Farin að skyggja á þá stóru?

Svei mér þá ef kappræður Söru Palins og Jóe Bidins munu ekki fá meira áhorf og áhuga en kappræður Obama og McCaine. Um fátt er meira talað hér vestra í dag, jafnvel meira en um það sem er mál málanna þessa dagana, frumvarpið til að bjarga fjármálastofnunum á Wallt Street úr ógöngum sínum, sem öldungadeildin var að samþykkja með yfirgnæfandi meirihluta nú rétt í þessu.

Þeir sem standa fyrir samkomunni sem ég verð á annað kvöld, voru í öngum sínum í dag út af óheppilegri tímasetningu sem þeir sögðu að því miður hefði ekki verið hægt að breyta því að þeir hefðu orðið að ákveða hana fyrir meira en hálfu ári. Allir, sem vettlingi gætu valdið, myndu horfa á þessa fyrstu kappræðu varaforsetaefnanna.

Spennan felst ekki hvað síst í óvissunni og því hve þetta geti farið á mismunandi veg: Annars vegar að Palin muni afhjúpa vanhæfni sína á afgerandi hátt og skapa með því eftirminnilegan atburð. Hins vegar að hún muni, líkt og Ronald Reagan, brillera á persónutöfrum og hæfni til að skauta fram hjá skorti á þekkingu og reynslu og heilla kjósendur.  

Maður heyrir rifjað upp hvernig Reagan gat með einni setningu á hárréttu augnabliki slegið mótherjann út af laginu, til dæmis þegar Carter hafði í flókinni og langri tölu ítrekað stefnu sína og Reagan sagði einfaldlega "There you go again!" 

Það var ekki aðeins þessi eina setning, heldur tímasetningin, aðdragandinn og hvernig hún var sögð. Að ekki sé nú talað um hvað hún virtist koma "spontant". Sá, sem á horfði var neyddur til að hugsa: Djöfull er hann nú klár, segir akkúrat það sem ég var byrjaður að hugsa. Og allt sem Carter hafði sagt var fokið út um gluggann.

Sjónvarp og kappræður eru óvæginn vettvangur þar sem svo margt annað en færni til að gegna valdamesta embætti heims getur ráðið úrslitum um það hvor umsækjandinn um embættið fær stuðning kjósendanna.

Margir hér vestra segja að ekki sé hægt að líkja Palin við Reagan. Hún standi langt að baki honum og vanhæfni hennar sé meiri en svo að bandaríska þjóðin muni taka áhættuna af því að hún verði forseti ef eitthvað hendir ellibelginn McCain.

Og eitt er víst: McCain á mest undir því að Palin snúi þessu áliti við. Því að klikki hún alvarlega muni fólk hugsa: Hvernig gat McCain gert þau mistök að koma þessari konu í þá aðstöðu að geta orðið komist í valdamesta og vandasamasta embætti í heimi? Ekki minnkar þetta spennuna fyrir kappræðurnar annað kvöld.  

 

 


mbl.is Kappræðna Palin og Bidens beðið með eftirvæntingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Er þetta jöfn barátta um forsetaembættið? Í dag er Obama með stuðning um 50% bandarísku þjóðarinnar sem er tala sem hefur ekki heyrst síðan áður en Regan var forseti.

Fyrir mér er svarið samt já. Undanfarnar vikur hafa sveiflurnar verið umtalsverðar og þetta er ekki búið enn þá. Ég er hrifinn af Obama en að hluta til treysti ég því að hann muni draga í land með vinstri-sinnaðar skoðanir sínar, t.d. varðandi free-trade samninga við önnur Ameríkuríki sem hann hefur verið leiðinlega neikvæður gegn undanfarið.

Þetta er ákveðið vandamál. Ég er að gefa mér hluti sem ég veit ekki. Get ég ekki alveg eins gert ráð fyrir að McCain muni draga í land með íhaldssamar félagslegar skoðanir sínar? Í sjálfu sér jú.

Hvað á maður að halda þegar báðir frambjóðendur (sem ég hafði mikla virðingu fyrir áður en þessi kosningabarátta hófst) spila svona inn á öfgavængi sinna fylgjenda rétt fyrir kosninga?

Manni verður bara óglatt. 

Páll Jónsson, 2.10.2008 kl. 05:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband