Hvað eru "stjórnmálaflokkar"?

Sem talsmaður Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands hef ég orðið var við athyglisverðan tvískinnung gagnvart hreyfingunni, sem meðal annars hefur birst á mótmælafundum og borgarafundum að undanförnu. Á fyrsta borgarafundinum í Iðnó var talsmönnum flokkanna sem eiga menn þingi boðið að sitja fyrir svörum en Íslandshreyfingin ekki talin með.

Bak við þetta stóð sú staðreynd að enda þótt hreyfingin fengi atkævðamagn sem hefði nægt fyrir tveimur þingmönnum hjá hinum flokkunum, kom ósanngjörn kosningalöggjöf í veg fyrir hún fengi þingfulltrúa í samræmi við fylgi sitt. Mikill áróður fór fram til að hræða kjósendur frá því að kjósa hreyfinguna vegna þess að atkvæðin myndu "falla dauð."

En fyrir bragðið er Íslandshreyfingin eini stjórnmálaflokkurinn sem ekki á aðild að því sem gert hefur verið á þingi, til dæmis eftirlaunaósómanum. Á stofndegi hreyfingarinnar var lýst yfir því að hún vildi öll slík sérréttindi í burtu jafnhratt og þeim var komið á. Fróðlegt var að sjá í Kastljósi í kvöld röksemd Þuríðar Bachmann fyrir hönd VG sínum tíma fyrir sérréttindum handa þingmönnum og æðstu ráðamönnum, sem eftirlaunalögin kveða á um.

Allir þingflokkarnir áttu hlut að þessu máli og hafa notið og munu njóta sérréttinda meðan lögin gilda.

Íslandshreyfingin var eini stjórnmálaflokkurinn sem lagði upp í síðustu kosningabaráttu á síðustu stundu með tvær hendur tómar og er eini flokkurinn sem sérstök lög um fríðindi fyrir formenn gilda ekki um og ættu að vera innaflokksmál hvers flokks.

Á næsta borgarafundi var formönnum flokkanna boðið og ég koma á fundinn, en aftur voru þingflokkarnir einir um það að eiga fulltrúa uppi á sviði. Samt var tiltekið í sjónvarpsfréttum að ég og Steingrímur J. Sigfússon hefðum verið einu formennirnir sem komu á fundinn.

Í raun er Íslandshreyfingin grasrótarsamtök utan þings. Önnur grasrótarsamtök utan þings sýnast samt ekki átta sig á þessu og skilgreina okkur sem slík heldur sem sams konar stjórnmálaflokk og flokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi.

Það sést á baráttumálum þessara hópa og samtaka að þau eru í raun þrælpólitísk og er það vel. Ef þau byðu fram til þings yrði það ekkert frábrugðið framboði okkar síðast og því eru þessi samtök í raun skilgreinir stjórnmálaflokkar eða bandalag byggt á stjórnmálum ef þau byðu fram.

Þess utan er athyglisvert að stefnumál Íslandshreyfingarinnar nú eru nokkurn veginn þau sömu og hinna grasrótarsamtakanna eins og koma mun vel fram í ályktun, sem stjórn hreyfingarinnar mun senda frá sér til fjölmiðla á morgun og stefnt er að að verði komin á heimasíðu Íslandhreyfingarinnar í kvöld.

Við viljum kosningar sem fyrst þar sem kosið persónukosningu eftir nýjum kosningalögum, ítarlega rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga, tafarlausan stuðning af ríkisfé til að bjarga þeim sem verst eru staddir, að þegar verði skipt um menn í ábyrgðarstöðum o. s. frv.

Stjórnarmenn og fleiri í hreyfingunni hafa sótt mótmælafundi og borgarafundi og haldið eigin fundi á eftir Austurvallafundunum.

