4.1.2009 | 16:15
Samanburður Björns ekki alveg raunhæfur.
Þegar Framsóknarmenn hlupu úr stjórnarsamstarfi í mars 1956 var það vegna nýfenginnar samstöðu þeirra með vinstri flokkunum um utanríkisstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn gat alls ekki samþykkt. Skilin urðu skýr.
Þannig er það ekki nú, hvað sem verður eftir landsfund Sjálfstæðismanna. VG og Samfylkingin eru ósammála um það hvort ganga eigi í ESB. Það getur ekki myndast samstaða í því efni milli þessarra tveggja flokka. Það eru jafnvel meiri líkur á því að samstaða myndist með Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni um þetta ef sú stefna verður ofaná á landsfundi hinna fyrrnefndu.
Útspil Geirs um að þjóðaratkvæðagreiðsla um að aðildarumsókn komi til greina setur Sjálfstæðisflokkinn í því efni á sama stað í umræðunni og VG sem líka hefur gefið grænt ljós á það. Engin slík samstaða um að herinn færi úr landi eða þjóðaratkvæðagreiðlsu um það hefði komið til greina af hálfu Sjálfstæðismanna 1956.
Ég tel önnur rök hins vegar hníga að svipaðri niðurstöðu minni og Björns varðandi það að Samfylkingin leitar leiða út úr stjórnarsamstarfinu til að reyna að halda í skoðanakannanafylgið áður en það dalar. Með því að spyrða alþingiskosningar við þjóðaratkvæðagreiðslu færir Ingibjörg sig nær VG.
En alþingiskosningar eru ekki það sama og fyrirfram gefin afstaða í utanríkismálum eins og bandalag vinstri flokkanna á Alþingi var í mars 1956.
Tillaga Ingibjargar um Alþingiskosningar samhliða þjóðaratkvæði um aðildarumsókn sýnist vera útsmogin aðferð til að friða óánægjulið í Samfylkingunni og koma að vissu leyti með þessa yfirlýsingu í bakið á Geir, eftir að hafa lokkað hann til að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Að því leyti til virðast undirmál þessara viðburða vera hliðstæð og í aðdraganda stjórnarslita 1956 þegar sagt var að Hermann Jónasson hafi bruggað sín leyniráð með Finnboga Rúti Valdimarssyni annars vegar og Gylfa Þ. Gíslasyni hins vegar.
ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvað segir þú Ómar - um aðildarviðræður að ESB - hver er stefna Íslandshreyfingarinnar ???
Telur þú Íslendingum betur borgið innan sambandsins, eða eigum við að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð ??
Sigurður Sigurðsson, 4.1.2009 kl. 16:29
Höfnum spilltum pakkaferðum alþingismanna
Ástþór Magnússon Wium, 4.1.2009 kl. 16:58
Ómar; Fagnaði því á sínum tíma að þú kæmir út úr "pólitíska skápnum" og helltir þér í baráttu dagsins fyrir hófsemd í umgengni um náttúruna.
EN - ætlar þú virkilega að flytja mál á þessum nótum og reikna með því að tekið verði mark á þér í pólitískri umræðu um málefni?
Benedikt Sigurðarson, 4.1.2009 kl. 18:18
Stefna Íslandshreyfingarinnar hefur verið skýr frá stofnun flokksins. Við vildum hefja strax það starf sem nú er fyrst verið að hefja á vegum fjöllmiðla og Sjálfstæðisflokksins, - að kanna til fulls allar hliðar aðildar að ESB og vera tilbúin með samningsmarkmið til viðræðna við ESB, - ef sá tími kæmi skyndilega.
Í haust ályktaði stjórnin fyrst allra að rétt væri að taka málið út úr flokkafarvegi, þar sem það hefur þvælst fyrir í annarri pólitík og komið henni í pattstöðu og öngstræti, og láta kjósa sérstaklega um það hvort fara eigi í aðildarviðræður.
Ef þetta yrði fellt þyrfti ekki frekar að aðhafast í málinu, en ef aðildarviðræður yrðu samþykktar myndi verða önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um samning.
Nú hafa Geir Haarde og VG tekið undir þetta á þeim forsendum, að frekar en að málið sé stopp, sé skárra að hafa um það tvær kosningar, ef niðurstaðan yrði sú að við ættum að leita aðildarviðræðna.
Ég vildi gjarna fá nánari útlistun Benedikts Sigurðarsonar í hverju fyrrnefnd afstaða okkar, Geirs og VG sé ómarktæk í pólitískri umræðu.
Ómar Ragnarsson, 4.1.2009 kl. 18:44
Það er auðvita og augljóslega og hefur alltaf verið stefna VG (og Sjálfstæðisflokks) að jafn mikilvægt mál og ESB ætti að ræða vandlega á opinberum vettvangi og að aldrei kæmi til greina að ganga framhjá þjóðinni.
En að fólk sé að rjúka upp til handa og fóta núna og gera þetta að stórmáli þegar fólk er í áfallaástandi er slæmt og sagan á eftir að skrifa það á reikning þeirra sem hæðst um það hrópa.
Ég hef áður líkt þessu við að koma inná slysadeild eftir dauðsfall með óútfyllta ávísun og biðja nánasta aðstandenda að skrifa nafnið sitt undir.
Mér finnst það nálgast ábirgðaleysi, ef ekki siðleysi að þvinga þessari umræðu uppá þjóðina núna.
Fyrst á að kjósa!
Ásgeir Rúnar Helgason, 4.1.2009 kl. 19:18
2003 var sagt að ekki mætti fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun vegna þess að það væri of stórt og myndi skyggja á önnur mál!
Þetta er sama sagan nú. ESB-málið er víst of stórt til þess að það megi greiða þjóðaratkvæði um þann einfalda gernig sem aðildarviðræður við ESB er.
Benedikt Sigurðarson segir að "ekki megi gera þetta að stórmáli." Ef það er smámál, hvernig er hægt að gera það að stórmáli?
Það mega víst heldur ekki fara fram Alþingiskosningar vegna þess að ástandið er svo viðkvæmt, áfallaástand.
Bandaríkjamenn fóru í forsetakosningar 1932 þegar kreppan var mest og fólk dó úr hungri í "Guðs eigin landi."
Þeir viðhöfðu líka forsetakosningar 1944 meðan stríðið átti eftir að geysa enn í tvö ár.
Sömu mennirnir og halda því fram að víkja eigi grunnstoðum lýðræðis til hliðar segjast vera mestu lýðræðissinnar í heimi og þeir "marktækustu" eins og það er orðað.
Ómar Ragnarsson, 4.1.2009 kl. 20:34
Á lýðveldistímanum (síðastliðin 64 ár) hefur ENGIN þjóðaratkvæðagreiðsla verið haldin hérlendis.
Hér voru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur samhliða Alþingiskosningum árið 1908 um áfengisbann (60,1% meðmælt en einungis karlmenn höfðu þá kosningarétt), árið 1916 um þegnskylduvinnu 17-25 ára karlmanna (91,8% andvíg) og árið 1933 um afnám áfengisbannsins (57,7% meðmælt).
Einnig voru haldnar hér þjóðaratkvæðagreiðslur í Spænsku veikinni árið 1918 um setningu Sambandslaganna (92,6% meðmælt) og tvennar kosningar Í EINU LAGI 20.-23. maí 1944 um afnám Sambandslaganna (meðmælt 99,5%) og setningu nýrrar stjórnarskrár (meðmælt 98,5%).
Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 22:59
Ómar, ég hef aldrei sagt að ESB sé of stór mál til að greiða um það þjóðaratkvæði, saman ber:
"ESB-málið er víst of stórt til þess að það megi greiða þjóðaratkvæði um þann einfalda gerning sem aðildarviðræður við ESB er."
Ég veit ekki alveg hvað Benni (sem ég held í miklum álitum) meinar, en mín skoðun er að það verði að kjósa til Alþingis áður en atkvæðagreiðslan um ESB fari fram. Þjóðin þarf að fá möguleika á að velja umboðsfólk og flokka með tilliti til afstöðu viðkomandi til ESB.
Sjálfur er ég tvístígandi til ESB fyrir Íslands hönd.
Hvað myndu Mývetningar hafa upp úr því að sækja um að verða gata í Reykjavík?
Ásgeir Rúnar Helgason, 4.1.2009 kl. 23:05
Ásgeir. Að sjálfsögðu á þjóðin að geta kosið um aðildarviðræður við Evrópusambandið samhliða Alþingiskosningum nú í vor og hún þarf svo að kjósa um aðildarsamninginn þegar hann liggur fyrir, sem er auðvitað það sem mestu máli skiptir.
Íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn geta einungis haft það markmið í aðildarviðræðunum að ná sem hagstæðustum samningi fyrir þjóðina, sama hverjir þeir nú annars eru. Það er svo þjóðarinnar sjálfrar að meta hvort samningurinn er nógu hagstæður og þar ræður einfaldur meirihluti.
Og enda þótt mynduð verði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna nú í vor, sem er langlíklegasti kosturinn, verður sú stjórn einnig að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, ef það er vilji þjóðarinnar í kosningunum, og leggja svo samninginn fyrir þjóðina í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.