Hvert orð er dýrt.

Hvert orð, sem sagt er og túlka má sem íslenska stjórnarstefnu getur verið dýrt, jafnvel hægt að meta það upp á hundruð milljarða.

Það er merkilegt að tveir af reyndustu og sjóuðustu stjórnmálamönnum þjóðarinnar, fjandvinirnir Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson, skyldu lenda í þeirri gryfju að orð þeirra yllu titringi og skaða erlendis þegar við þurfum síst á slíku að halda.

Í blaðamennsku er það ein af fyrstu reglunum, sem menn læra, að ef einhver vafi leikur á því að staðhæfing sé fullkomlega rétt eða geti misskilist, sé skást að sleppa henni alveg. 

"Við borgum ekki", hin margspilaða setning Davíðs Oddssonar í ljósvakamiðlum heimsins, varð dýrasta setning Íslandssögunnar, og seint hefði maður trúað því að nokkurn vegin sama setning, "við borgum ekki", yrði aftur margtugginn í fjölmiðlum erlendis, en nú úr munni forseta vors. 

Í báðum tilfellum máttu sjóaðir stjórnmálamenn vita að í hraða fjölmiðlaumhverfisins myndu útskýringar eftir á, þar sem reynt yrði að draga í land eða saka blaðamenn um að taka ummælin út úr samhengi, hrökkva skammt. 

Ég hef áður á þessum vettvangi lýst því hve góður fulltrúi þjóðarinnar forsetinn hefur verið á erlendri grund lengst af ferils síns. Vandséð að annar Íslendingur hefði getað sinnt því betur.

En nú sýna skoðanakannanir vel að traust þjóðarinnar á honum hefur hrapað og að framundan er erfiður róður hjá honum við að endurheimta það. Einkum benda nýjustu upplýsingar til þess að dæmalaus ræða hans yfir sendiherrum erlendra ríkja í boði í danska sendiráðinu hafi verið slæm mistök. 

Ég hef gagnrýnt aðra fyrir óskynsamlegt og hrokafullt tal gagnvart umheiminum og hið sama á við forsetann og aðra í þeim efnum. 


mbl.is Forsetaviðtal olli skjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónsdóttir

Ólafur Ragnar á að segja af sér ékki bara út af því hvað hann lsegir heldur er fólk ekki með trú á honum vegna tengsla hans við útrásarmenn

Guðrún Jónsdóttir, 19.2.2009 kl. 10:15

2 Smámynd: TARA

Fæst orð hafa minnsta ábyrgð...og þjóðin vill nýjan forseta..

TARA, 19.2.2009 kl. 10:36

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kynlegur er sá kvistur,
í kollinum eilíft mistur,
kóngur og Jesús Kristur,
kallinn er djúp þó ristur.

Þorsteinn Briem, 19.2.2009 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband