Skrýtin lýðræðisást.

Bjarni Harðarson hefur geyst fram á völlinn sem talsmaður og forystumaður í samtökum sem berjast gegn flokksræði og fyrir lýðræði. Þegar ég heyrði þessa setningu úr munnum forsvarsmanna L-listans leist mér vel á það.

En nú verð ég að viðurkenna að á mig sækja spurningar, því að skömmu síðar kemur það frá Bjarna klárt og kvitt að hann ætli að verða efsti maður á lista framboðsins í einhverju af kjördæmunum og að efsti maður hvers lista verði einvaldur um aðra niðurröðun listans.

Breytingarnar á kosningalögunum munu ekki banna Bjarna að viðhafa allt það einræði sem hann vill á lista sínum.

Það eina sem breytist er það að leyfa öðrum framboðum að hafa óraðaða lista ef þau vilja. Af hverju er Bjarna svona illa við það? Af hverju má ekki hvert framboð ákveða sjálft hvernig það vill hafa þetta, rétt eins og Bjarni hefur sjálfur ákveðið að raða upp á sinn lista og hafa um það úrslitavald? Það er enginn að banna honum það.

Gæti það verið vegna þess að fylgismenn hans muni fara fram á að listar L-listans verði óraðaðir og Bjarni fái þá ekki það einræðisvald um röðun á listans sem hann hefur ákveðið sér til handa?

Fyrir tveimur árum starfaði ég með samherjum mínum að því að raða 132 manns á framboðslista Íslandshreyfingarinnar í sex kjördæmum í miklu tímahraki á þann hátt að þetta varð eina framboðið í sögu landsins sem var með fullkomna fléttulista á alla lund og þar með mesta jafnrétti kynja sem þekkst hefur hér.

Taka þurfti tillit til ótal sjónarmiða og það tók eðliega mikinn tíma að finna lausn sem allir voru sáttir við.

Það hefði verið mikill tímasparnaður fólginn í því að mega hafa óraðaða lista og slíkt hélt ég að kæmi sér einmitt best fyrir nýju framboðin, sem þurfa að lyfta grettistökum í vinnu sinni í tímahraki.

Það ætti að vera ólíkt auðveldara að finna 18-24 persónur til að skipa óraðaðan lista en að raða þeim öllum fyrirfram.

Hin lausnin virðist vera Bjarna hugleiknari, að einvaldarnir í efsta sætinu á hverjum lista, vinni þetta einir og taki ómakið af öðrum fylgismönnum hins "lýðræðislega" framboðs. Fyrirgefðu Bjarni. Útskýrðu betur fyrir mér, einfeldningnum, hvernig þetta samrýmist því fyrsta sem þú sagðir og mér fannst svo gott, að þú berðist gegn flokksræði og fyrir lýðræði.


mbl.is Persónukjör stjórnarflokkunum í hag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er alveg rétt hjá þér, Ómar, að valkosturinn að viðhafa persónukjör skiptir einungis þá flokka máli, sem ákveða að hafa það, ekki hina. Eða hvernig rökstyður Bjarni það, að stjórnarflokkarinir græði á þessu?

Hins vegar þarf að afstýra því skemmdarverki, sem Ásta Ragnheiður, bekkjarsystir mín gamla, vill vinna málinu, að persónukjörið verði jafnan með "fléttulista" kynjanna. Það er ekkert annað en ofríki gagnvart lýðræðislegum valkostum fólks og flokka – og felur eflaust í sér, að oft verða menn að velja á sinn lista einhverjar persónur, sem þeir þekkja miklu síður en aðrar. Sbr. einnig hér: Af erfiðu gengi lýðræðis og frekju femínista = http://blogg.visir.is/jvj/2009/02/20/af-erfiðu-gengi-lyðræðis-og-feminiskri-frekju/

Ekki get ég séð, að það hafi mælt neitt sérstaklega með þínum Í-lista, Ómar, að hafa haft slíkan fléttulista, ekki frekar en ég get hrósað þér fyrir að kjósa það nú síðast að sjanghæja flokkinn inn í Samfylkinguna. Og ekki mælist sú gjörð þín nú í neinni fylgisaukningu þar á bæ.

Jón Valur Jensson, 6.3.2009 kl. 01:19

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ráð er póstinn að rekja,
rotin sú bóksala frekja,
með skrolli ætlar að skekja,
og skrítna móra upp vekja.

Þorsteinn Briem, 6.3.2009 kl. 02:14

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

"Á félagsfundi eiga sæti með málfrelsi og tillögurétti, auk kjörinna fulltrúa deilda, félagsstjórn, framkvæmdastjóri og skoðunarmenn ásamt  löggiltum endurskoðanda félagsins. Ennfremur hafa félagsmenn aðgang að félagsfundum.  Fulltrúar eiga þó einir atkvæðisrétt og er hann jafn fyrir alla fulltrúa. úrslitum mála á félagsfundum ræður afl atkvæða nema þar sem lög eða samþykktir þessar kveða á um aukinn meirihluta." 

Sjá einnig Lög um samvinnufélög 1991 nr. 22 27. mars grein 20

Þessi klausa hér að ofan er úr Samþykktum kaupfélags og segir um rétt hin almenna félagsmanns á almennum fundi í kaupfélagi um málefni viðkomandi kaupfélags. Vísað er einnig í lög um Samvinnufélög.

Þessar setningar hér að ofan sýna með afar afgerandi hætti, "hið virka lýðræði" i samvinnufélögum á Íslandi.

Gæti ekki verið að fyrirmynd Bjarna Harðarsonar að lýðræðinu sé að finna í þessum orðum. SÍS = kaupfélag = framsókn = Bjarni Harðarson = lýðræði.

Ég segi nú bara svona.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.3.2009 kl. 05:20

4 Smámynd: corvus corax

Það þarf nú ekki flóknar skýringar á einræðistilburðum Bjarna í þessu máli. Þetta er gamalkunnugt flokkseigendaeinræði framsóknarflokksins eins og það hefur alltaf verið og verður alltaf þeim í blóð borið sem þjást af ólæknandi framsóknarspillingarheilkenninu. Eitt skýrasta dæmi stjórnmálasögunnar hér á landi um þetta heilkenni var sérframboð Stefáns Valgeirssonar á sínum tíma og aðild hans, eins manns úr því framboði, að ríkisstjórn þar sem hann réði lögum og lofum í skjóli hótunar um stjórnarslit með því að styðja ekki stjórnina nema hann fengi öllu sínu framgengt. Þannig náði Stefán Valgeirsson fram algjöru einræði í anda framsóknarspillingarheilkennisins.

corvus corax, 6.3.2009 kl. 07:49

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekkert fyrirkomulag er gallalaust. Óraðaðir listar gera það að verkum að fyrirfram er ekki hægt að hafa röðina kona-karl-kona-karl eða karl-kona-karl-kona eins og var hjá I-listanum síðast.

En þá er þess hins vegar að gæta að fleiri konur en karlar hafa kosningarétt og það er því á ábyrgð beggja kynja í kjörklefanum hvernig raðast inn á þing.

Ég sagði á fundinum fyrrnefnda í Iðnó: "Stjórnmál snúast um traust. Það þýðir ekki aðeins að kjósendur treysti stjórnmálamönnum heldur líka að stjórnmálamenn treysti kjósendum."

Ómar Ragnarsson, 6.3.2009 kl. 09:50

6 Smámynd: Þór Jóhannesson

Eiginlega fannst mér Bjarni Harðarson afgreiða fyrirspurn mína á blogginu hans um daginn fremur ólýðræðislega.

Þar spyrði ég hvað væri að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þjóðin vildi skoða aðildarviðræður við ESB. Ekki hvort við ættum að taka upp aðildarviðræður - heldur einungis hvort þjóðin vill á annað borð ræða þessi mál af alvöru eða ekki.

Svar Bjarna var á þeim nótum að það væri ekkert vit í því þar sem ESB-sinnar myndu hvort sem er halda áfram að tala um ESB þótt þjóðaratkvæðagreiðslan myndi falla þannig að þjóðin vildi ekki aðildarviðræður.

Þetta eru mjög ólýðræðisleg vinnubrögð og ekki til þess fallinn að maður vilji Bjarna á þing aftur. Og ég tek fram að ég er hvorki með eða á móti ESB - ég vil einfaldlega fá heiðarlegar umræður um hvað sé best að gera.

---

Er aftur á móti alveg ósammála öfga hægri manninum Jóni Vali Jenssyni hér að ofan að fléttulisti sé alslæmur. Reynslan sýnir að ferðaveldið tryggir sína karla ávalt í auðvaldsflokkum á borð við Sjálfstæðisflokkinn og þar vilja karlarnir ekkert lýðræði þegar þeir hafa náð, með spillingu og lygum, að staðsetja sig vel í flokksræðinu.

Og svona endemis bull að það hafi verið rangt að "sjanghæja" - eins og Jón Valur kallar það - Íslandshreyfinguna inn í Samfylkinguna er auðvitað bara dæmi um hvað þessir öfgahægrimenn hræðast allt sem ekki styrkir Sjálfstæðisflokkinn. Þeir vilja helst fá 5 til 6 litla flokka með um 4% atkvæða á landsvísu hvern sem gerðu þá 20 til 24% greiddra atkvæða ónýt með 5% reglunni. Það fyndist Sjálfstæðismönnum frábært - enda lýðræðislegt í þeirra huga að fá hreinan meirihluta með Framsókn þó ekki nema 35% greiddra atkvæða væri þar að baka - slík er lýðræðishugsjónin hjá þessum stuðningsmönnum auðvaldsflokksins!

Þór Jóhannesson, 6.3.2009 kl. 10:31

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er enginn öfgahægrimaður, kjáninn þinn Þór, og hér kalla ég þig kjána, af því að þú átt að hafa séð það berlega á mörgu, hafirðu lesið pistla mína hér og á Vísisbloggi ( blogg.visir.is/jvj ), að ég er ekki langt til hægri í stjórnmálum, heldur miklu fremur princíperaður miðjumaður með sterka áherzlu á samúð og samstöðu með verkalýð og andstöðu við flokksstofnanir sem gæta fyrst og fremst hagsmuna eignarhaldsstéttar og auðmanna, og þótt ég sé enn í Sjálfstæðisflokknum, eru fáir jafngagnrýnir á flokkinn og ég, og sú gagnrýni kemur ekki frá hægri. Í sumum atriðum (t.d. málsvörn fyrir lífshelgi og lífsrétt hinna ófæddu) kann öfgafullum vinstrimönnum og femínistum að sýnast ég "öfgamaður til hægri", en það kemur til af þeirra eigin fordómum og sorglegri fáfræði um eðli ófæddra barna og heilsufarsafleiðingar fósturvíga fyrir margar konur.

Svo er síðasta klausan í þessu innleggi Þórs alveg fáránleg, þegar hann þykist geta beint þessari gagnrýni að mér: "auðvitað bara dæmi um hvað þessir öfgahægrimenn hræðast allt sem ekki styrkir Sjálfstæðisflokkinn. Þeir vilja helst fá 5 til 6 litla flokka með um 4% atkvæða á landsvísu hvern sem gerðu þá 20 til 24% greiddra atkvæða ónýt með 5% reglunni. Það fyndist Sjálfstæðismönnum frábært ..." – því að ég hef manna harðast gagnrýnt það ólýðræðislega kerfi, sem nú er gengið með til kosninganna, að fyrst er sett upp 5%-lágmarksreglan til að fá uppbótarþingsæti og Reykjavík skipt í tvö kjördæmi að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins til að búa til annan enn hærri múr (flokkar þurfa að ná 8-9% atkvæða til að ná þar inn fyrsta manni í stað 4-4,5%), en hvort tveggja er rakið ranglæti gagnvart nýjum hreyfingum, og þar á ofan gengur Fimmflokkurinn með á fjórða hundrað millj. króna til kosninga,beint úr vösum skattborgara, á fullkomnar flokksskrifstofur og tugþúsundir flokksmanna á netfangaskrá og er með 63 hálaunaða atvinnumenn tilbúna í slaginn (80% gefa aftur kost á sér), á meðan hinir eiga fullt í fangi með að safna liði til að geta boðið fram og borga allt úr eigin vasa. Sjá nánar þessa grein mína: Misnotkun fjórflokksins á ríkisfé og kosningalögum til valdaeinokunar – og lestu nú, Þór!

Jón Valur Jensson, 6.3.2009 kl. 10:57

8 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég tek undir með Þór. Spurði Bjarna á blogginu hans af hverju ekki mætti kjósa um aðildarviðræður við ESB. Ekkert svar kemur frá Bjarna. Líklega of upptekinn við að stjórna lýðræðinu í eigin samtökum.

Sigurður Sveinsson, 6.3.2009 kl. 11:12

9 Smámynd: Þór Jóhannesson

Jón Valur Jensson - það þarf ekki nema að hlusta á þig á útvarpi Sögu til þess að heyra hversu lítill öfgamaður þú er!!!

Þór Jóhannesson, 6.3.2009 kl. 11:21

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það þurfti stóraukinn meirihluta, 75%, til að hætta konungsríkisfyrirkomulagi Íslands, og það er fáránlegt, að 20% Íslendinga eða jafnvel enn fleiri geti setið heima við kosningar um "aðild", 41% kosið að láta innlimast í þetta ofurfreka yfirríkjabandalag, eftir að orrahríð áróðurs EBé-dindla og launaðra útsendara Brussel-valdsins, auk áróðurs beint þaðan, hefur staðið látlaust yfir í marga mánuði, en 39% greiði atkvæði gegn "aðild". Í raun hefur þjóðin lítinn áhuga á þessu máli, Sigurður Sveinsson, það eru fyrst og fremst álitsgjafarnir afvegaleiddu og þeir, sem alltaf halla sér að Stóru mömmu, sem telja þetta bæta stöðu okkar að láta innlimast.

Ef kjósa á um þetta mál, þar sem stjórnskipun lýðveldis okkar verður kollvarpað, á að ætlast til stóraukins meirihluta fyrir slíkri ákvörðun, ekki minna en 75% atkvæða.

"Aðildarviðræður" eru ekki nauðsynlegar til að læra á reglur þessa bandalags, m.a. um yfirráð þess yfir svæðinu milli 12 og 200 mílna, æðsta dómsvald þess í öllum málum og æðsta löggjafarvald sömuleiðis! Og minnstu þess, að hlutlausar "aðildarviðræður" eru ekki til í þessu efni, heldur er fyrst sótt um aðild, og því eru þetta umsóknarviðræður.

Ömurlegt er hlutskipti Ómars Ragnarssonar, sem elskar sitt land, að vera á leiðinni í flokk EBé-dindla og fullveldisafsalsmanna. Það er fullkomlega víst, að ekki leiðir hann alla í Íslandshreyfingunni út á þá ógæfubraut með sér.

Jón Valur Jensson, 6.3.2009 kl. 11:30

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þór, endilega hlustaðu á mig í Útvarpi Sögu á eftir, ég verð þar með erindi kl. 12.40–13.00.

Jón Valur Jensson, 6.3.2009 kl. 11:33

12 Smámynd: Þór Jóhannesson

Eitt er að elska land sitt - annað að vera með öfgafullann þjóðernisrembing!

Þór Jóhannesson, 6.3.2009 kl. 11:35

13 Smámynd: Þór Jóhannesson

Ég hlusta iðulega á þig Jón Valur - og ég skal alveg gefa þér prik fyrir að þú þorir að gangrýna Sjálfstæðisflokkinn þinn. Hitt er annað mál að þú ert mjög svart/hvítur maður á mörgum sviðum.

Þór Jóhannesson, 6.3.2009 kl. 11:37

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er enginn með neinn þjóðernisrembing her, hvað þá öfgafullan, Þór, og reyndu nú að fara að rökstyðja mál þitt, því að það örlar ekki á því hjá þér.

En þú ert kannski í hópi þeirra öfgamanna, sem telja sjálfsagt að afsala okkur þeim fullveldisréttindum, sem Jón Sigurðsson og eftirmenn hans áunnu okkur, og finnst bara allt í lagi að murka lífið úr blásaklausum, ófæddum börnum og gera 3–5% mæðra þeirra ófrjóar auk annarra eftirkasta?

Jón Valur Jensson, 6.3.2009 kl. 11:43

15 Smámynd: Þór Jóhannesson

Ég þarf ekki fleiri vitnanna - hver svo sem les þessi orð þín ætti að skilja samhengið!

Annars er ég andvígur fóstureyðingum og vil ekki gera upp hug  minn varðandi ESB fyrr en fyrirséð er hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að rústa Lýðveldinu Íslandi eða ekki með því að aftur völdum eftir kosingar. Gerist það er ESB líklega skárra en það spillingarflokksræði sem við tekur völdum.

Þór Jóhannesson, 6.3.2009 kl. 11:48

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flokksræðishugsunin skín í gegn þegar menn tala um að ég ætli að "sjanghæja" Íslandshreyfinguna inn í Samfylkinguna. Samþykkt stjórnar var viljayfirlýsing sem hefur engu breytt enn öðru en því að haldinn verður aðalfundur 19. mars sem mun taka afstöðu í málinu.

Jafnt nú sem eftir aðalfund verður enginn "sjanghæjaður" gegn eigin vilja inn í Samfylkinguna. Hver félagsmaður muna að sjálfsögðu gera það upp við sig hvar hann vill vera.

Raunar var ljóst af viðbrögðum flokksmanna gegn bréfi þar um, að ekki var nægur vilji innan Íslandshreyfingarinnar til að hún færi fram ein og sér að þessu sinni.

Eitt merki þessa var það að nokkrir flokksmenn voru þegar komnir í aðra flokka af því að þeir vildu leggja lóð sitt á vogarskálarnar á þann hátt.

Ómar Ragnarsson, 6.3.2009 kl. 16:52

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þarf nú ekki að svara honum Þór frekar, það er greinilegt.

Menn nota nú gjarnan þetta hugtak, að sjanghæja, þegar meiningin er að taka heilan skipsfarm með manni og mús og flytja hann á einhvern nýjan stað (ég var ekki að nota þetta ´merkingunni að taka mann i vímu með nauðung út í 3ja mánaða saltfisktúr eða e-ð þul.). Veit ég vel, Ómar, að einstakir félagsmenn verða ekki fluttir í Samfylkinguna gegn vilja sínum (enda kom að fram í máli mínu, að ég taldi ykkur ekki myndu haldast á öllum ykkar atkvæðum inn í SF, mörg þeirra færu á aðra flokka), en þið í forystu Íslandshreyfingarinnar virðizt hins vegar ætla ykkur að leggja niður hreyfinguna sem sjálfstætt afl og gera hana að einum útlim SF, og það harma ég, því að margt var gott um ykkar hugsjón, en þið virðizt litla trú hafa á henni sjálf að gefast svona upp.

Jón Valur Jensson, 6.3.2009 kl. 17:12

18 identicon

Ómar, ég treysti því að þú verðir áfram samkvæmur sjálfum þegar þú ert kominn í Samfylkinguna og beitir þér fyrir því að 5% þröskuldurinn verði afnuminn fyrir kosningarnar í vor. Þingmenn Samfylkingarinnar sem segjast vilja koma á auknu lýðræði, t.a.m. með persónukjöri, eru ekki trúverðugir ef þeir ætla áfram að standa vörð um óréttlætið sem felst í 5% lágmarkinu.

Þorsteinn Magnússon (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 10:26

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Ómar, ég tek undir þessa frábæru tillögu Þorsteins Magnússonar! Skora á þig!

Jón Valur Jensson, 10.3.2009 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband