2.3.2009 | 08:36
Enron - Ísland.
Eftir að hafa horft á sjónvarpsmyndina um Enrons-hneykslið klingja ýmis kunnugleg stef í hausnum. Þessi tvö nöfn, Enro og Ísland eru að verða að alþjóðlegum hugtökum sem tákna snautlegt hrun vegna græðgi og hroka.
Maður veltir fyrir sér hvort það hefði hringt einhverjum bjöllum ef þessi mynd hefði verið sýnd fyrir tveimur árum um það leyti sem til dæmis tvö viðtöl í tímaritinu Króniku við útrásarvíkingana lýstu hugsunarhættinum og klækjunum sem notaðir voru til þess að búa til tugmilljarða króna hagnað og hundruð milljarða króna virði í hlutabréfum í fyrirtækjum sem aldrei var til.
Ein aðferðin var að kaupa skuldsett fyrirtæki, taka lán, borga skuldirnar og selja síðan fyrirtækin með stórkostlegum gróða, oft eftir magnaða hringferð í kennitöluskiptum og tilbúningi nýrra fyrirtækja, sem með kaupum hvert í öðru gátu hækkað virði sitt um tugmilljarða króna á huglægan hátt svonefndrar viðskiptavildar án þess að nokkurt raunverulegt verðmæti stæði á bak við.
Uppgangur og fjárhætuspil Enron byggðist á þeirri grunnforsendu að hlutabréfaverð myndi halda áframa að hækka í það óendanlega. Sama var uppi á teningnum hér auk þess sem íslenska "undrið" byggðist á því að aldrei yrði þurrð á lánsfé.
Hugsunin á bak við "íslenska efnahagsundrið" minnti óþægilega á Enron-aðferðina að láta framtíðarhugmyndir einar skapa tugmilljarða gróða án þess að nokkur skapaður hlutur hefði verið framleiddur. Minnir á hugmyndir manna um tugmilljarða gróðann af REI-hugmyndinni.
Ken Lay, hinn upphaflegi forsprakki Enrons, sagði sömu setninguna fyrir framan starfsmenn sína og Geir og Davíð sögðu opinberlega síðastliðið vor þegar ljóst var hvert stefndi, að undirstöðurnar væru traustar, vandinn minni en hjá öðrum, fyrirtækið ætti meiri möguleika en önnur til að komast út úr vandanum, og dýfan yrði skammvinn því að leiðin lægi örugglega upp aftur.
Enron-málið og hlutabréfamarkaðurinn sem hrundi hér og erlendis, var svo miklu einfaldara fyrirbæri í raun en flóknar umbúðir sögðu til um. Alveg eins og barnið sá hið einfalda að keisarinn var ekki í neinum fötum, máttum við öll sjá að á bak við síhækkandi hlutabréfaverð og gróðatölur var ekki sú aukning á framleiðslu raunverulegra gæða, sem gat verið undirstaða undir allri þessari spilaborg.
Sama saga 1929 og 2008.
Við sáum líka muninn á möguleikum forsprakkanna til að bjarga óheyrilegum peningum undan hruninu á sama tíma og hinn almenni launamaður á gólfinu tapaði öllu sínu.
Japaninn, sem var klókastur höfuðpauranna og stakk af nógu snemma, kom gríðarlegum auðæfum sínum undan að því er virðist löglega en með þess meiri vafa á hinni siðlegu hlið.
Eini munurinn á Enron og Íslandi er sá að í Enron-málinu voru menn fljótlega leiddir í handjárnum inn í réttarsali og hlutu þunga dóma margir hverjir. Hér hefur ekkert slíkt gerst enn og mun kannski ekki gerast.
Og þá kem ég aftur að spurningunni um það hvort einhverju hefði breytt hér ef þessi sjónvarpsmynd hefði verið sýnd fyrir tveimur árum þegar við höfðum ýmis skjalfest gögn í hendi um hið íslenska Enron, samanber viðtöl við útrásarvíkingana.
Nei, líklega hefðum það ekki breytt neinu. Þá hafði enginn áhuga á slíku "neikvæðu" sjónvarpsefni sem tók undir "nöldur" og "öfundarraus".
Í upphafi árs 2007 virtist enginn hafa áhuga á að sjá hið raunverulega innihald í sumu af því sem gróðafíklarnir gumuðu að og líklega hefði áhorfið á svona sjónvarpsþátt ekki orðið mikið. Enda var þátturinn ekki keyptur hingað þá, - hefði ekki verið líklegur til að draga að sér auglýsingar út á áhorf.
En hann ætti að verða skylduáhorf fyrir íslensku þjóðina og þakka ber það að hann skyldi þó hafa verið keyptur nú, þótt seint sé.
IMF varaði við í apríl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Smá trivia inn í umræðuna: Veturinn 2006 - 2007 var undirritaður nemandi Gylfa Magnússonar í Háskóla Íslands, í MBA-námi við viðskipta- og hagfræðideild. Verkefni sem hópurinn minn fékk var að skýra frá efni bókarinnar "The Smartest Guys in the Room".
Á þeim tíma hafa bjöllur verið farnar að hringja, en allt að einu héldu menn áfram að vona það besta, og þeir menn fundust jafnvel í þessum nemendahópi sem báru lof á manóveringar víkinganna sem yfirtöku Flugleiðir og gengu út með 10 milljarða hagnað af "restructing" á því fyritæki.
Ég hygg þó að þegar Gylfi hóf að tjá sig um þessi mál, í hálfgerðri óþökk "the powers that be", þá hafi hann talað af fullu öryggi vegna þess að hann vissi út í hörgul hvað var í gangi.
Flosi Kristjánsson, 2.3.2009 kl. 09:30
Já, það ber að þakka, að hann skyldi yfirleitt vera fluttur. En fyrir þá sem hafa aðgang að norrænu sjónvarpsstöðunum er hreint ótrúlegt hversu fáar athyglisverðar heimildamyndir um raunveruleg þjóðfélagsvandamál koma fyrir augu íslenskra sjónvarpsáhorfenda.
María Kristjánsdóttir, 2.3.2009 kl. 09:35
Viðbót: Myndin The Smartest Guys in the Room var sýnd í Regnaboganum haustið 2006 og mjög margir nemendur úr HÍ fóru að sjá hana.
Flosi Kristjánsson, 2.3.2009 kl. 09:38
Þeir hjá Ríkisútvarpinu sem voguðu sér að gagnrýna voru ákærðir fyrir að koma vinstri slagsíðu á ríkisfjölmiðilinn. Mér dettur Hjálmar Sveinsson í hug...
Kári Harðarson, 2.3.2009 kl. 09:57
Enron málið er magnað en þó sérstaklega vegna þess hve mikið af gögnum og upplýsingum tókst að afla við rannsóknina.
Frasarnir sem yfirmenn Enron notuðu og aðferðirnar eru svo annar kapítuli. Oft nánast sömu orð og íslenskir "fjárfestar" og bankamenn höfðu uppi.
Maður veltir fyrir sér, hvar í ósköpunum lærðu þessir menn? Svona fræði eru náttúrulega bara tær snilld, eða þannig.
Það verður gaman að sjá hvort hinu íslenska réttarkerfi tekst jafn vel til við að vinna úr málum og hinu ameríska.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 10:45
Takk fyrir þetta Ómar, góð færsla. Svo sannarlega tímabært að þjóðin helli sér út í svona menntun. Af nógu er að taka!
Hér er önnur mynd sem VERÐUR að vera sýnd á RÚV: Zeitgeist Addendum.
Stór þrýstihópur á Facebook er að vinna í því og fleiri raddir eru alltaf þegnar. Þessi mynd skýrir gríðarlega vel hversvegna útrásarvíkingarnir lögðu allt kapp á að eiga banka en það er aðalástæða þess að svo fór sem fór. Hafið áfallapillu við höndina þegar þið horfið á Zeitgeist... ekki veitir af.
Rúnar Þór Þórarinsson, 2.3.2009 kl. 12:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.