Svefnleysi og tapaðar orrustur.

Bergsteinn Sigurðsson skrifar stórskemmtilegan pistil í Fréttablaðið í dag um svefn og gildi hans. Tekur nokkur dæmi um afdrifaríkar afleiðingar svefnleysis og það tilsvar viðskiptaráðherra að hann hafi aðeins sofið 40% af þeim tíma sem hann þurfti meðan íslenskst fjármálalíf fór í hundana. Hafði reyndar sofið á verðinum fyrr í ráðherratíð sinni.

Ég get bætt við svakalegasta dæmi sem ég þekki um þetta. Þegar Þjóðverjar nálguðust París 1914 og virtust vera að sigra í heimsstyrjöldinni fyrri fór Moltke, yfirhershöfðingi Þjóðverja í baklás og panik vegna svefnleysis og gerði hver mistökin á fætur öðrum. Á sama tíma hafði Joffre, hershöfðingi Frakka, skipulagt þannig vinnu sína, að hann svaf fullan átta tíma svefn á hverri nóttu og allt sem hann gerði gekk upp.

Þegar hann svaf sáu aðrir um að taka nauðsynlegar ákvarðanir og höfðu til þess fullt umboð, enda miðaðist vinnan á vökutíma Joffres við þetta fyrirkomulag. Moltke hélt hins vegar að hann væri ómissandi og klúðraði þýsku sókninni með mistökum svefndrukkins manns.

Hitler hélt að hann væri ómissandi og var orðinn langt leiddur lyfjasjúklingur í lokin. Þegar bandamenn réðust inn í Normandí svaf Hitler aldrei þessu vant og vegna þess hve hann var háður þessum stutta svefni sínum, var bannað að vekja hann innrásarmorguninn. Það hefði svo sem verið í lagi fyrir hann að sofa ef hann hefði haft fyrirkomulag Joffres og veitt undirmönnum sínum heimild til að taka nauðsynlegar ákvarðanir þegar hann svaf. En það gerði hann ekki.

Afleiðingin var ringuleið meðal Þjóðverja og þeir misstu af tækifærinu til að reka bandamenn í sjóinn á þann hátt sem Rommel hafði viljað að gert yrði með því að hafa skriðdrekasveitir nær ströndinni og komast sem skjótast að innrásarmönnum.

Eftir ofsakláðaveikindi vegna gulu af völdum lifrarbrests fyrr á árinu veit ég um gildi svefnsins. Ég og um það bil tíu aðrir Íslendingar sem hafa orðið fyrir þessu af völdum sterkrar sýklalyfjagjafar vorum rænd svefni í 2-4 mánuði. Sum okkar áttu aðeins fáa daga í það að vera flutt á Klepp. Ég fékk þriggja mánaða "fangelsismeðferð.

Þetta er nefnilega viðurkennd besta pyntingaraðferð í fangelsum, meðal annars í Guantanamo. Í mínu tilfelli misstust 16 kíló og 40% af blóðinu. Allir vita hvað verður um rafhlöðuknúin tæki þar sem gengið er á rafhlöðurnar. Sama gildir um svefninn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bubbi Morthens segir að Össuri Skarphéðinssyni svipi nokkuð til Napóleons Bonaparte sem, líkt og Össur, var ritglaður mjög og þurfti lítinn svefn. "Napóleon átti það til að kalla á ritara í miðri orrustu og skrifa Jósefínu bréf."

Bubbi segir að Naflajón hafi skrifað hvað ákafast frá klukkan 8 á kveldin til þrjú á nóttunni. "Svo svaf hann til fimm eða sex, þegar hann byrjaði aftur að berja á Austurríkismönnum. Það eru bara heljarmenni eins og Napóleon og Össur sem leika sér að þessu."

Þess má geta í þessu sambandi að síldin sefur lóðrétt í sjónum, en undirritaður hafði það eftir Jakobi Jakobssyni, fyrrverandi forstjóra Hafró, í baksíðufrétt í Mogganum.

Þorsteinn Briem, 28.11.2008 kl. 14:51

2 Smámynd: Sævar Helgason

Hann er vandrataður meðalvegurinn í í svefni sem öðru.  Margir vilja t.d. halda því fram að ríkisstjórnin hafi sofið á vaktinni í heilt ár og það hafi orsakað efnahagshrunið.

Ekki veit ég það

Sævar Helgason, 28.11.2008 kl. 16:25

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hermt er að Margré Thatcher hafi aðeins þurft fimm tíma svefn sem og Albert Guðmundsson heitinn sem var kominn á Kaffivagninn á Grandagarði klukkan sex á morgnana, áður en hann hélt til vinnu. Þetta getur verið persónubundið.

Hins vegar þurfti Albert Einstein víst 14 tíma svefn og skal engan undra. 

Ómar Ragnarsson, 28.11.2008 kl. 20:18

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Albert Einstein var með óvenju stóran heila, þannig að þeir sem þurfa lítinn svefn eru trúlega með óvenju lítinn heila, til dæmis Össur Skarphéðinsson:

Af hverju var Albert Einstein með stærri heila en annað fólk?

Þorsteinn Briem, 28.11.2008 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband