5.1.2009 | 14:30
Kunnugleg sundurþykkjustef.
Gamalkunnug sundurþykkisstef má nú heyra hjá stjórnarflokkunum, ekki ósvipuð þeim sem heyrðust á síðustu mánuðum fyrri ríkisstjórna sem voru að liðast í sundur. Æ fleiri ráðherrar og þingmenn deila á samstarfsflokkinn og er orðræðan um að flýta kosningum gott dæmi um það.
Í fyrstu voru það aðeins tveir ráðherrar, Björgvin Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem töluðu um slíkt, en nú hefur Ingibjörg Sólrún gefið veiðileyfi á málið og egnt ýmsa Sjálfstæðismenn til andsvara.
Það getur verið kostur fyrir ríkisstjórn að hafa mikinn þingmeirihluta en gallinn er hins vegar sá að meiri hætta er á svona sundurþykkju í slíkum tilfellum vegna þess að hver einstaklingur um sig, sem fer út af línunni, telur sig geta gert það í krafti þess að þar sé ekki um úrslitaatriði að ræða.
Dæmi um hið gagnstæða eru reyndar mörg, eins og hjá ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen þegar Guðrún Helgadóttir fór sínar eigin leiðir í Gervasoni-málinu og stjórnin hékk á bláþræði. En þá eru málin afmarkaðri, eðli málsins samkvæmt.
Geir H. Haarde hefur stjórnarumboðið og getur fræðilega séð veifað Framsóknarflokknum framan í Samfylkinguna.
Æ meiri órói ríkir innan Samfylkingarinnar vegna stöðunnar og spurning er hvað ægivald Ingibjargar Sólrúnar nær langt. Sagt er að hún stjórni sínum flokki með harðri hendi og sé kvenkyns Davíð Oddsson í því efni.
Úr skoðanakönnunum má lesa að meirihluti samfylkingarfólks sé óánægður með stjórnarsamstarfið og vilji leita sem flestra leiða út úr því. Formaðurinn hefur gefið í skyn að ástæðurnar gætu verið margar en verið sé að leita að einhverri haldbærari ástæðu til stjórnarslita en ESB-málinu.
Ég man varla eftir hliðstæðum ummælum annars af tveimur oddvitum ríkisstjórnar.
Geir heldur fast í Davíð og Ingibjörg virðist ekki bera utanríkisstefnuna í málefnum Ísraelsmanna undir Geir heldur reka eigin utanríkisstefnu, líkt og Steingrímur Hermannsson gerði í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.
Fjórum mánuðum eftir að Steingrímur hitti Arafat sprakk sú stjórn. Hvað eigum við að gefa þessari ríkisstjórn langan tíma?
Athugasemdir
Að öllum líkindum verður kosið samhliða til Alþingis og um aðildarviðræður við Evrópusambandið einn góðan laugardag nú í maí.
Síðasta verk Alþingis fyrir kosningarnar verður að breyta 21. grein Stjórnarskrárinnar og fyrsta verk þingsins eftir kosningarnar verður að staðfesta breytinguna, ef meirihluti þjóðarinnar vill að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Aðildarviðræðunum lýkur trúlega í lok þessa árs og þegar samningurinn við Evrópusambandið liggur fyrir þarf að kynna hann rækilega fyrir þjóðinni, sem gæti þá kosið um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2010. Ísland gæti því gengið í Evrópusambandið 1. júlí 2010 eða 1. janúar 2011 en ríki ganga yfirleitt í sambandið um áramót.
Um 70% kjósenda vildu í skoðanakönnun Capacent Gallup 18. október síðastliðinn að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið og meirihluti innan allra flokka er hlynntur því.
Þær voru góðar pönnsurnar sem Halldór Ásgríms gaf mér niðri á Alþingi þegar hann hló að Steingrími og Arafat.
Með rjóma og jarðarberjasultu.
Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 16:05
Fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokks. Max.
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 16:22
Ertu ekki orðinn leiður á þér?
Félagi minn sem var að vinn við Kárahnjúka sagði mér í gær að hann hefði dáðst að þér við myndatökurnar þar. Þú hafir náð að staðsetja vélarnar þannig að allt virtist grænt þegar í raun og veru var allt urð og grjót nema smá rindi sem þú tókst myndir af. Eins og hann sagði - snjallast falsari sem ég hef séð að störfum.
Og allt á kostnað Landsvirkjunar sem þú ert búinn að rægja og rakka niður í langan tíma.
Ólafur I Hrólfsson
Ólafur Ingi Hrólfsson, 5.1.2009 kl. 17:37
Ekki sé ég betur en að nú sé gert ráð fyrir stjórnarslitum og ný stjórn verði mynduð án alþingiskosninga. Til þess bendir skýrt bónorð Steingríms J. til Samfylkingarinnar um rauðgæna bandalagið. Ég treysti engum starfandi stjórnmálamanni lengur.
Árni Gunnarsson, 5.1.2009 kl. 17:48
Þú ert þjóðinni betri en enginn Ólafur. Vonandi verður þér minnst að verðleikum í fyllingu tímans!
Árni Gunnarsson, 5.1.2009 kl. 17:51
Ólafur Ingi Ólafsson. Hér eru staðreyndirnar teknar beint úr gögnum Landsvirkjunar:
Meirihlutinn af þeim tæplega 70 ferkílómetrum lands sem fer undir lón Kárahnjúkavirkjunar var gróið land.
Fyrir innan Kárahnjúka var 15 kílómetra löng "Fljótshlíð íslenska hálendisins", sem hét Háls og Hálslón dró nafn af. Jarðvegurinn var 2ja til 3ja metra þykkur eins og sést á gryfjunum, sem grafnar voru til þess að hefta fok dauðs jarðvegs og aurframburðar upp ú lónstæðinu þegar lágt er í því.
Ef þú lest skýrslur Landsvirkjunar sérðu þetta allt.
Bændur fengu bætur fyrir missi beitilands. Beittu þeir fénu á grjót?
Landið sem fór undir vatn í Hjalladal, bæði á Hálsi og í Kringilsárrana var helsta beitiland hreindýranna.
Þau þrífast víst best á sandi og grjóti, er það ekki Ólafur?
Ég hef áður heyrt sönginn um "falsaðar" myndir, meira að segja loftmyndir sem sýna grænt og gróið land. Það er í fyrsta sinn í sögunni sem hægt er að falsa gróðurmyndir sem teknar eru úr lofti.
Þegar leirstormar komu upp úr lónstæðinu í sumar og lögðust allt austur yfir Fljótsdal og myndir af því birtust í sjónvarpinu teknar bæði úr lofti og af jörðu niðri, var strax hringt inn og kvartað yfir því að þarna hefðu verið sýndar "falsaðar" myndir.
Hið rétta væri að við Kárahnjúka væri búið að skapa mesta ferðamannasvæði Austurlands og rykmekkirnir væru af bílaumferðinni !
Ómar Ragnarsson, 5.1.2009 kl. 19:12
Sæll Ómar.
Ég var að lesa minningargrein á vef ÍSOR um jarðfræðinginn og náttúruvininn Freystein Sigurðsson sem lést þann 29. desember síðastliðinn. Þar rak ég augum í eftirfarandi:
"Fræg varð vísa sem hann skildi eftir sig í gestabók í fjallakofa norðan Vatnajökuls. Þar hafði hann verið á ferð með verkfræðingum og hlustað daglangt og náttlangt á hin ýmsu tilbrigði við virkjanir á þessu svæði. Þá setti hann saman lítið vers til að stríða þeim og hinni óspilltu náttúru til varnar. Ómar Ragnarsson fréttamaður rakst síðan á kveðskapinn þegar hann gisti sama kofa nokkru síðar, og það var ekki að sökum að spyrja, vísan varð uppistaðan í rokufrétt í Sjónvarpinu og olli talsverðum hvelli í orkugeiranum."
Geturðu bent mér á hvar ég gæti nálgast þessa frægu vísu, eða máttu ef til vill birta hana hér?
Kv. Helgi
Helgi (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 19:53
Mig minnir að gestabókarfærsluna í Arnardal hafi ég sýnt í sérstökum þætti um svæðið norðan Vatnajökuls þar sem þess var vandlega gætt að gagnstæð sjónarmið nytu sín.
Mér skildist að Freysteinn hafi fengið tiltal hjá yfirstjórn Orkustofnunar fyrir tiltækið.
Ég get kannski fundið hana í þættinum þeim arna en ég man þó hendingar númer 2 og 4 í þessari ferskeytlu.
Til að gefa einhverja hugmynd um vísuna set ég eigin skáldskap með litlum stöfum inn sem línur númer 1 og 3, en rita línur Freysteins með stórum stöfum.
Tek fram að líklega tek ég sterkara til orða en Freysteinn og að ekki er hægt að meta áminninguna sem hann fékk fyrr en hinar réttu línur finnast.
Magna orkuöflun skal.
AUÐS ÞVÍ RÆÐUR PUNGUR.
í aur að drekkja unaðsdal.
ER MiNN HUGUR ÞUNGUR.
Ómar Ragnarsson, 5.1.2009 kl. 20:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.