Of seint, of ómarkvisst?

Mannfjöldi á Íslandi er á við hverfi einhverri af þúsundum borga heimsins. Vina- ætta- og kunningjatengsl liggja um alla. Eina leiðin til að fram fari rannsókn sem ekki skapar vafa eða trúnaðarbrest er rannsókn nefndar þar sem útlendingar hafa meirihluta.

Einn Íslendingurinn í rannsóknarnefnd Alþingis kemur frá útlöndum en hætt er við það sé ekki nóg. Við höfum fordæmi frá Landsnefndinni 1771 sem átti að rannsaka hvað væri að á Íslandi og rétta það af. Formaðurinn var Norðmaður en það var ekki nóg því að Íslendingarnir voru í meirihluta og eyðilögðu að mestu þá möguleika sem nefndin átti.

Athyglisverð er grein Helga Hermassonar í Fréttablaðinu þar sem hann bendir á bandarísku stofnunina SEC sem hefur 74 ára reynslu af rannsóknum á þessu sviði sem mögulegan rannsakanda. Þar að auki fréttist af áhuga erlendis á að rannsaka íslenska bankahrunið.

Helgi kemur að mergnum málsins hvað snertir þetta mál, en það er hugtakið traust. Erfitt er að sjá hvernig nokkrir innlendir aðilar geti notið fulls trausts við rannsókn, sem teygir anga sína inn í alla kima hér á landi og ómögulegt að sjá fyrir hvaða hagsmunaárekstrar eða tengsl koma upp.

Vonandi tekst rannsóknarnefndinni að leysa verkefni sín þótt byrja hefði átt strax og á þann hátt að hafið væri örugglega yfir allan efa, bæði nú og síðar.


mbl.is Öryggi rannsóknargagna tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Þar að auki fréttist af áhuga erlendis á að rannsaka íslenska bankahrunið."

 Hef nefnt í gríni og alvöru að e.t.v. gætum við selt réttinn til rannsóknar. Svona svipað og rétt til olíuleitar (hverju guð forði að beri nokkurn tímann árangur). Hagfræðingar og annað félagsvísindafólk fylgist með framvindunni á Íslandi líkt og stjörnufræðingar með einstæðum atburðum í himingeimnum.

Rómverji (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 23:53

2 identicon

Ómar, má ég biðja þig eins skynsaman mann og þú getur verið, að hætta að sá fræjum efanleikans í þessu máli. Auðvitað eru þúsundir íslendinga sem vissu strax í október hvað ætti að gera, verst að ekkert af ykkur hafði völdin, né voru kosin til að takast á við efiðasta mál sögunnar. Veist þú fyrirfram hvað kemur út úr starfi nefndarinnar ? Ekki ég, né nokkrir aðrir. Nefndin leitar víða fanga þó að við verðum ekki kallaðir fyrir, enda ekkert að segja. Haltu aftur af þér, ég bið þig, Ómar.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 23:57

3 identicon

ég óttast að nefndin íslenska mun aldrei láta þá sem skipuðu hana fá þær réttlátu skammir sem þeir eiga skilið. Fólk bítur oftast ekki höndina sem fæðir. Það heldur líka aftur af sér ef það tengist fólki í stjórnmálalífinu og stórum fyrirtækjum hér. Nú er ég ekki að segja að þetta sé endilega staðan, en ég óttast það.

Ari (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 00:18

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Örn, ég sagði: "Vonandi tekst rannsóknarnefndinni að leysa verkefni sín..." Ég meina það innilega.

Ómar Ragnarsson, 10.1.2009 kl. 00:56

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég á eftir að sjá þessa nefnd fara ofan í saumana á því sem snýr að Alþingismönnum (þessir hinir sömu sem voru nýlega að hagræða eftirlaununum hjá sér og voru að fá nokkur hundruð milljónir út úr kerfinu "ÁN NIÐURSKURÐAR!").

En þar á rannsóknin að byrja OG ENDA!

Þessi nefnd er bull frá upphafi þó ekki væri nema út af Tryggva Gunnarssyni - því miður.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 10.1.2009 kl. 02:48

6 Smámynd: Sævar Helgason

Nefndin er skipuð þremur Íslendingum.  Hvað mörgum tuga sinnum koma ættingjar þeirra og vinir við sögu í væntanlegri rannsóknin ?   Þetta er bara fólk með mannlegt eðli ...

Svona rannsóknarnefnd verður að vera að skipuð erlendu fólki- að meirihluta, eigi hún geta skilað sínu hlutverki.

Sævar Helgason, 10.1.2009 kl. 10:50

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rannsökuð verði tengsl Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra við ömmu sína:

"Hún amma mín sagði að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna."

Þetta atriði setti ekki bara Ísland, heldur alla heimsbyggðina, á hliðina.

Einnig verði rannsökuð tengsl Davíðs við alla aðra af Briemsættinni, til dæmis son sinn, Þorstein Davíðsson.

Þorsteinn Briem, 10.1.2009 kl. 13:14

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sævar Helgason talaði fyrir okkur báða þessu sinni. Þetta hef ég margoft bent á og ekki hefði ég treyst mér til að taka að mér rannsókn á borð við þessa.

Jafnvel þótt milljarðastuldur verði upplýstur af nefndinni mun mestur fjöldi þjóðarinnar telja það vísbendingu um tvöfalt stærri upphæð sem hafi verið skýlt.

Því miður.

Árni Gunnarsson, 10.1.2009 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband