30.11.2008 | 23:17
Rikki í meira en 60 ár!
Ég var aðeins sex ára gamall þegar Ríkarður Jónsson varð eitt átrúnaðargoðum mínum. Pabbi var útnefndur efnilegasti knattspyrnumaðurinn hjá Fram 1939 en hætti að spila fótbolta. Hélt samt alltaf mikilli tryggð við Fram og skráði mig inn í félagið nokkrum mánuði fyrir fæðingu.
Á síðari hluta fimmta áratugarins spilaði Ríkarður Jónsson fyrir Fram vegna fjarveru sinnar af skaganum. Í þá daga var langt upp á Skaga, meira en 110 km akstur eftir krókóttum og mjóum malarvegum. Hinn kornungi Rikki sló í gegn hjá Fram meðan hann spilaði fyrir félagið mitt.
Þegar hann fór að spila með gullaldarliði Skagans og þjálfa það óx aðdáunin enn á honum. Helsti kostur Rikka voru fjölbreyttari hæfileikar sem knattspyrnumanns en nokkur annar Íslendingur, að Albert Guðmundssyni einum undanskildum, bjói yfir.
Donni hafði frábæra knatttækni, Þórður Þórðarsson hafði einstakan líkamsstyrk,hraða og skotfestu og skoraði flest mörk sum sumrin, en Ríkarður hafði þetta allt plús einstaka yfirsýn og stöðuskyn og frábæra skallatækni.
Gullaldarlið Skagamanna átti hug þúsunda Reykvíkinga þeirra á meðal minn hug og hjarta. Rikki innleiddi byltingu í íslenska knattspyrnu.
Hæst reis dýrð Ríkarðs í Svíaleiknum þegar silfurþjóðin tapaði á Melavellinum 29. júlí 1951 og Ríkarður skoraði fimm mörk sem öll voru í raun lögleg þótt eitt þeirra væri ranglega dæmt ólöglegt.
Í Kalmar 1954 áttu Íslendingar í fullu tré við sænska silfurliðið á heimavelli þess. Íslendingar töpuðu að vísu með eins marks mun en fengu einróma lof sænsku pressunnar. Ríkarður var sagður einn af bestu knattpyrnumönnum Evrópu.
Ég var í sveit og sá ekki Svíaleikina en hlustaði þeim mun betur á útvarpslýsingar Sigga Sig.
Minnisstæðastur er mér Ríkarður þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Norðmönnum á Laugardalsvelli með frábærum skalla.
Þetta var svo dramatískt. Örn Steinsen komst upp hægri kantinn og gaf á Rikka sem kom á ferðinni vinstra megin, stökk hæst allra og skallaði óverjandi í markið. En viti menn! Dómarinn dæmdi markið af og taldi ranglega að um ólöglega bakhrindingu Ríkarðs hefði verið að ræða.
Allt varð vitlaust á vellinum en þeir félagar Örn og Rikki lögðu ekki árar í bát. Skömm síðar óð Örn aftur upp hægri kantinn og gaf langa og hnitmiðaða sendingu yfir á vinstri vallarhelminginn þar sem Rikki stökk aftur upp alveg eins og í fyrra skiptið, hærra en aðrir, og skallað enn fallegar í markið!
Og nú var ómögulegt að sjá nokkuð athugavert og markið var dæmt gilt.
Já, það vafðist ekki fyrir mér að hnoða saman textanum "Skagamenn skoruðu mörkin" með minningarnar ljóslifandi af þeim flottustu sem Rikki skoraði. Sá á skilið heiður og sóma!
Ríkharður heiðursborgari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.