31.12.2008 | 17:43
Gætum vel að.
Lýðræði er gallagripur en ekkert skárra hefur fundist til að skipa málum þjóða. Fjölmiðlar eru líka gallagripir eins og öll mannanna verk . Samt er það svo að eins ótrufluð, bein og réttlát fjölmiðlun og unnt er að framkvæma er alger forsenda lýðræðisins.
Án nauðsynlegra skoðanaskipta og upplýsinagjafar fjölmiðla er borin von að kostir lýðræðis njóti sín.
Austurvöllur hefur verið vettvangur réttlátrar óánægju þeirra sem mótmæla ófremdarástandinu í þjóðfélaginu. Ég hef verið á þessum fundum og tekið þátt í öðrum mótmælaaðgerðum ásamt öðrum úr flokki okkar, Íslandshreyfingunni.
Við höfum verið meðal annars verið óánægð með ósanngjörn kosningalög, sem hafa meinað okkur að fá fulltrúa á löggjafarþingið í samræmi við fylgi okkar og þar með meinað okkur að taka þátt í umræðuþáttum eins og Kryddsíldinni.
Við höfum komið þessum skoðunum okkar á framfæri í fjölmiðlum eftir því sem það hefur verið unnt.
Af Austurvelli og öðrum staðum utanhúss og af fjölmennum borgarafundum innanhúss um þjóðfélagsástandið hafa blöð og fjölmiðlar flutt frásagnir og myndir og útvarpað hefur verið og sjónvarpað frá heilum fundum.
Í blöðum voru birtar í heilu lagi ræður af fundunum. Þetta var nauðsynleg og ótrufluð fjölmiðlun.
Það mátt kannski búast við því að heyrast myndi í mótmælendum fyrir utan neðstu hæðina á Hótel Borg rétt eins og á öðrum fundum þeirra á hinum hefðbundna mótmælastað, Austurvelli, og hefði kannski átt að flytja Kryddsíldina á annan stað.
Hvað um það, bein fjölmiðlun frá Hótel Borg þar sem heyrðist í mótmælendum fyrir utan hefði komið fullkomlega þeim skilaboðum yfir að hér á landi ríkir ófremdarástand sem blaðamaðurinn Karl Blöndal lýsir mjög vel í grein í Morgunblaðinu í dag. Það er gjá milli ráðamanna og fólksins og brúun þessarar gjár ekki í sjónmáli.
En gætum nú vel að því sem gerðist í viðbót við þetta, sem að framan er lýst.
Ég minnist þess ekki að mótmælafrömuðir á borð við Martein Lúter King hafi reynt að láta hendur skipta við tæknifólk fjölmiðla og stöðvað starfsemi þeirra þótt þeir sem kæmu fram í þessum fjölmiðlum í það og það skiptið væru ekki í náðinni hjá mótmælendum.
Á sínum tíma kom hingað til lands Walter Chroncite, hinn heimsfrægi sjónvarpsfréttamaður, sem hlaut mesta frægð fyrir það að hafa í raun verið einn sterkasti liðsmaður þess almenningsálits í Bandaríkjunum sem snerist gegn stríðinu í Vietnam. Hlutur Chroncites var þó aðeins að vera óhræddur við að miðla þeim upplýsingum og skoðunum sem nauðsynlegt var að miðla.
Ég spurði hann: "Eru fjölmiðlar heimsins orðnir of öflugir og valdamiklir?"
Hann svaraði: "Nei", svaraði hann. "Fjölmiðlar verða aldrei of öflugir og valdamiklir. Afl og vald fjölmiðla til að miðla skoðunum og upplýsingum í lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt til þess að FÓLKIÐ GETI NOTAÐ AFL SITT OG VALD."
Rétt er að geta þess að á ensku notaði Chroncite aðeins eitt orð "power" í svari sínu, en það þýðir bæði afl og vald
á íslensku og því nota ég bæði orðin í þýðingunni.
Niðurstaða: Hömlur á fjölmiðla til þess að miðla skoðunum og upplýsingum á sem sanngjarnastan hátt leiða til ófarnaðar og kippir grundvellinum undan raunverulegu og öflugu lýðræði, því hinu sama og mótmælendur hafa verið að berjast fyrir að undanförnu.
Að svo mæltu óska ég öllum landsmönnum árs og friðar.
Fólk slasað eftir mótmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eru þeir fjölmiðlar sem eru í eigu auðmannanna sem sökkt hafa landinu í skuldaþrældóm augu og eyru lýðræðisins?
Hvað eftir annað hafa eigendur fjölmiðlanna orðið uppvísir að því að sigta út óþægilega umræðu um sig og nota þá sem áróðursmiðla fyrir sjálfa sig.
Theódór Norðkvist, 31.12.2008 kl. 17:55
Fer líka eftir því hvort við erum að ræða fjölmiðil með umræðu eða auglýsingasnepla. Blöð sem greiðast með áskrift eða auglýsingarusli.
Það er nú þannig að ef þú sendir grein í New York Times, þá er henni bara hent í ruslið. Þannig getur lýðræðið virkað vel í þessum blessuðu blöðum í Ameríku.
Morgunblaðið á skilið nokkrar orður fyrir að birta mikið af aðsendum greinum. Þegar það hverfur undir malbik auglýsinga um grísasteikur og varaliti, þá snarminnkar lýðræðisleg tjáning og rödd fólksins dofnar niður í lítið sem ekkert nema það sem er á netinu.
Ég held að útskúfun og nornaveiðar á "nafnleysingja" sé sams konar vandamál.
Ólafur Þórðarson, 31.12.2008 kl. 18:16
Það mætti kannski benda á það að fjölmiðla hér á landi er ómögulegt að reka nema maður hafi bolmagn og þolinmæði til að keppa við RÍKIS-útvarpið.
Rúnar Óli Bjarnason, 3.1.2009 kl. 23:32
Það er ekki RÚV að kenna ef fjölmiðill stendur sig ekki. Án RÚV væri Ísland fátækara land. Fólk vill fá vandaða umfjöllun, þó sumum þyki auglýsingaflóð spennandi.
Ólafur Þórðarson, 3.1.2009 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.