Kreppa eða afturkippur?

"Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin" var einhvern tíma sagt og þetta á oft við um orðaval. Í fyrirsögn fréttar í dag er sagt að Alþingi sé sett í skugga kreppu. Það tel ég ofmælt þótt kreppa ríki á afmörkuðu sviði í fjármálakerfi landsins og hjá einstökum þjóðfélagshópum.

Í ensku eru tvö orð notuð um samdrátt í efnahagslífi, depression, kreppa, eða recession, afturkippur. Á fjórða áratug síðustu aldar skall kreppa á um 1930, raunveruleg kreppa með svimandi háum samdráttartölum.

1937 var farið að rætast úr, en þá kom afturkippur í eitt ár, árið 1938. Sá afturkippur var þó í prósentum talið stærri en sá afturkippur sem nú má lesa úr hagtölum á Íslandi. Síðan hafa komið svipuð samdráttarskeið í bandarísku efnahagslífi án þess að menn hafi borið sér orðið kreppa í munn um hagkerfið eða samfélagið í heild sinni. 

Það varð skammvinn olíukreppa 1979 sem hafði samdráttaráhrif en stóryrði voru þó aðeins notuð um þann afmarkaða hluta afturkippsins sem laut að eldsneytismarkaðnum.

Þess vegna held ég að það sé rétt hjá forseta Íslands og hvetja fólk til að fara almennt ekki á taugum þótt í hönd fari stutt skeið afturkipps upp á örfáar prósentur. Hinu megum við ekki gleyma, að þessi afturkippur bitnar mjög harkalega á afmörkuðum sviðum þjóðlífsins, svo sem byggingariðnaðinum og hjá ungu fólki, sem var lokkað til að steypa sér í skuldir sem nú eru að sliga það. 

Hjá þessu fólki fer kreppa í hönd, raunveruleg kreppa. En það er hlutverk okkar ríka samfélags að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að áhrif afturkippsins bitni á afmörkuðum hópum í samfélaginu.  


mbl.is Þingsetning í skugga kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert Ómar. Miðað við mörg önnur ríki, þá eru auðlindir landsins fjársjóður framtíðar hvað varðar tært vatn, ómengað umhverfi og umhverfisvæna orku. Á þann hátt tel ég að við stöndum vel útbúin til framtíðar, sérstaklega þá með tilliti til að vatn gæti verið af sama gildi og olían er núna.

Að vera hér í heimsókn eftir að hafa kíkt aðeins í aðra menningarheima hefur kennt mér þá staðreynd að við erum forrík þjóð.

En auðlindir hafsins ættu að fara í eigu þjóðarinnar aftur til að verða sameiginleg ábyrgð landsmanna og tel ég það þjóðarrán að svo hefur verið haldið á þessum málum. Besta vörn landsins liggur ekki í lögregluliði dómsmálaráðherra heldur í sameiginlegri ábyrgð sem byggist á því að landsbyggðin er virk og fólki er annt um sitt umhverfi. Því er það svo að atvinnumöguleikar í sjávarþorpum okkar gefa landinu festi umhyggju.

Þetta blessaða land er eins og fínstofa finnst mér.

ee (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband