7.4.2009 | 10:08
Draugurinn sprelllifandi.
Stóriðjustjórnin 1995-2007 er lifnuð í umhverfisnefnd á Alþingi. Til að tryggja áframhaldandi fjölgu álvera eiga Íslendingar enn á ný að væla það út úr alþjóðasamfélaginu að mega menga meira en nokkrir aðrir.
Röksemdin er sú að hér á landi sé hægt að nota "endurnýjanlega og hreina orku á sjálfbæran hátt", og ef það verði ekki gert verði í staðinn reist fyrir álverin kolaorkuver út í heimi með níu sinnum meiri mengun.
Forsenda þessarar undanþágubeiðni stenst ekki. Endurnýjanleg og hrein orka á Íslandi er innan við eitt prósent af slíkri óbeislaðri orku sem finna má í öðrum heimsálfum.
Ef slík orka væri virkjuð fyrir álver þar myndu þjóðfélög sem eru hundrað sinnum fátækari en Ísland fá að nýta sínar orkulindir með margfalt minni umhverfisspjöllum. En Íslendingum finnst það eftirsóknarvert að taka brauðið frá þessum örfátæku þjóðum.
"Sjálfbæra þróunin" og "endurnýjanlega orkan", sem talað er um hér á landi er með núverandi rányrkju jarðhitans, er orðin að stærstu þjóðarlygi okkar.
Verði álverið í Helguvík að veruleika verður pumpað upp þrefalt meiri orku af háhitasvæðum Reykjanesskagans en þau afkasta og þau munu far að kólna eftir nokkra áratugi. Þá munu barnabörn okkar standa ráðþrota uppi á Hellisheiði og spyrja hvar þau eigi að finna 1000 megavatta orku í staðinn fyrir þá sem er að dvína.
Meðan Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa meirihluta á þingi mun gamla stóriðjustjórnin dúkka upp hvenær sem þessir flokkar telja sér henta. Þessu þarf að breyta.
Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki líka stór hluti af Samfylkingunni sem vill álver í Helguvík og Ómar ert þú ekki kominn í þann "stóriðju" flokk.
Elvar Atli Konráðsson, 7.4.2009 kl. 10:17
Og hvað hefur þú til málana að leggja til atvinnuuppbyggingar á Íslandi, Ómar, fyrst einungis má "horfa" á náttúruauðlinidir þjóðarinnar?
Flokkurinn þinn, Samfylkingin, telur að það eitt að ganga í ESB skapi atvinnu.
Hvað leggur þú til málanna Ómar, annað en þjóðgarða? Við höfum nú Vatnajökulsþjóðgarð, sem er sagður skapa meiri atvinnu og gjaldeyrir, en áll orkusala á Íslandi, heitir það hjá fylgjendum þess að öll landsbyggðin verði einn alsherjar þjóðgarður og útivistarsvæði.
Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 11:44
Góð spurning, Elvar. Það er rétt hjá þér að stór hluti af Samfylkingunni vill álver í Helguvík ef marka má tillögu, hliðstæða tillögu Sjálfstæðis-og Framsóknarmanna á þingi, sem lögð var fram á landsfundi Samfylkingarinnar.
Sú stóriðjutillaga hefði verið samþykkt ef ekki hefði viljað svo til að nægilega margir fulltrúar frá Íslandshreyfingunni og Framtíðarlandinu, sem gengu í flokkinn fyrir landsfundinn, réðu úrslitum um það að þessi tillaga var felld aðeins 14 atkvæða mun.
Við komum fleiri grænum atriðum að í stefnuyfirlýsingum þingsins með dyggri aðstoð umhverfissinna í flokknum. Ég hef áður rakið það í nýlegu bloggi hvernig innganga fólks úr Íslandshreyfingunni og Framtíðarlandinu hafði veruleg áhrif á fundinum.
Nú liggur fyrir að myndi Sf og VG hreina meirihlutastjórn eftir kosningar eru stefnuskrár þessara flokka fyrir bragðið svipaðar í flestum veigamestu umhverfis- og virkjunarmálunum og ef stefnuskrárnar eru skoðaðar er ekki hægt að sjá að stefnuskrá Sf gangi eriinda stóriðjunnar.
Innganga framangreind fólks reyndast vera hárrétt og gagnleg ákvörðun fyrir málstað minna skoðanasystkina.
Ómar Ragnarsson, 7.4.2009 kl. 13:50
Þarf ekki að hafa miklar áhyggjur að hér verði byggð álver í næstu framtíð. Það eru engar forsendur fyrir því í dag. Ekkert fjármagn er til - engin vilji álfyrirtækja er að byggja hér álver. Fjárhagsstaða LV er slík að ekki er hægt að fara í stórfelldar virkjanaframkvæmdir í von og óvon hvort einhver velviljaður stóriðjuframleiðandi komi hingað og fjárfesti í iðnaði þegar undirstöður efnahagsins eru vægast sagt mjög veikar.
Þeir sem boða álversframkvæmdir eru að mala froðu. Það getur vel verið að þeir vilji sjá álver en það er ekki að fara að gerast. Þegar þú sérð stjórnmálamann segja að hann vilji álversframkvæmdirnar fari á fullt er hann annað hvort að ljúga til að vinna sér inn atkvæði eða að hann áttar sig ekki á stöðunni. Bæði dæmin dæma hann óhæfann til verksins og ég hvet alla að kjósa hann ekki.
Þetta er kalt mat - algerlega óháð því hvort maður sé ' fylgjandi ' stóriðju eða ekki.
Guðgeir (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 16:38
- það verða ekki byggð fleiri álver á Íslandi, veit ekki alveg hvernig menn plotta sig út úr því. Bara veit að það verður ekki :-D
Vilborg Eggertsdóttir, 8.4.2009 kl. 01:45
Þá opinberaði sig nýr formaður sjálfstæðisflokksins á eldhúsdagsumræðum í gær.
Manninum datt í hug að nefna eingöngu álversframkvæmdir í Helguvík í hugmyndum sínum um atvinnuuppbyggingu. Því orðið ljóst að hann er vanhæfur til verksins hvort sem er fyrir lygar eða vanþekkingu. Hvernig dettur honum í hug að vekja falskar vonir fólks þegar svona árar í þjóðfélaginu?
Guðgeir (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.