Prófraun fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ef það er rétt að 200 flokksfélög eigi aðild að landsfundum Sjálfstæðisflokksins mætti ætla að á þeim fundum blómstraði lýðræðið. Ég hef fylgst óbeint með þessum fundum í 60 ár. Fyrst var það í gegnum foreldra mína, sem sóttu þessa fundi alla þeirra tíð, og frá 1959 hef ég auk þess skemmt á flestum fundanna og hitt margt landsfundarfólk í tengslum við það.

Sumrin 1959 og 1960 vann ég á skrifstofu flokksins þann tíma sem ég skemmti á héraðsmótum hans, því að héraðsmótin tóku mikinn tíma og komu í veg fyrir að ég gæti haft aðra vinnu.

Kona mín hefur verið landsfundarfulltrúi í áratugi og var varaborgarfulltrúi í sextán ár. Ég hef alla tíð átt vinskap og samskipti við fjölmarga góða og gegna Sjálfstæðismenn. Aldrei hef ég þó verið félagi í flokknum og aldrei skilgreint mig pólitískt sem Sjálfstæðismann, heldur kosið fleiri en einn og fleiri en tvo í kosningum.

Ég held að ég geti því sagt af nokkurri afspurn og reynslu að 200 félaga lýðræðið hafi ekki virkað nema að hluta til á þessum fundum og því miður alls ekki á stundum í stærstu málum þjóðarinnar. Agavald forystu flokksins hefur oft fengið að ráða og aldrei eins svakalega og á síðari hluta valdatíma Davíðs.

Dæmi: Þótt skoðanakannanir sýndu að helmingur þeirra sem kjósa myndu flokkinn væri á móti Kárahnjúkavirkjun þorðu landsfundarmenn ekki annað en að hrekja Ólaf F. Magnússon úr ræðustóli og niðurlægja hann þegar hann bar upp hóflega orðaða tillögu í málinu.

Í kvótamálinu var valtað yfir þá í sjávarútvegsnefnd fundarins sem vildu ekki þýðast flokkslínuna í einu og öllu.

Á valdatíma Davíðs hefði verið óhugsandi að taka aðra afstöðu en gegn öllu ESB-tali. Komandi landsfundur verður prófraun fyrir flokkinn. Þá mun koma í ljós hvort búið sé að leika hann svo hart að nauðsynlegar breytingar innan hans til aukins lýðræðis verði endanlega kistulagðar.


mbl.is Teflt á tvær hættur með Evrópuumræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjósandi

af moldu ertu kominn og af moldu skaltu aftur verða ....

Kjósandi, 30.11.2008 kl. 15:56

2 identicon

Þó máttugur sé þá komst Davíð ekki yfir það að vera með hökuna á öxlum manna í kjörklefanum. 

Fólk vissi hvað það var að kjósa yfir sig og mér finnst í umræðunni gleymast að öll fulltrúaþing eru nokkuð nákvæmur þverskurður af því fólki sem velur fulltrúana.

Þingið í dag er bara eins og þjóðin, svolítið sofandi utan einn og einn græningi sem iðulega var sagt að halda kjafti af því hann truflaði góðærisværðina.  

101 (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 18:24

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Ef þú kýst fleiri en einn flokk er atkvæðið þitt ógilt! Jú, auðvitað veit ég hvað þú átt  við enda á sama báti sjálfur.

Tek sérstaklega undir lokasetninguna enda rímar hún vel við mínar hugleiðingar um Sjálfstæðiflokkinn. Ég held að menn sem verja hann hvað harðast, í góðri trú, séu að gera flokknum grikk.

Haraldur Hansson, 30.11.2008 kl. 21:16

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það verður fróðlegt að sjá hversu öflugir evrópusinnar eru innan flokksins. Geir Haarde svaraði spurningum Mbl.um ESB-aðild í dag. Það segir m.a. að það byggist „á hagsmunamati“ og að útkoman úr matinu hafi hingað til verið neikvæð. Nú „í kjölfar hinna miklu hremminga“ verður að endurskoða matið. Þá hlýtur að koma upp sú spurning hvers vegna það þurfti hrun og hremmingar til að koma flokknum í endurmat? ESB hefur ekki breyst og hagsmunir Íslendinga hafa ekki breyst. Þessi orð Geirs eru með öðrum orðum volg viðurkenning á því að vegferð þjóðarinnar undir leiðsögn Flokksins hefur verið í vitlausa átt. Einföld skýring: göngum þangað - þar mun okkur vegna vel..æ nei, hér er bara fúafen! Snúum við!

Hjálmtýr V Heiðdal, 30.11.2008 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband