7.1.2009 | 19:13
Mismunandi áhrif veikinda.
Þegar ofurlaun bankastjóra náðu hæstum hæðum á sínum tíma gaukaði ég því að gjaldkerunum í útibúinu sem ég skipti þá við en hefur nú verið lagt niður, hvort þær ca 70 til 80 konur sem önnuðust gjaldkerastörf ættu ekki að verða allar veikar í einu, þó ekki væri nema einn morgun.
Þær supu hveljur yfir þessari hugmynd og spurðu hvor ég væri með öllum mjalla. Tjónið af þessu yrði ógurlegt og ekkert svona kæmi að sjálfsögðu til greina. "Af hverju lætur þú þér detta svona lagað í hug?" spurði ein.
Ég sagði að það væri vegna þess þær hlytu að geta verið veikar hálfan dag án þess að nokkuð færi úrskeiðis úr því að bankastjórinn þeirra gæti verið veikur jafnvel nokkra daga án þess að nokkur viðskiptavinanna yrði þess var, en viðkomandi bankastjóri hefði laun á við 80 gjaldkera.
Ég held sagt að þær hafi orðið hugsi um stund yfir þessum samanburði.
Elín borin út úr bankanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar sparnað ber á góma í fyrirtækjunum og opinberum kontórum er yfirleitt alltaf byrjað á að fækka skúringakonum og hvort gjörnýta megi ekki gamlar bréfaklemmur og svoleiðis smáhluti. En að fækka í yfirstjórninni er ekki nokkur leið.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 7.1.2009 kl. 22:41
Á ofurlaunatíma bankastjóranna var bankaútibúum og hraðbönkum fækkað mjög mikið og sömu sögu er að segja af póstútibúum.
Og í Reykjavík verður gamla fólkið að fara gangandi eða í strætisvagni margra kílómetra leið til að kaupa í matinn.
Bjarni Ármannsson heldur á Bónuspokanum.
Maðurinn með barnsandlitið.
Hryllingsmynd í litum og Panavisjón.
Hlutabréf í Glitni til sölu í hléinu.
Þorsteinn Briem, 7.1.2009 kl. 22:50
Hárrétt ályktun Ómar. Við vinnudýrin erum einmitt svo mikilvæg þó að maður sjái það ekki á launum okkar. Það erum við venjulega fólkið sem sköpum auðinn og höfum alltaf gert. Þetta sést einnig á því að það erum VIÐ sem þurfum að borga eftir að auðmennirnir skitu á sig.
Ari (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 01:24
Þegar verður búið að einkavæða spítalana, verða forstjórarnir með laun á við 70-80 sjúkraliða. Við lærum ekki, stöðugt að skjóta okkur í lappirnar.
Sigurveig Eysteins, 8.1.2009 kl. 06:06
Björgvin Halldórsson orðaði þetta vel í einum af fleygum setningum sýnum um "bolinn", en bolurinn er hinn venjulegi hljóði og fyrirferðarlitli Íslendingur sem gjarnan klæðist í bol með einhverri áletrun eða mynd á.
Það eru þrjár tegundir af "bol".
1. Maður sem er í bol sem hann fékk gefins og er með áletrun eða merki sem hann hefur ekki hugmynd um hvað þýðir, enda skipti það engu máli.
2. Maður sem er í bol sem hann fékk gefins og veit hvað áletrunin eða merkið á bolnumn þýðir.
3. Maður sem er í bol sem hann keypti sjálfur af því að viðkomandi áletrun eða merki er á honum.
Og setningin sem ég minntist á í upphafi er: "Bolurinn er límið sem heldur þjóðfélaginu saman."
Ómar Ragnarsson, 8.1.2009 kl. 07:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.