Þessi áherslumál okkar hafa speglast í bloggpistlum mínum og því ítreka ég þá skoðun mína að Íslandshreyfingin - lifandi land eigi heima í hópi grasrótarsamtakanna sem hafa sprottið upp með stórauknum stjórnmálaáhuga undanfarnar vikur.


mbl.is Íslendingar boðaðir á þjóðfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Nú eru ólgutímar og margt sem kallar á endurskoðun stjórnmálavettvangsins. Það er mikill vilji til breytinga, það sést vel á fundunum á Austurvelli og í Háskólabíói. Hvernig getur þessi hreyfing fjöldans náð tökum á tilveru sinni og beint kraftinum í farveg sem leiðir til breytinga á þingi? Það er mikilvægt að Íslandshreyfingin komi af krafti fram með sín stefnumál. Kanski þarf að endurskoða áhersluröðina í ljósi síðustu umbyltinga.

Hjálmtýr V Heiðdal, 27.11.2008 kl. 21:09

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég held að margir hafi ákveðið að kjósa ykkur ekki því þið hafið ekki pólitíska reynslu. Látum atvinnumennina sjá um stjórnun landsins. Því miður hefur komið all rækilega fram að atvinnumennirnir voru starfi sínu ekki vaxnir. Kannski er kominn tími til að "venjulegt fólk" komist inn á þing og taki við stýrinu. Það verður gaman að sjá hvernig ykkur gengur næst.

Villi Asgeirsson, 27.11.2008 kl. 21:10

3 Smámynd: Ingibjörg SoS

Gott hjá þér, Ómar.

Íslandshreyfingin - lifandi land "á" heima í hópi grasrótarsamtakanna.

Að mínu mati þarf einungis að leiða þau öll saman(grasrótarsamtökin). Nú þurfum við víst á kynningarfundi að halda. 

Veistu Ómar, - ég er um það bil að verða örlítið bjartsýn held ég

Ingibjörg SoS, 27.11.2008 kl. 21:12

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skal fallast á það að borgarafundirnir samsvari ekki flokkapólitík að því leyti að þar eru ekki samþykktar ályktanir eins og á mótmælafundunum. En viðfangsefni borgarafundanna eru eins póltísk og hugsast getur.

Varðandi reynsluleysið vil ég benda á bandarísk stjórnmál þar sem hefð er fyrir því að í ríkisstjórn séu skipað hæft fólk, þótt það sé úr öðrum flokkum en forsetinn og jafnvel utan flokka.

Ef Íslandshreyfingin kæmist til áhrifa um myndun ríkisstjórnar myndi hún í fyrsta lagi vilja láta breyta lögum þannig að ráðherrar hefðu ekki atkvæðisrétt á þingi og í öðru lagi að í ráðherrastöður yrðu ráðnir hæfir menn utan flokka ef þurfa þætti.

Líklegast yrði um samsteypustjórn að ræða og þá tel ég að innan raða hreyfingarinnar séu einstaklingar sem gætu gegnt ákveðnum ráðherraembættum eða sinnt þingmannsstörfum vel.

Ég vil minna á að reynsluleysið var mjög notað gegn Kvennalistanum á sínum tíma. Ég veit samt ekki betur en að úr röðum þeirra hafi sprottið ráðherrar á borð við Ingibjörgu Sólrúnu og Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Ómar Ragnarsson, 27.11.2008 kl. 21:49

5 Smámynd: Dunni

já.  Hvað eru stjórnmálaflokkar er góð spurning.  Eitt er nokkuð ljóst að hvorki Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsókn geta kallast stjórnmálaflokkar.  Þessir flokkar eru ekkert annað en hagsmunasamtök og hafa alla sína tíð varið kröftum sínum í að gæta hagsmuna eigenda sinna.

Því miður virðist Samfylkingin vera að færast yfir í hagsmunavörsluna líka. Annars hefði hún bundið endi á ríkistjórnarsamstarfið  um leið og Sjálfstæðisflokkurinn þjóðnýtti Glitni.

Frjálslyndir eru enginn flokkur. Alla vega ekki þingflokkur. Þingmennirnir virðast bæði sundurlyndir og mislyndir og alls ekki frjálslyndir. Hver höndin upp á móti annarri og lítið af þeim að vænta.

 Það liggur því fyrir að við þurfum nýtt stjórnmálaafl inn á þingið. Það eru ugglaust margir góðir menn þar fyrir en þeir nýtast ekki þjóðinni  meðan þeir vinna að hagsmunagæslu fyrirtækja og fjármagnseigenda. 

Kannski getur Íslandshreyfingin orðið það stjórnmálaafl sem við þurfum til að rétta af stefnuna í stjórnarráðinu.  Við skulum bara vona það.

Dunni, 27.11.2008 kl. 21:55

6 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég tel að ástandið sé þannig að það sé brot gegn lýðræðislegum rétti þjóðarinnar ef ekki verður kosið í vor.

Það hlýtur að vera vilji einhverra sem nú láta að sér kveða á fjöldasamkomum að nýta þennan pólitíska kraft til uppstokkunar á valdakerfinu. Ekki veitir af. En það er engin ein stefna sem ræður. Sameiginlegur draumur mikils fjölda er að skapa nýtt Ísland. Að byggja upp á rústum hins gamla nýtt lýðræðislegra þjóðfélag.

En hvernig á það að vera? Ég tel að við eigum heima í ESB en margir spýta galli ef á það er minnst. Marga dreymir um einhverskonar afturhvarf til fortíðar - til landsins sem var utan hernaðarbandalaga og fremur einangrað og dálítið gamaldags. En voða kósí. Það sem ég tel að sé efst á baugi er að fylgja eftir flótta spillingarliðsins í flokkum Framsóknar og Sjálfstæðis. Þannig er hægt að byggja betra þjóðfélag - sem verður opið og lýðræðislegt vegna þess að þannig viljum við hafa það.

Hjálmtýr V Heiðdal, 27.11.2008 kl. 22:54

7 Smámynd: Sævar Helgason

Er ekki samfylkingin gott dæmu um regnhlífarsamtök ?  Undir þeirri regnhlíf er ennþá mikið pláss...

Sævar Helgason, 27.11.2008 kl. 22:55

8 identicon

 Ég hef lengi vellt því fyrir mér hvernig íslendingar líta á lýðræðið. Td. eins og þú segir Ómar "Mikill áróður fór fram til að hræða kjósendur frá því að kjósa hreyfinguna vegna þess að atkvæðin myndu "falla dauð." " Við höfum laugardags-lottó á laugardögum í hverri viku, víkinga-lottó á miðvikudögum í hverri viku. Er þetta svo kannski alþingis-lottóið sem við svo tökum þátt í fjórða hvert ár?

Hvernig væri að gera fréttir úr kosningabaráttu smá sportí. Sé fréttamanninn fyrir mér lýsa leiknum " Össur leikur þessari feitu og flottu lygi upp vinstrikantinn og spyrnir henni fyrir markið þar sem fyrirliðinn Ingibjörg tekur við henni........og.......oooog.....það er maaaaaaaaaark. Samfó hefur skorað maaaark og þjóðin kom engum vörnum við og gleifti lygina eins og ljúffenga steik, jumm jumm."

Hef alltaf kosið eftir minni sannfæringu og skilað auðu nema síðas, þá gaf ég samfó atkvæðið mitt í von um að stjórnarflokkarnir þá færu frá. En núna vil ég eins og svo margir aðrir sjá algjöra uppstokkun og allt spillingarliðið í kerfinu út. 

Ómar, ef þú býður uppá alvöru steik í næsti kosningum er ég sannfærður um að sannfæring mín sannfærist um að fá sér bita.

Takk fyrir mig. 

Alexander (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 00:45

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ómar: Þú spyrð: "Hvað er stjórnmálaflokkur?" Sjálfur hef ég purt sjálfan mig þessarar spurningar æði oft og alltaf komist að sömu niðurstöðu. Stjórnmálaflokkur er baráttutæki fólks með samræmdar skoðanir í veigamiklum pólitískum málum samfélagsins. Þetta er það eina svar sem ég sætti mig við. Með aldri breytast þessir flokkar flestir og verða ýmist að baráttutusamtökum tiltekinna viðskiptahópa ellegar stökkbretti framapotara með óljós markmið og illa skilgreind. Flestir verða svo flokkarnir að hópum sauðgeldra jámanna sem finna hjá sér metnað til að kallast félagar í einhverju sem líkja má við stuðningshóp tiltekins knattspyrnuliðs og túlka niðustöður kosninga með sama hugarfari og þeir sem telja skoruð mörk í lok leiktíðar.

Stjórnmálaflokkar lenda því í viðmiðun 1.-2. eða þriðju deildar auk úrvalsdeildarinnar, en síðustu áratugi hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið þar einn og hampað bikarnum í lok kosninga. 

Nú eru þeir tímar að þessi flokkur er að melta með sér hvort eigi að reka þjálfarann og framkvæmdastjórnina. Nýbyrjuð leiktíð hefur ekki skilað liðinu sigrum og sjálfsmörkum rignir inn í netið eins og í handbolta þar sem markmaðurinn skreppur eftir pitsu á meðan ónýt vörnin þjappar sér saman í faðmlögum að skipan þjálfarans.

Reiði íslenskra kjósenda beinist að valdstjórninni sem aldrei fyrr og fólk þyrpist á mótmælafundi. Þar er orkunni eytt í slagorð og vel máli farnir  frummælendur eru hylltir líkt og byltingaforingjar á bönnuðum samkomum einræðisstjórna í illræmdum ríkjum.

Ég vil að þetta fólk fari nú að eyða adrenalíninu í að skipuleggja sig við að móta samræmdar tillögur í átt til framtíðar því ef við viljum breytingar þá verðum við að skilgreina ákveðið og skýrt hvaða leið við ætlum að fara ef okkur tekst að hrinda þeirri valdstjórn sem við erum að mótmæla. Ástand er afleiðing pólitískra ákvarðana. Það verða allir að skilja. Og í dag eru margir hópar að funda, hver í sínu horni og það mun ekki leiða af sér neitt öflugt mótvægi gegn sitjandi valdsjtórn. Kosningar til Alþingis væru mikið slys ef ekki verður áður búið að þaulskipuleggja sameiningu allra þeirra baráttusamtaka sem virkilega eru reiðubúin til að ganga á hólm við ríkjandi pólitík.

Og kjarninn í þeim gætu verið Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn, en hvorugt þessara stjórnmálaafla hefur í dag leyfi til að vonast eftir að verða talið trúverðugt afl til að setja svip á pólitíska stefnumörkum í næstu kosningum. En í báðum þessum flokkum sameinuðum yrði til sterkur kjarni sem í rótinni hefur áþekkar skoðanir í mörgum veigamiklum réttlætismálum. Ég sé þessa hópa á sameiginlegum fundi kjósa sér undirbúningsnefnd sem byrjað tafarlaust að vinna að sameiginlegri stefnuskrá sem lögð yrði fyrir hópana saman eða sitt í hvoru lagi. Núverandi stjórnir þessara flokka afsöluðu tímabundið völdum þar til undirbúningsvinnu lýkur og niðurstaðan yrði borin undir atkvæði. Unnið yrði hratt því hver dagur er dýrmætur.

Þetta er skarpasta leiðin að mínu mati. Endalaus mótmæli án skýrra markmiða til framtíðar og sterkrar forystu er barnalegur óvinafagnaður.

Bestu kveðjur undir nóttina!   

Árni Gunnarsson, 28.11.2008 kl. 00:49

10 Smámynd: Þór Jóhannesson

Já, því miður þá er Sjálfstæðisflokkurinn löngu hættur að vera stjórmálaflokkur og er roðinn að hagsmunasamtökum sem rekin eru úr Valhöll (hvaða stjórnálflokkur á annars slíkt húsnæði?).

Þessi staðreynd er ekki síst ástæða þess hvernig komið er fyrir þjóð vorri.

Þór Jóhannesson, 28.11.2008 kl. 03:11

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Til að hafa það á hreinu, þá sá ég "reynsluleysið" ekki sem galla. Það var notað af hinum og þessum til að gera lítið úr Íslandshreyfingunni. Það hefur svo komið fram að þingmenn og bankamenn höfðu ekki þá reynslu sem við héldum. Þeir voru bara orðnir heimavanir í þeim stöðum sem þeir sátu. Fólk var að rugla saman reynslu og vana. Ofurlaunin og ímyndin trausta dugði skammt þegar eitthvað gerðist.

Hafi Íslandshreyfingin og Ómar ekki nóga reynslu af stjórnmálum, er það af hinu góða, því reynsla þeirra sem nú sitja virðist takmarkast við að maka eigin krók og vina sinna.

Villi Asgeirsson, 28.11.2008 kl. 09:22

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Íslandshreyfingin er fyrsti og eini flokkurinn á Islandi sem er fyrst og fremst grænn flokkur með höfuðáherslu á umhverfismál án þess að skilgreina sig sérstaklega til hægri eða vinstri.

En þessi áhersla fer vel saman við endurreisnarstefnu sem hafnar skammgróðalausnum og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum, en þetta tvennt hefur verið meginstefið í þeirri sjálftlöku-þenslupólitík sem hefur leitt okkur þangað sem við erum komin.

Ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar sem sjá má á heimasíðu hennar ber glögg merki um þetta.

Kosningabandalag Íslandshreyfingarinnar og annarra umbótaafla gæti verið hugsanlegt.

Hvað Frjálslynda flokkinn áhrærir er rétt að benda á að sá flokkur hefur aðhyllst stóriðjustefnuna þótt innan hans sé fólk sem ætti að geta átt samleið með stefnu Íslandshreyfingarinnar í umhverfis- og orkumálum.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2008 kl. 10:02

13 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ómar,

Ég kaus þig í síðustu kosningum og hafði virkilega trú á að þarna væri að koma inn nýtt afl í Íslensk stjórnmál sem myndi ná að breyta einhverju.

Því var ég ótrúlega svekktur að verða vitni af því hvernig ný kosningalög fóru með þennan nýja vaxtarsprota í stjórnmálum.

Við þurfum meira af hugsjónarfólki í stjórnmál, ekki valda- og klíkufólk.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.11.2008 kl. 10:58

14 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég vona svo sannarlega að Íslandshreyfingin kemst á þing næst.

Úrsúla Jünemann, 28.11.2008 kl. 11:16

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sammála þessu með stóriðjubullið í forystuliði okkar frjálslyndra. Þó veit ég um marga umhverfisverndarsinna innan okkar raða. En í næstu alþingiskosningum er mikilvægt að til sé eitt stjórnmálaafl sem hefur skýra stefnu í því máli ásamt skýrri stefnu í aðild að ESB. Mér er líka óskiljanlegt að enginn flokkur á Alþingi hefur talað skýrt um breytta stefnu í nýtingu fiskistofnanna nema Frjálslyndi flokkurinn.

En ef forystudraumar einstaklinga verða innihald í samræmingarvinnu fámennra stjórnmálaafla er sú vinna óþörf tímatöf.

Sammála þér Kjartan Pétur.   

Árni Gunnarsson, 28.11.2008 kl. 11:50

16 identicon

Sæll Árni.

Frjálslyndir vilja allt gott í sínar eigur og ef einhverjum ratast á góða hugmynd eru Frjálslyndir fljótirað kippa henni til sín það er vel. Það væri út af fyrir sig ágæt ef hún síðan koðnaði ekki niður og yrði að engu í þeirra höndum.

Neðangreind tillaga barðist ég fyrir vítt og breitt í mörg ár og finnst mér enn ljómi hennar í engu horfin. Frjálslyndir voru fljótir að eigna sér hana en eru nú komnir út um víðan sjó að styrkja kvótabraskkerfið enn fastar í sessi. Tillagan er eftirfarandi:

,,Leyfðar verði krókaveiðar smábáta strax með dagatakmörkunum hver á sínu byggðasvæði allt að 6 sjómílur út og svæðin lokuð öllum öðrum veiðarfærum. Þessi heimild verði aðeins veitt þeim aðilum sem skráðir eru og landa aflanum til vinnslu á viðkomandi svæðum.''
                              

                       Með bestu kveðju, Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 12:43

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tek fram að athugasemd Baldvins er orðuð í meginatriðum í fáum orðum í nýrri ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2008 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband