13.11.2008 | 23:13
Sært þjóðarstolt.
Í meira en hálfa öld hefur það virkað eins og hrósyrði á erlendri grund að segjast vera Íslendingur. Á nánast einum degi í haust snerist þetta harkalega upp í andhverfu sína. Niðurlægjandi Íslendingabrandarar virðast vera að taka sess Pólverjabrandaranna, jafnt á alþjóðlegu þingi geðhjúkrunarfræðinga sem á bandarísku bókasafni.
Landar mínir erlendis segja mér frá því hvernig þeir í fyrsta sinn þurfa að ósekju að þola lítilsvirðingu, háð og vantraust.
Þegar ég sýndi íslenska fánann í vængjuðu skjaldarmerki á húfunni minni á bókasafni í Ameríku fékk ég það óþvegið og var látinn vita af því að ég þyrfti að skammast mín fyrir þjóðernið. Ég hætti þó ekki að bera húfuna og mun gera það og útskýra þetta merki hér eftir sem einn af þeim tugþúsundum Íslendinga, sem geta verið stoltir af því að hafa ekki tekið þátt í himinskautabruðlinu og jafnvel reynt að hamla gegn því.
En þjóðarstoltið er sært og mun taka langan tíma að græða þau sár sem því eru nú veitt. Á níu laga diski, sem ber nafnið "Birta - styðjum hvert annað", þar sem tuttugu manna hópur tónlistarfólks undir nafninu Birta gefur allt framlag sitt á tonlist.is svo að söluandvirðið gangi óskipt á táknrænan hátt til mæðrastyrksnefndar, ber lag nr. 2 nafnið "Landið mitt - byggðin mín.
Þar er reynt að túlka það stolt, heiður og gildi sem land og þjóð geta búið yfir ef við leggjum okkur öll fram, - drauminn um Nýtt Ísland, nýja og öflugri þjóð í framtíðarlandinu, því besta á jörðinni:
LANDIÐ MITT - BYGGÐIN MÍN.
Langt í norðri laugað bárum rís
landið þar sem ég á mínar rætur.
Miklar öfgar magna eld og ís,
myrka daga, bjartar sumarnætur.
Ástarorð mín hljóma um heiði og fjörð, -
heitorð mín í gljúfrum fossinn syngur:
Stöðugt skal ég standa um þig vörð,
stoltur af að vera Íslendingur.
Landið mitt er hvítt og kalt að sjá,
krapahríðar lemja, stormar belja.
Mörgum finnst það muni vera á
mörkum þess sem byggilegt má telja.
Þegar heimsborgirnar laða ljúft
lokka menn og trylla, má ei gleyma
að þó að landið okkar þyki hrjúft
þá er hvergi betra að eiga heima.
Vafin geislum vakir byggðin mín
vinaleg í faðmi brattra fjalla.
Unaðsleg hún ól upp börnin sín
er þau hlupu um strönd og græna hjalla.
Meðan jökultind við blámann ber, -
björgin kljúfa hvíta öldufalda, -
ævinlega er efst í huga mér
æskuslóðin fagra, landið kalda.
Athugasemdir
ekki láta deigan síga þegar á móti blæs.
Fannar frá Rifi, 13.11.2008 kl. 23:39
Já stundum sækir að manni söknuður
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.11.2008 kl. 23:41
Kemur það ekki úr hörðustu átt ef Kanarnir eru nú líka farnir að nöldra í okkur...
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 23:45
Það er leitt að þú skyldir lenda í þessu, Ómar. Ég lærði eitt af bíómynd sem við mæðginin horfðum á þegar hann var unglingur; SFW. Nota það m.a.s. enn ef mér finnst að mér vegið af einhverjum ástæðum, annaðhvort á ensku ( so fucking what) eða á íslensku (hvað með það) og lyfti svo bara hökunnni og held áfram því sem ég er að gera, eins og mér sé skítsama hvað hinn aðilinn hafi verið að röfla. Að skammast mín fyrir að vera Íslendingur? Aldrei. Aðrir mega hamast í mér fyrir þjóðerni mitt, en so fucking what!! Ég er stoltur Íslendingur og það verður aldrei frá mér tekið.
N'ina S (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 00:09
Virkilega hugljúft kvæði Ómar.
En þeir sem haga sér með þeim hætti að hreita ónotum í fólk sem ber þjóðfána sinn, eru ekki svaraverðir og eru fyrst og fremst sjálfum sér til skammar. Upplýst og siðmenntað fólk ræðst ekki á einstaklinga fyrir þjóðerni þess. Þó ég hafi skömm á stjórnarháttum í Kína, dytti mér aldrei í hug að atyrða þegna landsins sem bæru merki landsins í barminum. Þjóðsöngur Sovétríkjanna og nú Rússlands hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Það breytist ekki þó stjórnmálamenn landsins hafi verið glæpamenn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2008 kl. 02:20
Hér kemur innblástur frá tímum skólaljóðanna og dundaði ég við að semja fram á kvöld eftirfarandi bögu læt duga fyrsta erindið þar sem hin hafa trúlega máðst út í höfuðstöðunum.
,,Grafnar eru götur for,
geyma frá liðnum dögum spor,
erfiði landsins snauðra erfa.
Þeir komu kóngsins landi frá,
með kjark i brjósti og báru frá,
um fjarlægt land fengs og nytja.
Fleyttu knéri til ægis alda,
þó ei vissu þeir hvurt skyldi halda,
ötulir vildu við árar sitja.''
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 02:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.