Reykjavík sama og Krísuvík.

Ég hitti gagnmerka framsóknarkonu á Egilsstöðum nú rétt í þessu og ræddi við hana um það hvernig íbúar á suðvesturhorni landins upplifa nú það sem landsbyggðarfólk hefur þurft að lifa við um áratugi, - að stórfellt atvinnuleysi og fólksflótti bresti á  fyrirvararlaust.

Á morgun fer kannski sægreifinn með togarann úr plássinu og daginn eftir lokar rækjuvinnslan.

Á leið minni í dag landleiðina að sunnan úr Reykjavík með ódýrasta ferðamátanum í ódýrasta bíl landsins, Fiat 126, hef ég hitt landsbyggðarfólk á förnum vegi og heyrt hvernig það er sallarólegt enda orðið ýmsu vant.

Þó veit það að áhrifin "að sunnan" eiga eftir að berast um landið og eru þegar farin að gera það eins og fréttir úr heilbrigðisþjónustunni bera merki um.

En aftur að framsóknarkonunni, sem aðspurð sagðist ekki hafa áhyggjur af "fjandsamlegri yfirtöku" í framsóknarfélögum hér í Norðausturkjördæmi. Hún sagði mér að hún hefði heyrt fólk á þessum krísutímum nefna nafnið Krísuvík og það ætti þá við Reykjavík.

Já, dæmið hefur snúist við að ýmsu leyti, en margt er þó á huldu um þróunina á næstunni. Er hætt við að krísuvíkurnar verði margar.  

Annars er erindi mitt norður og austur aðallega að fylgjast með því sem er að gerast á þeim svæðum þar sem ég stend í gerð alls fimm kvikmynda, sem fjalla um svæðin sem eru undir í virkjanaæðinu.

Eins og er felst þetta aðeins í því að fylgjast með og safna myndaefni, en að öðru leyti er gerð allra þessara mynda stopp í bili vegna fjárskorts, - í Krísuvík.


mbl.is Bærinn vill verja sjúkrahúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þrátt fyrir samtals tvö hundruð milljarða króna framkvæmdir ríkisins og Alcoa á Austurlandi undanfarin ár fjölgaði íbúum þar einungis Í TVEIMUR sveitarfélögum AF NÍU á síðastliðnu ári.

Sjávarútvegur er hins vegar að sjálfsögðu stundaður í öllum sjávarþorpum á landinu og veruleg lækkun krónunnar undanfarið kemur þeim öllum til góða, þrátt fyrir miklar skuldir sjávarútvegsins, en skuldir Landsvirkjunar einnar, sem er í eigu ríkisins, voru um 455 milljarðar króna á núverandi gengi um mitt síðastliðið ár.

Hátt verð í erlendri mynt hefur fengist fyrir íslenskar sjávarafurðir undanfarin ár. Landsvirkjun fær hins vegar mjög lágt verð fyrir raforku til álvera og verðið hefur lækkað mikið undanfarið, þar sem raforkuverðið er tengt heimsmarkaðsverði á áli sem lækkaði um 56% síðastliðna sex mánuði.

Gengi krónunnar var alltof hátt skráð undanfarin ár, meðal annars vegna ofþenslunnar sem hinar gríðarlega miklu framkvæmdir við Kárahnjúka ollu. Þar af leiðandi fengu sjávarútvegsfyrirtækin alltof lágt verð í krónum fyrir afurðir sínar og þau söfnuðu skuldum. Og að sjálfsögðu liðu öll íslensk sjávarþorp fyrir það, til dæmis Vopnafjörður, með of lágum launum og fólksfækkun.

Og gríðarleg lækkun krónunnar síðastliðið ár kemur að sjálfsögðu einnig ferðaþjónustunni hér og þar af leiðandi ALLRI landsbyggðinni til góða en ekki örfáum byggðarlögum, eins og raunin varð með álverið í Reyðarfirði.

Íslenska þjóðin á fiskinn í sjónum, samkvæmt íslenskum lögum, og aflakvóta á að útdeila til eins árs í senn. Svokallaður varanlegur aflakvóti stenst ekki, því þá á þjóðin ekki kvótann í raun, heldur ákveðnir útgerðarmenn, sem hafa keypt kvótann af öðrum útgerðarmönnum eða jafnvel erft hann sem hverja aðra eign, til dæmis húseign.

Fiskvinnslur eiga einnig að geta fengið aflakvóta og þannig greitt útgerðum fyrir að veiða upp í þann kvóta. En þeir sem fá aflakvóta frá ríkinu til eins árs eiga að sjálfsögðu að greiða fyrir kvótann til ríkisins, því  þar er um takmarkaða auðlind að ræða og það kostar sitt að reka hér til dæmis hafnir, landhelgisgæslu, hafrannsóknir og matvælaeftirlit.

Og sjávarútvegsráðherra útdeilir núna aflakvótunum fyrir hönd ríkisins, sem þó á í raun ekkert í þeim.

Þorsteinn Briem, 8.1.2009 kl. 22:59

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Steini, sjávarútvegur er ekki stundaður á Reyðarfirði. Staðurinn varð kvótalaus árið 1998 og frystihús Skinney/Þinganes frá Hornafirði hætti hér fyrir nokkrum árum og flutti starfsemi sína í heimabyggð.

Ómar, ef ég get á einhvern hátt aðstoðað þig hér eystra, þá er það sjálfsagt mál. Þú veist hvar mig er að finna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.1.2009 kl. 01:00

3 identicon

Ómar minn, endilega fjallaðu spes um Leirhnjúkssvæðið, náttúrugildi þess og hvernig túrisminn spilar þar stóra rullu þar, það verður að vernda það.

Ari (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 01:12

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa mörg undanfarin ár keypt svokallaðan varanlegan aflakvóta fyrir marga milljarða króna og þar af leiðandi hefur allur kvóti verið keyptur frá til dæmis Reyðarfirði.

Og kvótinn hefur í mörgum tilfellum verið veðsettur eins og hver önnur eign, enda gengur hann kaupum og sölum.

Þetta er mesta dellumakarí Íslandssögunnar og er þá mikið sagt.

Að sjálfsögðu á ríkið fyrir hönd þjóðarinnar að úthluta hér nýjum fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjum aflakvótum, hvort sem þau eru á Reyðarfirði eða annars staðar á landinu. Þau, eins og öll önnur fyrirtæki í sjávarútvegi, yrðu þá að kaupa þessa aflakvóta árlega af ríkinu, til dæmis sjávarútvegsráðuneytinu, en fyrir miklu lægra verð en kvóti innan ársins er seldur á nú.

Heildarverðið ætti hins vegar að nægja fyrir árlegum rekstrarkostnaði hafna, Landhelgisgæslunnar, Hafrannsóknastofnunar og matvælaeftirlits í sjávarútvegi.

Set síðar hér inn þann kostnað allan.

Þorsteinn Briem, 9.1.2009 kl. 01:32

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég veitt nokk um ástæður þess sem gerðist í kvótamálum á Reyðarfirði. Ég var háseti á frystitogara hér árin 1989-1998. Öflugt og vel rekið sjávarútvegsfyrirtæki keypti togarann af reyðfirsku útgerðinni sem átti í rekstraerfiðleikum, með manni og mús má segja og það var mikið áfall fyrir plássið á sínum tíma.

Í dag þurfa Reyðfirðingar ekki á kvóta að halda og honum væri betur komið í öðrum plássum hér eystra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.1.2009 kl. 01:53

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar. Ég var einn af þeim sem tóku á móti frystitogaranum Snæfugli þegar hann kom fyrst til Reyðarfjarðar og við skulum nú ekki útiloka að einhverjir vilji fyrr eða síðar stunda þar útgerð og fiskvinnslu.

Heildarverðmæti aflakvóta innan ársins (leigukvóta) íslenskra skipa á yfirstandandi fiskveiðiári, miðað við síðustu viðskipti með aflamark, er um 43 milljarðar króna og er þá ótalin loðna, hörpudiskur og innfjarðarækja.      

KVÓTAGJALD af hverju kílói til að greiða árlegan kostnað ríkisins vegna sjávarútvegsins, og raunar fleiri greina, 16,8 milljarða króna, gæti hins vegar verið ÞRISVAR SINNUM LÆGRA en verðið er á leigukvótanum núna.

Og sjávarútvegurinn yrði mun hagkvæmari en hann er nú, þegar á heildina er litið.
Verð á leigukvóta þorsks er núna um 208 krónur fyrir kílóið en verð á óslægðum þorski er um 232 krónur, þannig að mismunurinn er einungis 24 krónur fyrir kílóið.

Áætlaður samtals 16,8 milljarða króna kostnaður ríkisins í ár vegna sjávarútvegsins og raunar fleiri greina:

Landhelgisgæslan 2,878 milljarðar króna,
Landhelgissjóður Íslands 2,77 milljarðar,
hafnarframkvæmdir 2,502 milljarðar,
Hafrannsóknastofnun 2,136 milljarðar,
Matvælastofnun 1,029 milljarðar,
Veðurstofa Íslands 1,337 milljarðar,
Siglingastofnun Íslands 1,239 milljarðar,
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið 926 milljónir,
Fiskistofa 856 milljónir,
Rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs 335 milljónir,
Verkefnasjóður sjávarútvegsins 236 milljónir,
Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna 200 milljónir,
Slysavarnafélagið Landsbjörg 95 milljónir,
Slysavarnaskóli sjómanna 65 milljónir,
Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna 75 milljónir,
Rannsóknanefnd sjóslysa 43 milljónir,
Fiskræktarsjóður 27 milljónir,
bygging rannsóknastofnana sjávarútvegsins 25 milljónir,
Tilkynningaskylda íslenskra skipa 21 milljón,
rannsóknir á botndýrum á Íslandsmiðum 20 milljónir,
Verðlagsstofa skiptaverðs 16 milljónir,
Sjóður til síldarrannsókna 7 milljónir.

Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.

7. september 2005:
"Kvótaverð hefur hækkað mjög hratt á undanförnum mánuðum. Í mars síðastliðnum var verðið 1.175 krónur á hvert þorskkíló [af svokölluðum varanlegum aflakvóta] en það er núna komið upp í 1.500 krónur sem er geysilega hátt í sögulegu ljósi.

Þessi hækkun rímar ágætlega við þróun á öðrum eignamörkuðum á Íslandi sem hafa hækkað mikið á undanförnu misserum. Það sem af er ári hefur úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands hækkað um tæplega 40%. Sama hækkun hefur orðið á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 12 mánuðum.

Í samtali við Ólaf Klemensson hjá Seðlabankanum í Viðskiptablaðinu í dag kom fram að ástæðu fyrir þessari hröðu hækkun kvótaverðs að undanförnu megi rekja til hærri veðhlutfalla hjá viðskiptabönkunum og greiðari fjármögnun frá þeim til kvótakaupa.

Fregnir hafi borist af því að veðhlutfall hjá bönkunum hafi hækkað nokkuð á seinustu misserum og farið úr um 50% í fyrra upp í allt að 75% nú. Sagðist Ólafur fyrst hafa heyrt af aukinni fjármögnun frá bönkunum sl. vor sem vel fer saman við hækkun kvótaverðsins á sama tíma."

Í mars 2007 var verð á svokölluðum varanlegum þorskkvóta komið upp í um 2.500 krónur fyrir kílóið og í nóvember 2007 fór verðið í fjögur þúsund krónur fyrir kílóið. Í mars í fyrra var verðið hins vegar komið niður í 2.700 krónur.

"Viðskipti með varanlegan þorskkvóta hafa engin verið í marga mánuði. Erfitt er að fá lánsfé í bönkum fyrir kvótakaupum og svo sjá menn ekki vitglóru í því að kaupa kvóta á þessum okurvöxtum," sagði þá Eggert Jóhannesson hjá skipamiðluninni Bátar og kvóti í viðtali við Viðskiptablaðið.

Þorsteinn Briem, 9.1.2009 kl. 06:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband