Skuggahliðar heimsveldanna.

Margir hafa átt erfitt með að skilja hvernig sjálfstæðishetjur Indverja á borð við Gandí vildu lengi vel ekki veita Bretum lið í baráttunni við Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og að Farúk, konungur Egyptalands, þráði að ÞJóðverjar rækju Breta úr Miðausturlöndum 1942 þegar Rommel sótti inn í landið.

Hvernig mátti það vera að leiðtogar þessara þjóða héldu með mestu villimennsku, sem hugsast gat, rasisma nasistanna?

Ástæðan var einföld og skiljanleg. Hinir innfæddu í nýlendunum máttu búa við ofbeldi og kúgun nýlenduherranna sem ofan á allt töldu sig vera kristna og siðvædda!

Hitler dáðist alla tíð að breska heimsveldinu og öfundaði Breta af því, ekki hvað síst vegna þess að í nýlendum Breta réði herraþjóð, "ubermenshen" ríkjum og drottnaði yfir hinum óæðri kynþáttum.

Þetta var það módel sem Hitler vildi innleiða í þeim löndum Austur-Evrópu þar sem bjuggu hinir óæðri slavnesku þjóðir sem áttu ekkert betra skilið en að þjóna arísku ofurmennuum og lúta þeim í einu og öllu.

Þess vegna gerði Hitler Bretum tilboð sumarið 1940 sem hann hélt að þeir gætu ekki hafnað. Hann bauð Bretum að halda heimsveldinu ef þeir semdu frið og bauð Bretum það í ofanálag að ÞJóðverjar myndu verja breska heimsveldið!

"VIð munum eyða hverjum þeim óvini sem vill eyða breska heimsveldinu!" þrumaði hann.

Bretar þrjóskuðust við í samræmi við aldalanga stefnu þeirra að koma í veg fyrir að neitt stórveldi gæti orðið of öflugt á meginlandinu.

En greining Churchills á illu eðli nasismans og mótspyrna gegn alræði og einveldi blés Bretum og bandamönnum þeirra líka eldmóð í brjóst. Þrátt fyrir allt má því segja að seinni heimsstyrjöldin hafi af hálfu bandamanna verið eitt af þeim fáu stríðum sem réttlætanlegt var að heyja.

HIð nöturlega við 20. öldina er það að það voru Evrópuþjóðir sem töldu sig kristnar og siðaðar sem að mestu stóðu fyrir hræðilegustu manndrápum mannkynssögunar sem kostaðu samtals meira en 100 milljónir manna lífið.


mbl.is Pyntuðu afa Obamas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Seinni heimstyrrjöldin var bara hópar af mismunandi tegundum af illmennum að berja hvorir á öðrum.

Þetta voru allt fasistar.  Líka Bretar (eins of þú bentir sjálfur á).  Sovétríkin vöru fasísk.  Munurinn á Sovét-kommúnisma og Fasisma var svipaður og munurinn á bragðinu af Hvítum Kjúkling og Svörtum kjúkling.

Til allrar hamingju þá barst slagurinn til Rússlands, þar sem megnið af óaldarflokkunum fraus.

Svo voru Kínverjar í þessu líka.  Það var nú meira helvítis blóðbaðið.  Ég veit ekki einusinni nákvæmlega hverja þeir voru að drepa eða af hverju, en megnið af því ku hafa verið bændur sem bara voru þarna. 

Ásgrímur Hartmannsson, 3.12.2008 kl. 22:58

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Japanir réðust inn í Kína 1937 og síðan var ófriðurinn af þeirra völdum stanslaust til 1945. Þetta hræðilega stríð verður fyrst og fremst að skrifa á reikning Japana, ekki Kínverja.

Segja má að heimsstyrjöldin síðari hafi skipst í fjóra kafla.

1. Innrás Japana í Kína 1937.

2. Innrás Þjóðverja í Pólland 1.september1939.

3. Innrás Þjóðverja í Sovétríkin 22. júní 1941.

4. Árás Japana á Bandaríkin og lönd Suðaustur-Asíu 7. desember 1941.

Vestrænar þjóðir miða við 2. kaflann þegar talað er um heimsstyrjöldina síðari 1939-45.

Rússar tala ekki um heimsstyrjöldina heldur "Föðurlandsstríðið miklar 1941-45.

Asíubúar

Ómar Ragnarsson, 4.12.2008 kl. 00:27

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ath. Orðinu "Asíubúar" neðst í athugasemdinni hér á undan er ofaukið.

Ómar Ragnarsson, 4.12.2008 kl. 00:28

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bretar voru og eru óalandi og óferjandi skríll. Bandaríkjamenn og Sovétmenn unnu Síðari heimsstyrjöldina en engan veginn Tjallar.

Orrustan við Stalínbæ, nú kenndum við Volgu, blóðugasti bardagi mannkynssögunnar, var vendipunkturinn í Síðari heimsstyrjöldinni og Föðurlandsstríðinu mikla, eins og Sovétmenn kalla sinn slag á árunum 1941-1945.

Þegar Tjallarnir komu hingað vorið 1940 litu þeir út eins og hinn þýskumælandi Gísli gamli á Uppsölum, langflestir unglingar og fátækir verkamenn sem ekki áttu eina skræðu, öfugt við íslenska bændur, sem voru að kafna í bókum. Og Íslendingar gerðu fyrir Tjallana flugvöll í Vatnsmýrinni með haka og skóflu.

Gervifallbyssum, búnum til úr tré eins og Gosi spýtukall, var hlammað niður á ströndina við Ermarsund og þær málaðar til að líta út fyrir að vera ekta. Og soltið hefðu Tjallar sáru hungri, ef við hefðum ekki gefið þeim fisk að éta, bæði hérlendis og í þeirra aumu og skítköldu heimkynnum. Enda hlógu Þjóðverjar sig máttlausa að þessu volæði Tjallanna öllu.

Íslendingar kynntust ekki almennilegum verkfærum fyrr en Kaninn kom með sína Willysa, skurðgröfur og jarðýtur, sem notaðar voru til að gera flugvöll við Keflavík, en síðar tún og skurði sem nú er verið að moka ofan í.

Þorsteinn Briem, 4.12.2008 kl. 00:33

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Eins og Ásgrímur hér að ofan tek ég undir að lítill munur sé á bragðinu af svörtum eða hvítum kjúklingi, nasistum og kommúnistum - og ekki voru morðsveitir Leníns og Stalíns sem stóðu fyrir bróðurpartinum af vígum 20. aldar, sérlega kristnar, þótt Stalín hefði eitt sinn verið prestsefni og helgislepja.

Afstaða Ghandis og leiðtoga í Miðausturlöndum til Nasista einkenndist ekki bara af hatrinu í garð nýlenduvaldsins. Ghandi var hrifinn af ýmsu í fari Hitlers og Arabaleiðtogar hvöttu menn sína að ganga í lið við SS vegna haturs á gyðingum. Sömu menn voru andlegir leiðtogar PLO og PFLP etc.

Ég hef á mínu bloggi skrifað um tvískinnung Ghandís

og svo langar mig að deila þessari mynd með þér Ómar og lesendum þínum:

Ghandi var meiri Breti en þú heldur. Hann hefði aldrei orðið til án þeirra. Hugsunarhátturinn í þessum orðum hans um hvað gyðingar hefðu átt að gera, eru afar ó-indversk!

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 4.12.2008 kl. 00:56

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ghandioffthecliff

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 4.12.2008 kl. 01:01

7 identicon

Vandamálið við sögu er að endalaust má karpa um það hversu langt aftur á að fara, og hvar byrjar þetta og hitt.

Ef menn ætla að skoða eða "kommenta" á sögu Japans í "nútíma sögu", þá verður að skoða hver það var sem "neyddi" Japana til að opna dyrnar út í heiminn og hvaða afleiðingar það hafði (án þess að fyrra Japana neinni ábyrgð). Japan hafði verið lokað land í meira en 200 ár þegar Commodore Matthew Perry neyddi Japani til að opna landið árið 1853, en þó með "hentugum" samningum sem gerði Bandaríkin að eina landinu sem mátt hafa viðskifti við þá. Þeir meira og minna stjórnuðu uppbyggingu landsins og umbyltingu hersins, í landi sem hafði bannað skotvopn vegna eyðingarmátts þeirra og hversu ópersónulegt og heiðurslaus/huglaus þau voru/eru. Flestir af bestu yfirmönnum herafla Japana voru mentaðir í skólum í Bandaríkjunum, eða með efni frá skólum þaðan. Besta dæmið er sjálfur Isoroku Yamamoto flotaforingi, en hann var mentaður í Imperial Japanese Naval Academy og U.S. Naval War College ásamt því að vera í Harvard  1919–1921. Hann var reyndar "alræmdur" af samnemendum sínu fyrir að vera frábær póker spilari, enda vonlaust að lesa neitt í andlitið á honum. Þannig að Bandríkjamenn sköpuðu sjálfir "ófreskjuna" sem síðar réðist á þá.

Að mínu mati þá er síðari heimstyrjöldin ekki neitt nema seinnihálfleikurinn í styrjöld sem við köllum almennt fyrri og seinni heimstyrjöldin. Seinnihlutinn var afleiðing af skelfilegri "úrvinnslu" þess hluta sem við köllum fyrri heimstyrjöldin. Og þegar kemur að því að tjá sig um það hver gerði hvað og á hvaða tíma og með hvaða afleiðingum, þá verða menn að skoða hegðun Breta og heimsveldis þeirra í heild sinni. Hvað með Búastríðið og framkomu Breta? Þeir komu jú upp fyrstu einangrunarbúðunum/concentraton camp sem notaðar voru, eftir því sem ég best veit. En þær voru notaðar til að safna saman konum, gamalmennum og börnum, til að þvinga Búana til uppgjafar, með skelfilegri meðferð á fögunum.  

Hegðun Breta í Búastríðunum (1879-1915) meðal annars undir stjórn Lord Kithener og Winston Churchill (sem opinberaði rasískar skoðanir sínar alla æfi, ef menn vilja skoða það á annað borð), og síðar í flestum nýlendum sínum langt fram á síðari hluta síðustu aldar, gerir það að verkum að ég hef nákvæmlega ekki neina samúð, eða hluttekningu í örlögum þeirra. Enda sjálfskapað meira og minna að mínu áliti, með ótrúlegri framgöngu og skelfilegri meðferð á undirokuðum þjóðum, sem flestar voru sjálfstæðar í einhverri mynd, áður en Bretar settu sér það markmið að stjórna og arðræna allt að 2/3 hlutum mannkyns.

Það voru ekki Þjóðverjar sem byrjuðu fyrri heimstyrjöldina, heldur voru þeir "dregnir" inn í hana eftir að Ungversk- austurríska keisaradæmið fór í stríð eftir morðið á Erkihertoganum Francis Ferdinand, enda var varnarsamningur við hið máttlausa og úrvinda gamla "apparat" í gildi. Það má vel vera að Þjóðverjar hafi ætlað í stríð, en það voru ekki þeir sem hófu það.

Þó að ég muni ekki á neinn hátt verja, eða viðurkenna hegðun nazista frekar en annara öfgaafla sem réttlætanlega, þá hafa Þjóðverjar verið settir upp sem höfundar og alvaldar örlaga Evrópu á þessum tíma, en það er bull að mínu mati, enda beint samhengi við fyrri heimstyrjöldina eins og ég nefndi hér að undan.

Sem dæmi um undarlega söguskoðun/kennslu er aðild Austuríkis að þriðja ríkinu og áróðurssigur þeirra eftir stríð. Á einhvern ótrúlegan hátt hefur þeim tekist að gera Hitler að Þjóðverja og innlimun Austurríkis í þriðja ríkið að glæpi. Austurríkismenn samþykktu í  kosningum, með yfirgnæfandi meirihluta að sameinast Þýskalandi (ekki allir sammála um framkvæmd kosninganna reyndar). Það er ekki síður fróðlegt að skoða hlutfall Austurríkismanna í SS sveitunum, en þeir voru greinilega ákaflega trúir skoðununum flokksins, enda hlutfall þeirra yfirgnæfandi.

Ég bið menn að afsaka hversu þvers og kruss ég þusa um þetta, en málið er að hvert það ríki sem gert hefur aðra þjóð að undirsátum sínum með ófriði, eða vopnavaldi til arðráns, eða einhverrar annarar kúgunar á að skammast sín, og hefur ekki nokkura "kröfu" á hluttekningu þegar kemur að söguskoðun. Og hana nú.

Kristján Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 03:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband