðmæti á heimsmælikvarða.

Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að halda áfram að gefa sveitarstjórnum og fyrirtækjum grænt ljós á að halda áfram á markaðri braut. Fyrirtækin geta þess vegna verið hlutafélög í eigu einstaklinga. 

Því síður þarf ráðherrann að undrast það sem hann kallar rányrkju hvað varðar það að orkan, sem um ræðir, sé ekki endurnýjanleg. Þannig er það nefnilega í mörgum jarðvarmavirkjunum á Suðvesturlandi og í stað þess að kalla 40 ára endingartíma virkjana á þessu svæði ósjálfbæra þróun og þessvegna rányrkju, er rekinn stanslaus áróður innan lands og utan fyrir nýtingu svonefndrar hreinnar og endurnýjanlegrar orku hér á landi.

Sultartangalón er á góðri leið með að fyllast upp af auri á fáum áratugum og verða ónothæft til miðlunar. Er það sjálfbær þróun, endurnýjanleg nýting, Össur Skarphéðinsson? 

Ég myndi vilja spyrja Össur að því hvar hann vilji draga rányrkjumörk sín. Við 40 ár? 30 ár? 20 ár? Hefur ráðherrann það í höndum hve lengi orkan sem Reykjahlíðarfólkið vill nýta í landi sínu muni endast mörg ár?

Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það.  

 


mbl.is Umsókn landeigenda í Reykjahlíð vekur furðu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er þetta með Jón og Séra Landsvirkjun.  Annars hélt ég að eignarrétturinn næði til alls þess sem eru á, undir og yfir eignarlandi.

Marinó G. Njálsson, 22.9.2008 kl. 12:22

2 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Þeir hljóta mega að bora beint niður í sínu eignalandi? 

Annars ættu þeir að sækja um skaðabætur frá Landsvirkjun  á þeim forsendum að Landsvirkjun er að ganga á orkuforðann sem er undir fótum Mývetninga eins og Össur heldur fram er hann svarar því til að heimamenn fái ekki að bora ofan í sama orkubúr. 

Marinó Már Marinósson, 22.9.2008 kl. 13:54

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Endurnýjanleg orka og óendanleg orka er sitt hvað og þarna er að koma upp mál sem er afar flókið og vandmeðfarið.

Í fyrsta lagi snýst vandinn um að það magn orku sem hægt er að ná upp á sjálfbæran hátt er ekki þekkt fyrirfram.

Í öðru lagi snýst vandinn um það atriði sem þú nefnir hér Ómar, á að heimila orkuvinnslu sem gengur úr sér? Um það atriði erum við sammála, það þarf að fara afar varlega og leyfa ekki meiri vinnslu en búið er að sýna fram á að sé sjálfbær. Um það eru sum orkufyrirtækin í það minnsta sér vel meðvituð um, en önnur kannski ekki.

Í þriðja lagi og það sem er kannski erfiðast í málinu eru jarðhitaréttindin, sérstaklega í ljósi þess að umfang þeirra er óþekkt. Össur getur ekkert verið að fara í fýlu þótt Mývetningar vilji nýta sínar eignir, jafnvel þótt ríkisfyrirtækið Landsvirkjun vilji það einnig. Hann er ráðherra og ber skylda til að haga sér samkvæmt stjórnsýslulögum. Mér þætti eðlilegast, ef menn komast ekki fljótt að niðurstöðu og Össur nær ekki að lenda því í góðu, sem öll tormerki virðast vera á lofti um núna, að málið fari sem fyrst til dómstóla, til að málið verði samfélaginu fyrir norðan til sem minnsts skaða, því langvarandi deilur eyðileggja traust á milli manna og skemma út frá sér. Af því hafa Mývetningar þurft að þola nóg í tengslum við Kísiliðjuna.

Gestur Guðjónsson, 22.9.2008 kl. 14:58

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jarðalög nr. 81/2004:

2. grein. Skilgreiningar. ...

Jarðhiti merkir í lögum þessum annars vegar jarðvarmaforða í bergi í jarðskorpunni og hins vegar stöðugan straum varma úr iðrum jarðar sem ekki telst grunnvatn."

3. grein. Gildissvið.

Lög þessi gilda um allt land sem ekki er undanskilið skv. 2. mgr., þ.m.t. jarðir, jarðahluta, afréttarlönd, almenninga, öræfi, þjóðlendur og hvers konar land, eyðijarðir, landspildur, lóðir, mannvirki, skóga, vatnsréttindi, veiðiréttindi, námuréttindi, jarðhitaréttindi og aðrar náttúruauðlindir, svo og hvers konar aðrar fasteignir, fasteignaréttindi, ítök og hlunnindi á landi og innan netlaga, hvort sem þau hafa verið skilin frá jörð eða ekki.

Undanskilið ákvæðum þessara laga er jarðir, annað land, fasteignir og fasteignaréttindi í þéttbýli sem skipulagt hefur verið fyrir aðra starfsemi en landbúnað með skipulagi staðfestu og/eða samþykktu af skipulagsyfirvöldum í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Það gildir þó ekki um lögbýli en ákvæði þessara laga gilda um öll lögbýli í þéttbýli án tillits til hvaða skipulag gildir um landsvæði þeirra."

40. grein. Réttindi undanskilin sölu.

Við sölu ríkisjarða er landbúnaðarráðherra heimilt að undanskilja jarðefni, rétt til efnistöku umfram búsþarfir og einnig öll vatns- og jarðhitaréttindi."

Þorsteinn Briem, 22.9.2008 kl. 20:24

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landskrá fasteigna:

Reykjahlíð I
í Skútustaðahreppi: Jarðhiti samtals 1,8 milljónir króna, samkvæmt fasteignamati.

Reykjahlíð II í Skútustaðahreppi: Jarðhiti 1,605 milljónir króna, samkvæmt fasteignamati.

Reykjahlíð III í Skútustaðahreppi: Jarðhiti 1,205 milljónir króna, samkvæmt fasteignamati.

Reykjahlíð IV í Skútustaðahreppi: Jarðhiti 804 þúsund krónur, samkvæmt fasteignamati.

Þorsteinn Briem, 22.9.2008 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband