5.5.2009 | 20:14
Eru eignirnar allt ?
Allt fram að þessu hefur íslensk fjármálapólitík snúist um það að fólk geti átt sjálft húsnæðið sem það býr í og helst eitthvað meira, svo sem einkabíl. Fyrstu verkamannabústaðirnir byggðust á þessu og á Íslandi hefur það aldrei tíðkast í sama mæli og erlendis að fólk sé leigjendur í íbúðunum sem það býr í.
Á öllum tímabilum liðinnar aldar var í gangi viðleitni til að stuðla að þessu og ber heilt íbúðahverfi, svonefnt Smáíbúðahverfi í Reykjavík, vitni um það.
Það hefur verið greypt í íslenska þjóðarsál að hver maður eigi sitt og sé sjálfstæður að öllu leyti. Svo rík hefur þessi hugsun verið að fólk hefur haft við mig samband í öngum sínum og talað jafnvel um að fremja sjálfsmorð vegna þess að það hafi misst eignir sínar í kjölfrar bankahrunsins.
Það má rökstyðja það á ýmsan hátt að gott sé að sem flestir eigi húsnæðið sem þeir búa í. Þeim líði betur þannig og fólk fari betur með eignir sínar en annarra.
En er allt fengið með þessari eindregnu þrá eftir eignum? Það leyfi ég mér að efast um. Ég var aðeins 17 ára þegar ég fór að vinna eins og hundur öll kvöld og helgar til þess að eignast fyrstu íbúðina mína.
Það var dásamlegur tími þótt þetta væri mjög erfitt. 19 ára gamall var ég orðinn íbúðareigandi.
Fyrir átta árum fór ég út í kvikmyndagerð og þar með var á enda það tímabil ævinnar að eiga íbúð. Ég sé ekki fram á að það muni breytast úr þessu. Ég finn ekki til þeirrar tilfinningar sem var lýst í Kastljósi nú rétt áðan að það væri óbærileg hugsun að eiga enga möguleika framar á að verða húseigandi.
Fyrirfram hefði ég haldið eins og svo margir aðrir að það að verða eignalaus þýddi endalok alls. En þannig hefur það ekki orðið. Að þessu leyti til sé ég ekki mun á að borga það sem ég hef efni á í húsaleigu, þótt íbúðin sé lítil og á því að borga sömu upphæð mánaðarlega til að halda láni gangandi og eiga heima í eigin íbúð, jafnvel þótt skuldirnar af henni sýnist óyfirstíganlegar.
Í einhverjum tilfellum má spyrja hvort sé heppilegra að sá sem ekki ræður við að borga að fullu sé áfram í sömu íbúð og það sem hann getur þó borgað renni í þann sjóð sem húsnæðiskerfið stendur og fellur með eða, - hvort betra sé að þessir peningar renni til þess að borga leigu fyrir húsnæði á öðrum stað.
Auðvitað eru tilfellin svo mörg og mismunandi að svörin verða það líka, - en það má velta þessari hlið fyrir sér.
Ég hef fengið upphringingu frá persónu sem sagði að öllu væri lokið, eignirnar farnar og makinn hlaupinn í burtu.
Aðeins svartnætti væri framundan. Ég var beðinn um ráð og gat ekkert ráð gefið annað en það að ég hefði upplifað það að í lífinu væri fleira til en peningalegar eignir, svo sem heilsa, ástvinir og lífið sjálft sem væri dásamleg og ómetanlega dýrmæt gjöf, sem við kynnum ekki alltaf að þakka fyrir.
Ég heyrði það á rödd viðmælandans að þetta þótti honum léleg ráð. En ég hafði ekkert skárra fram að færa, því miður.
ASÍ vill bráðaaðgerðir á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kæri Ómar,
ekki gefast upp á að gefa fólki holl ráð, þú veist og ég veit, að hamingjan er ekki í steinsteypu heldur í hugarfari. Í þýskalandi tekur fólk eldhúsinnréttinguna sína með sér úr leiguhúsnæðinu - sæirðu það fyrir þér á Íslandi!
Efnishyggjan er hræðileg þegar hún tekur völd, og ég er sannfærð um að þessi efnahagskreppa á Íslandi og reyndar út um allan heim á eftir að fæða af sér sterkari einstaklinga sem gera greinarmun á kjarnanum og hisminu.
Takk fyrir vel valin orð, gefðu áfram af þér, heimurinn verður betri fyrir vikið.
Guðný Einars-Pearson.
Gudny Einarsdóttir (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 20:31
Eignir skipta einmitt engu máli og þetta stöðuga væl hér á Klakanum er beinlínis hlægilegt. Kastljósið fullt af grenjandi fólki á hverju kvöldi. Þetta fólk á að skammast sín!
Í Svíþjóð var ég í námi í fimmtíu þúsund manna bæ og félag átti helminginn af íbúðunum í bænum.
Það var ekkert mál að fá leigða íbúð hjá þessu félagi, tveggja, þriggja eða fjögurra herberja, nú fyrir um 50-70 þúsund íslenskar krónur á mánuði. Þvottavél, þurrkari, ísskápur og uppþvottavél í hverri íbúð. Og alltaf einhverjar íbúðir lausar.
Hér er fjöldinn allur af tómum nýjum íbúðum og ekkert mál að leigja þær út, því nú er fjöldi fólks að missa íbúðirnar sem það keypti. Og það fólk getur að sjálfsögðu búið í leiguhúsnæði til æviloka, ef því er að skipta, rétt eins og milljónir manna gera erlendis.
Og þeir sem missa bílana sína hér geta tekið strætó eða gengið af sér spikið.
Ég vorkenni þeim ekki.
Þorsteinn Briem, 5.5.2009 kl. 20:47
Sæll Ómar
Satt er það eignir eru ekki dýrmætari en heilsa okkar, fjölskylda og bara eins og þú segir, lífið sjálft, sem í öllu falli á að vera inndislegt og við eigum að geta notið þess að lifa.
Þegar þú tókst ákvörðun um að fara útí kvikmyndagerð þá var það þín ákvörðun og þú vissir að það gæti farið illa og þú hefur sennilega líka ákveðið að taka afleiðingunum, ég tók ekki ákvörðun um að hækka lán mitt svo mikið að ég gæti ekki staðið í skilum og á þar af leiðandi ekki að taka afleiðingunum af þeirri ákvörðun heldur þeir sem tóku hana, þar stendur hnífurinn í kúnni með að sætta sig við orðin hlut !
Og það er nú bara þannig að við óttumst það óöryggi sem því fylgir að eiga ekki húsnæðið sem við búum í, höfum ekki verið alin upp við annað en að allir ættu að vera húseigendur sem dæmi þá var ég rétt rúmlega 20 ára þegar ég eignaðist mitt fyrst hús og var ótrúlega stollt af því.
Við sem erum að berjast fyrir því að fá að halda okkar eignum erum kannski ekki bara að hugsa um að eiga eign heldur er þetta spurnign um réttlæti, við erum búin að vinna hörðum höndum að því að eignast þetta hús en vegna "glæpamanna" sem komust til valda í bönkunum á að hirða allt af okkur þar sem við getum ekki staðið undir lánum sem við tókum ekki alla vega ekki eins og þau standa í dag, þetta er bara ekki sanngjarnt og á ekki að lýðast, bankarnir eru svo óforskammaðir og koma fram við okkur eins og það séu við sem vorum völd að þessu hruni og ég get alveg sagt þér að mér hefur aldrei liðið eins og mér líður í dag hér á Íslandi illa og bara mjög illa !!
VIÐ HÖFUM VERIÐ SVIKIN OG ÞAÐ Á AÐ LEIÐRÉTTA OG ÞAÐ STRAX !
Annars er ég að hugsa um að sækja um "FJÁRHAGSLEGT HÆLI " í einhverjum af löndunum í kirngum okkur ég bara ætla ekki að borga skuldir þessara útrásarvíkinga og vil ekki að börnin mín þurfi að gera það heldur þau eiga betra skilið !!!
Með baráttu kveðjum Díana Sigurðardóttir
Diana Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 20:55
Sæll Ómar,
ég gæti ekki verið þér meira hjartanlega sammála! Vissulega er gott að eiga peninga í formi eigna ef maður er alltaf að skipta um húsnæði og það er kannski betra heldur en margir aðrir fjárfestingarmöguleikar. Seinna á lífsleiðinni þarf maður frekar að minnka við sig heldur en hitt og þess vegna skil ég ekki hvers vegna fólki er það svona mikið í mun að drífa það af að eignast íbúð eða hús. Fólk kaupir íbúð/hús í kringum þrítugt og tekur lán til 40 ára en þegar það er komið á sextugsaldurinn er allur krakkaskarinn farinn og íbúðin/húsið allt of stórt. Þá þarf fólk að fara í eitthvað brask með íbúðina/húsið og til hvers? Til að skilja eftir einhverja peninga handa börnunum sínum? Ef sú hugsun er að baki þá er bæði fljótlegra og hagstæðara að leggja bara fyrir í hverjum mánuði í stað þess að treysta á að fasteignamarkaðurinn verði hagstæður þegar fólk hrekkur upp af...
Þessi hugsunarháttur er hvergi annars staðar svona, að fólki liggi svona á að eignast fasteignina skuldlaust. Ef ég væri þessi úr Kastljósinu þá væri ég bara feginn ef þeir vildu gera samning við mig sem ætti að standa þar til ég yrði 120 ára. Ég myndi að minnsta kosti vita að ég þyrfti ekki að borga allt og ég hefði pottþétt þak yfir höfuðið þar til ég færi yfir móðuna miklu.
Óli (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 21:30
Það er rétt að ég ákvað sjálfur að fórna eigunum fyrir málstaðinn. En þá kem ég að öðru. Einmitt það að "ófarir" stafi að eigin völdum er oft erfiðara að sætta sig við heldur en ófarir sem stafa af utanaðkomandi ástæðum, svokallað "force major" á erlendu máli.
Ég sætti mig að vísu við að tapa öllu á kvikmyndagerðinni og halda því áfram vegna þess að ég tel að einhvern tíma muni hún verða talin verðmætari en hún hefur verið talin fram til þessa.
Ég lít á hana eins og að ég hefði ákveðið að fórna öllum eigum mínum fyrir skógrækt sem ekki bæri árangur fyrr en eftir minn dag. Ég er sannfærður um að myndirnar, sem allir þessir peningar fóru í að taka þegar Hjalladal og öðrum svæðum var sökkt vegna Kárahnjúkavirkjunar verði margfalt verðmætari eftir minn dag en hver sú íbúð sem ég hefði getað eignast og arfleitt börn mín að.
Ég lít á efnahagshrunið eins og hamfarir af völdum náttúrunnar, því að hvorki ég né þú, Diana, gátum ráðið neinu um það. Ég reyndi það þó, til dæmis með skrifum í bókinni Kárahnjúkar-með og á móti, og með síðari skrifum og kvikmyndagerð, en verð bara að sætta mig við það að tapa hverri baráttunni á eftir annarri.
Ég tel nauðsynlegt að þeir axli ábyrgð sem það eiga að gera en ef það fer þannig að stærsta snekkjan við Marmarahafið verður samt áfram í eigu eins af íslensku útrásargróðapungunum, þá verð ég bara að sætta mig við það alveg eins og ég varð og verð að sætta mig við hina óheyrilegu og óafturkræfu eyðileggingu verðmætustu náttúruundra landsins, sem byrjaði fyrir sex árum og færist í aukana ef eitthvað er.
Maður verður að bægja frá sér hugsunum um hatur. Sá sem hatar fer verst með sjálfan sig.
Að lokum æðruleysisbæn AA: "Guð, gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að skilja þarna á milli."
Aðalatriðið er að gera sitt besta, - og kannski aðeins meira ef það er það sem þarf.
Ómar Ragnarsson, 5.5.2009 kl. 21:31
Ég er innilega sammála þér Ómar, ég hef verið,af reynslu,að segja fólki að gjaldþrot sé ekki dauðadómur og að betra sé að teygja það ekkert um of, þegar séð er í hvað stefnir, ekki eyða orku og peningum að ég ekki tali um tíma frá fjölskyldunni í vonlaust verkefni.
Smá aga: Það kom í sjónvarpið mitt kona um dagin og sagði okkur frá hvernig ástandið væri á hennar heimili þau hjón (ekki bara karlinn) höfðu orðið gjaldþrota fyrir nokkrum árum og nú voru þau bæði orðin atvinnulaus, ég hreyfst svo af þeim þroska sem þessi fjölskylda býr yfir. Þau ákváðu á fjölskyldufundi að fara frekar saman í frí og vera áfram saman fjölskyldan frekar en að fara að kaupa íbúð aftur, en þau höfðu aðeins getað safnað. Og hvað þessi kona var samt létt í lund og ég get sagt þér að svo hreyfst ég af frásögn þessarar konu að í hvert skipti sem ég heyri í henni í útvarpinu hlýnar mér um hjartaræturnar, en hún hefur fengið vinnu við fréttamennsku á RÚV.
Þetta var bara í grófum dráttum úr hennar frásögn, þú þekkir þessa sögu betur en ég Ómar.
Mér sýndist að af þessari fjölskyldu mættu margir margt læra.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.5.2009 kl. 22:25
Sæll Ómar
Bara til að koma í veg fyrir allan misskilning þá hef ég dáðst að þinni baráttu til vendar íslenski náttúru og er þér svo hjartanlega sammála hvað varðar allar þessa virkjanir og tel alveg nóg komið.
Svo fyrir hönd barna minna og barnabarna og bara allra minna afkomenda þakka ég þér þína óeigingjörnu baráttu sem því miður hefur ekki fengið nægan hljómgrunn !!
Samlíking mín var ekki til að gera lítið úr þeirri baráttu síður en svo !!
Við munum lifa þetta af og þetta mun" REDDAST" eins og við segjum gjarnan, þó ósanngjarnt sé !!
Með góðri kveðju
Díana
Diana Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 22:29
Það er mjög mikið til í þessu sem þú ert að segja Ómar. En af hverju hefur fólk hér viljað kaupa og eiga sínar íbúðir? Ég hef búið í Svíþjóð og þar eru ýmsir möguleikar þegar kemur að búsetu. Þú getur tekið lán og keypt þér íbúð, það eru ótal möguleikar á kaupleigu og svo er leigumarkaðurinn þar frekar ódýr og öruggur.
Ég er um þrítugt og á mann og tvö börn. Þegar við fórum að skoða þessi mál hér á landi árið 2004 sáum við að það væri ekkert vit í að fara með börnin út á leigumarkaðinn. Hann var mjög dýr og mjög óstöðugur og óöruggur. Við lögðum okkar sparnað í íbúð og tókum lán, því miður núna því að sparnaðurinn er að öllum líkindum horfinn.
Ég hef ekki áhyggjur af því að hafa misst sparnaðinn. Ég myndi ekki hafa áhyggjur þó við misstum íbúðina og stæðum á núllinu. Þá værum við frjáls ferða okkar, gætum verið hér eða farið. Það sem fólk hefur áhyggjur af eru sívaxandi skuldir og laun sem standa í stað og snarminnkandi kaupmáttur. Fólk er fast í íbúðunum, fasteignamarkaðurinn frosinn.
Ég hef því ekki áhyggjur af því að eiga ekki neitt. Ég hef áhyggjur af því að geta ekki borgað skuldirnar og að eitthvað lendi á ábyrgðarmanni sem ég læt aldrei gerast. Ég hef áhyggjur af því að þurfa að arfleiða börnin mín að íbúð sem er skuldsett.
Í dag er sá heppinn sem á ekki neitt. Það er miklu betra en að eiga skuldir sem flúga upp á við.
Heiðrún (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 23:06
Eða eins og karlinn á Akureyri sagði þegar hann var spurður um það hvernig hann færi út úr hruninu: "Ég átti ekki neitt og held mestu af því eftir !"
Ómar Ragnarsson, 5.5.2009 kl. 23:45
Aðalvandamálið í húsnæðismálunum hér undanfarna áratugi hefur einmitt verið alltof lítill leigumarkaður.
Um 90% af íbúðunum hér hafa verið í eigu þeirra sem búa í þeim. Þetta hlutfall hefur hvergi verið hærra í heiminum og það er einfaldlega ekkert vit í því.
Húsaleigan hefur því verið alltof há og fólk hefur jafnvel neyðst til að leigja íbúðir í lélegu ástandi.
Hins vegar er enginn skyldugur til að greiða skuldir foreldra sinna þegar þeir falla frá.
En hér hafa þúsundir manna tapað peningum og orðið gjaldþrota undanfarna áratugi. Í sumum tilfellum hefur peningunum verið stolið, í öðrum tilfellum hefur fólk eytt þeim í tóma vitleysu, til dæmis áfengi og fíkniefni, og í enn öðrum hefur það tekið rangar ákvarðanir í fjármálunum, til að mynda hlutabréfakaupum. En það á ekki að væla út af því í sjónvarpinu.
Og fyrir um tveimur áratugum var verðbólga hér og atvinnuleysi svipað og það er nú.
En þá var miklu minna grenjað í Kastljósinu.
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 00:00
Takk fyrir frábæra grein, Ómar. Verulega dapurlegt að ekki sé meira hlustað á þig - sérstaklega af því þjóðin dáir þig og er sammála langflestu sem þú segir. Hún fattar það seinna að hún hefði betur nýtt þína frjóu hugsun.
Jón Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 00:03
Óréttlæti er það sem málið snýst um. Og óöryggi. Fólk þarf ekki að þola að vera pínt og þvingað til að missa heimilið sitt og barna sinna. Skuldir venjulegs fólks flugu upp um milljónir. Og ekki vegna þess að það gerði neitt rangt, heldur vegna glæpabanka og peningagróðaníðinga sem fengu að ryksuga upp milljarða í friði. Og vegna kæruleysis og vangetu yfirvalda.
EE elle (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 00:29
Fyrir tuttugu árum byrjaði fólksflótti frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Kreppan var byrjuð þar og heilu byggðarlögin misstu unga fólkið í Reykjavíkurhítina.Eignir hríðféllu í verði og fólk yfirgaf þær þar sem þær seldust ekki.Skólar voru lagðir niður eða sameinaðir og sifellt erfiðara var að draga fram lífið.Hvar var Kastljósið þá?Hvar voru stjórnvöld þá? Hvar voru blaðamenn þá ?Þeir hættu að fjalla um fiskvinnslu og sjómennsku.Það var púkó. Nei fólkið á landsbyggðinni stendur líklega uppi sem hetjur þessa lands.ÞAð veit að það er líf fyrir utan borgarmörkin,ekki bara búgarðar auðmanna og sumarhús. Það veit hvað það er að þurfa að taka á sig kreppu og aðlaga sig henni.Það veit að peningar verða ekki til í bönkum.Það veit að við munum lifa á meðan að fiskurinn er til og að allir fái tækifæri til þess að sækja hann og færa til hafnar.Því þeir sem hæsta láta, þar er fallið mest. Því miður virðist bara fullt af fólki ,þrátt fyrir allar prófgráðurnar úr svokölluðu háskólum landsins,ekki geta höndlað ástandið því það hefur aldrei unnið ærlegt handtak um ævina öðruvísi en að rýna í tölvur og tölur. Það trúir því að talvan sé sú sem allt veit. Ef að hlutirnir breytast ekki fljótlega í hugafari sumra,þá er ekkert sem getur hjálpað okkur.Á Íslandi búa tvær þjóðir. Það er millistéttin sem virðist alla tíð þurfa að halda þessu batteríi gangandi og svo þeir ríku sem aldrei þurfa að skila neinu til samfélagsins en heimta samt alla samfélagsþjónustu. Þessu þarf að breyta ,en er vilji fyrir því? Ég held ekki. Ef ég væri yngri myndi ég koma mér af landi brott strax því að ég er fyrir löngu búin að missa tiltrú á að hér sé gott að lifa . Eiginlega skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 08:24
Gleiðilegt að vita hvað fólkið í bænum er allt vitlaust og að fólkið á landsbyggðinni veit ALLT. Þetta heitir alhæfing og fordómar.
Almennur borgari (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 08:59
Já, nú vitum við það, ALLIR á höfuðborgarsvæðinu eru heimskir og vita ekki neitt og ALLIR á landsbyggðinni vita ALLT.
Jón (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 09:05
Það voru ekki mín orð.Þetta var stefna stjórnvalda að beina öllu batteríinu til RVK og það vitið þið sjálfir.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 09:12
Rétt hjá Rögnu Eyjapíu að vanda.
Mogginn fékk fjármál á heilann og að lokum í heila stað. Hætti fyrir nokkrum árum að gefa út sérblað um sjávarútveg, Úr verinu, sem við Hjörtur Gíslason skrifuðum, en þá var ég reyndar hættur á Mogganum.
Og Mogginn fór á hvínandi kúpuna í sinni flottræfilshöll. Kominn út í Móa og kann þar hvorki íslensku né önnur tungumál.
En jarmar hér daglega eins og afvelta rolla og fólkið í Kastljósinu veinar eins og stunginn grís á hverju kveldi. Í guðanna bænum takið ykkur strax saman í andlitinu!
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 10:43
Ég tek undir með Rögnu og Steina.
Undanfarna áratugi höfum við einfaldlega gert alltof mikklar kröfur og lifað alltof hátt en í leiðinni gleym að vera til og njóta lífsins og samveru með börnum okkar.
Jú leigumarkaðurinn hjá okkur er mjög vanþroskaður en er bara eitt af verkefnunum sem þarf að vinna strax.
Við þurfum að fara að standa saman og taka á hlutunum saman - öll.
Það er ekkert okkar ómerkilegra en annar, við þurfum á okkur öllum að halda.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 11:24
Högni og Steini, þið takiðr undir með Rögnu, sem gerir mun á fólki, eftir því hvar það býr. Það er hatur og mismunun. Og samt segir þú réttilega Hogni: "Það er ekkert okkar ómerkilegra en annar" . Nú, skil ég ekki, að réttsýnn maður taki undir alhæfingar og fordóma.
Almennur borgari (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 11:32
Almennur borgari Hjálpaðu mér að skilja þig, ég sé alhæfingarnar eða fordómana og heldur ekki hatrið né mismununina í hennar innleggi.
Enn sé að hún bendir á að á undanförnum árum hefur þjóðin verið að klofna í landsbyggðafólk og þéttbýlisfólk (sem hefur gleymt uppruna sínum að mestu leyti) og hún hefur líka klofnað í vinnandi fólk og gráðugt efnishyggjufólk.
Og Almenni borgari þetta þarf að laga við erum ein þjóð og eigum að snúa saman bökum og taka á þessu saman.
,,Þitt er mitt og mitt er mitt" og ,,allir fyrir einn og einn fyrir sjálfan sig" er hvort tveggja 2007 og úreltur hugsunnarháttur, það er hugarfarsbreyting meðal þjóðarinnar sem þarf og það á næstum öllum sviðum.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 11:56
Leiðrétting ,,ég sé EKKI alhæfingarnar eða fordómana,,
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 11:57
Högni, þarna fer hún mikinn um hvað fólkið á landsbyggðinni veit og setur það á háan hest yfir hinu fólkinu í landinu og sem hetjur landsins. Endalaust það hvað fólkið á landsbyggðininni veit. Þetta kalla ég fordóma og bara hatur gegn öllu hinu fólkinu:
"Nei fólkið á landsbyggðinni stendur líklega uppi sem hetjur þessa lands.ÞAð veit að það er líf fyrir utan borgarmörkin,ekki bara búgarðar auðmanna og sumarhús. Það veit hvað það er að þurfa að taka á sig kreppu og aðlaga sig henni.Það veit að peningar verða ekki til í bönkum.Það veit að við munum lifa á meðan að fiskurinn er til og að allir fái tækifæri til þess að sækja hann og færa til hafnar.Því þeir sem hæsta láta, þar er fallið mest. Því miður virðist bara fullt af fólki ,þrátt fyrir allar prófgráðurnar. . . "
Almennur borgari (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 12:15
Það er gott að hafa víðsýni kæri Almenni Borgari þú sem ekki getur einu sinni tjáð þig hér undir nafni. Mér nægir að lesa hér komment þeirra Steina og Högna til að vita að þeir skilja hvað ég átti við með hvernig ástandið er á landinu og hvernig komið er fyrir þjóðinni vegna þröngsýni stjórnvalda. Ég ætla ekki að eyða meira púðri í að reyna að benda á hvað ég meinti enda virðist það ekki skipta máli. Þetta er það sem þú heldur og þú um það, það er þitt mál.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 12:44
það er ekki skylda að skrifa undir nafni og ekki ólöglegt að gera það ekki. En komdu niður að jörðina blessuð af þínum háa hesti. Held Högni og Steini hafi bara gert þau mistök að lesa ekki í aðdróttanir þínar um hitt fólkið í landinu. Um hvað það sé nú ómerkilegt miðað við ykkur á landsbyggðinni. Þú er farin að pirra fólk.
Almennur borgari (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 12:54
Almennur borgari. Ég hef nú reyndar nokkrum sinnum bent á það hér hjá Ómari að í 101 Reykjavík eru einnig sköpuð mikil útflutningsverðmæti, trúlega þau mestu á landinu, þannig að ég geri ekki upp á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar í þessum efnum.
Reykjavík er stærsta útgerðarhöfn landsins og hún er í 101 Reykjavík. Þar eru til dæmis Fiskkaup og Grandi, sem er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, og CCP sem þjónar þeim sem spila Netleikinn EVE Online en þeir verða jafnmargir Íslendingum nú í sumar. Og gjaldið, sem þeir, aðallega útlendingar, greiða mánaðarlega fyrir að spila leikinn, nægir til að greiða laun allra verkamanna í öllum álverum landsins, um 600 milljónir króna á mánuði.
Í 101 Reykjavík eru einnig um 100 veitingastaðir og hótel, þar sem útlendingar eyða daglega miklum gjaldeyri. Einnig í verslunum, til dæmis bókabúðum og Rammagerðinni, þar sem seldar eru lopapeysur og fleiri íslenskar landbúnaðarafurðir. Og íslenskir veitingastaðir selja árlega um hálfri milljón útlendinga íslenskar sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir, sem er þá útflutningur á þessum afurðum.
Og í 101 Reykjavík voru 13. mars síðastliðinn 4.876 heimili og 633 fyrirtæki, sem eru fleiri fyrirtæki en í nokkru öðru póstnúmeri á landinu, fyrir utan 105 Reykjavík, en þá voru þar 5.835 heimili og 643 fyrirtæki, tíu fleiri en í Reykjavík 101.
En gengi íslensku krónunnar var alltof hátt mörg undanfarin ár, sem var mjög slæmt fyrir útflutning hér í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
En nú er mikill uppgangur í Vestmannaeyjum og þangað koma mun fleiri ferðamenn en áður þegar höfnin í Bakkafjöru hefur verið tekin í notkun.
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 12:55
Ég tek bara aftur undir með Rögnu.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 12:56
Allt í lagi Högni. Ég get bara skilið það þannig að þú sjáir ekki það ómerkilega sem ég les út úr fullyrðingum hennar. Og virðist þú þó ekki vera óréttlátur.
Almennur borgari (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 13:01
Af hverju einn maður styður Rögnu sama hvað hún segir er óskiljanlegt. Kannski tengsl þarna.
Jón (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 13:36
Eins og Steini kemur inn á þá verða gjaldeyristekjur okkar til um allt land, en það sem við erum að horfa upp á er að borgarbörnin eru að gleyma uppruna sínum og að sjálfsöggðu eru menntafólkið á höfuðborgarsvæðinu þanneigin er það bara, en við vitum sko alveg hvar það svæði er því að við verðum að fara þangað í hina ýmsu þjónustu, en þanneigin er það ekki með borgarbörnin og oftar en ekki er landsbyggðarfólk sett í annan flokk.
Enn þetta er ekki neinum að kenna og við eigum að breyta þessu, á Íslandi höfum við allt sem við þurfum að hafa til að hafa það gott og sem fyrst eigum við að snúa saman bökum og hætta að agnúast hvert út í annað, fólk er reitt núna og hættan mikil á að eitthvað gerist sem við viljum ekki að gerist, við eigum að virkja reiðina og gera eitthva, en það er nú eitthvað sem stendur í Samfylkingarmönnum sem eru svo blindir af ESB draumórum að það er farið að kosta og það er bara annað sem liggur mun meira á núna en það.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 13:40
Fólk tók hér lán í erlendri mynt þegar allir vissu, eða máttu vita, að gengi íslensku krónunnar myndi falla fyrr eða síðar, og það fyrr en síðar.
Annars hefðu trúlega bæði sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan hér orðið gjaldþrota. Var fólk kannski að krefjast þess?!
Þetta fólk á að súpa seyðið af heimsku sinni og fáráðlingshætti!
Og í Kastljósinu var talað við mann sem hafði "keypt" íbúð út á 100% lán en hann hefur ekki greitt af því í marga mánuði. Samt heimtar hann að fá að vera áfram í íbúðinni.
Og grenjar úr sér augun út af heimsins óréttlæti!
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 14:13
Jón! Við erum bara sömu skoðunnar og höfum líklega svipaða reynslu af að búa úti á landi og horfa upp á frammleiðslurgreinarnnar standa undir öflun gjaldeyrisins en verða aftur og aftur troðinn undir af misvitrum borgarbörnum.
Það er bara ekki þetta sem skiptir máli, lesiði aftur pistilinn hér að ofan og tjáið ykkur svo í samhengi við hann, við erum komin útfyrir umræðuna.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 15:11
Þið eruð mjög athygliverð!
Á nú einu sinni enn að klifa á ásökunum á íslenskt fjölskyldufólk fyrir að vilja EIGNAST húsnæði? - Komið í GÆR!! - Leigjendur hafa búið við óþolandi óöryggi á Íslandi - alla tíð! Það er pólitísk staðreynd.
Fólki hefur ekki boðist mannsæmandi leigumarkaður á Íslandi! sl 3 áratugi - heldur ekki sl. 6 áratugi - yfirleitt ALDREI!
Auðvitað er ég sammála Ómari um að ekki sé sáluhjálparatriði að eiga húsnæði. En - það er sáluhjálparatriði að eiga öruggan samastað fyrir sig og sína!
Hlédís, 6.5.2009 kl. 19:56
Ég tek undir með Almennum borgara, Hlédísi og Jóni. Og finnst ekki að Ragna ætti að fá stuðning Högna þarna, þar sem hún rakkar niður fólk sem ekki býr á landsbyggðinni. Það er eins og sagt var að ofan bara fordómar og mismunun, og kannski hatur, gegn fjölda manns sem hafði ekkert með neitt að gera sem Rögnu mislíkar.
EE elle
. (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 20:13
Hlédís. Fólk sem nýlega hefur tekið 100% lán til að "kaupa" húsnæði og greiðir ekki afborganir af láninu í marga mánuði á ekkert í húsnæðinu. Það getur því ekki krafist þess að fá að búa þar áfram, frekar en leigjandi sem greiðir ekki húsaleiguna mánuðum saman.
Fjölmargt ungt fólk hefur keypt hér stórar íbúðir undanfarin ár án þess að hafa lagt mikið fyrir og nýja bíla á 100% lánum, oft í erlendri mynt, til allt að sjö ára.
Áður en þetta dellumakarí hóf hér innreið sína byrjaði fólk oftast á að leigja húsnæði þegar það flutti að heiman og leggja töluvert mikið fyrir í nokkur ár áður en það keypti sína fyrstu íbúð, oftast tveggja herbergja, og stækkaði síðan smám saman við sig áratugum saman.
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 20:34
Nei sko Hlédís ég lít ekki svo á að það sé verið að ásaka fjölskyldu fílk fyrir eitt eða neitt heldur skil ég Ómar þanneigin að hugarfarið sé ekki rétt og gildin röng, en það hefur líka komið fram að leigumarkaðurinn sem slíkur er óþroskaður og þarf að taka verulega á og þá verulega ef barnafól á að finna öryggi þar.
EE elle Ég get ekki séð þessa niður rökkun, þú ættir að heyra þegar ég er í ham.
EE elle og Almennur borgari!! Eruð þið farin að finna eitthvað til í samviskunni eða hvað er það sem hrjáir ykkur, ykkur er alveg óhætt að leita til okkar við hlustum og höfum nógann tíma, við gerum ekkert annað en að stunda vinnuna okkar við að afla gjaldeyris og spara gjaldeyri en höfum alltaf tíma til að hlusta á samborgara okkar og takið eftir við höfum alltaf litið á þjóðina sem einn hóp, en það er sko allt annað sem við fáum yfir okkur frá höfuðborgarsvæðinu.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 20:35
Hvað ættum við að vera með á samviskunni og hvað ætti að hrjá okkur Högni.? Það að mislíka mismunun Rögnu á borgurum landsins eftir því hvar fólk býr? Ég er ættuð utan af landi og erlendis frá. Bjó ekki í landinu þegar kvótakerfið var stofnað og hafði vissulega ekkert með það að gera. Og fyrir utan það er ég fyllilega á móti þessu rotha kvótakerfi og hef oft sagt. Ég bara kann ekki við svona tal þar sem sumu fólki er lyft upp á stall yfir annað fólk í hópum og eftir búsetu. Það er mismunun. Og ekki erfitt að lesa það út úr ´commenti´ Rögnu nema maður stingi höfðinu viljandi í sandinn. Og ekki ráðast á fólk persónulega fyrir að lika það ekki.
EE elle
. (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 21:00
Steini minn! Auðvitað varð fólkinu á!
Mér er ekki kunnugt um hve mörg börn þú hefur á framfæri, en veit að barnafólk, eða réttar sagt börn barnafólks - þarf á stöðugri búsetu að halda. Slíkt býðst/ eða bauðst ekki fyrir hrun - á íslenskum leigumarkaði. - Segðu mér að þú hafir verið eignalítill með 1-3 börn á framfæri fyrir skömmu - boðist "viðráðanlegt" lán - en valið leigumarkaðinn af forsjálni! Þá ertu ennþá meira spes en ég hélt, kæri Steini!
Hlédís, 6.5.2009 kl. 21:33
EE elle Þetta komment Rögnu er byggt á gömmlum merg, þú vissir alveg hvað hún er að fara ef að þú byggir úti á landi og heyrðir og sæir umræðuna héðan frá, bara eitt einfallt dæmi, nefni það af því að það er auðvelt að taka eftir því, í Útvarpi allra landsmanna RÚV talar dagskrárgerðarfólk yfirleitt til hlustenda í "nærmynd" .
Skattpeningar sem reynt er að fá í framkvædir úti á landi fást mun síður en í sambærileg mannvirki á höfuðborgarsvæðinu og þegar það fást peningar eða þegar við erum að reyna að biðja um peninga í framkvædir þá stökkva borgarbörnin upp á nef sér og bloggsíður og greinar í blöðum loga af upplýsingum um hvað þarf frekar að gera enda við bara "afdalapakk" eins og einn bloggsíðuhafi skrifaði í fyrirsögn.
Það er nú svo EE elle að í gegnum tíðina þegar gjaldeyrissköpunin var svo til eingöngu í sjávarútvegi var henni yfirleitt eytt í stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Það þótti nú ekki skipta máli hvað okkur meðskattgreiðendum ykkar og aðalnotendum fyndist um flugvöllinn eða flutning hanns á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU, sem nota bene ætti að vera okkar allra.
Hér er ein hugmynd, Landspítalinn þarf að stækka og stendur á rándýrri lóð og skal byggjast á rándýrri lóð, bæði suður í kapelluhrauni og austur í Ölfusi er nóg af ódýru landi undir slíkt mannvirki, hvað heldurðu að ég mundi móðga marga höfuðborgarbúa ef að ég skrifaði grein og sýndi Fram á að í náinni framtíð verður bæði Keflavík og Selfoss úthverfi höfuðborgarsvæðisins og því mjög hagkvæmt að hafa sjúkrahúsið þar, næstum alla. Enn borgarbörnin sjá ekkert athugavert við að sjúkrahúsunum okkar skal lokað, reyndar búið að setja á það aðlögun núna.
Raftækjaverslun mundi aldri senda þér ísskáp, þvottavél eða sjónvarp rispað eða beyglað, nema þú byggir úti á landi.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 21:36
Hlédís, það er til fólk sem gerði þetta (færsla 6 og þessi kona sem talað er um þar heitir Lára), ekki ætla ég að reyna að halda því fram að ég hefði farið skynsömu leiðina.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 21:39
Vel að merkja, Steini Briem!
Það er einmitt þetta "töluvert mikið lagt fyrir" sem verðtryggðu okurlánin eru búin að hirða af fólkinu nú - og það komið í mínus.
Hlédís, 6.5.2009 kl. 21:40
Kæri Högni. ´Comment´ Rögnu er óverjandi. Og þú segir"Enn borgarbörnin sjá ekkert athugavert við að sjúkrahúsunum okkar skal lokað" Ég bý í bænum og VIL EKKI að neinum sjúkrahúsum í landinu sé lokað. Þeir geta bara sparað á öðrum stöðum.
EE elle
. (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 22:17
Hlédís mín. Vextir, bæði innláns- og útlánsvextir, hafa verið mjög háir í bönkum hérlendis undanfarin ár og því hefur verið miklu skynsamlegra að leggja fyrir en taka dýr lán til bíla- og húsnæðiskaupa.
Og þó lán í erlendri mynt geti virst hagstæð þegar þau eru tekin er engan veginn þar með sagt að þau verði það þegar upp er staðið, eins og dæmin sanna.
Það er nú ekki beinlínis skynsamlegt að skulda tugi milljóna króna í íbúð, hefur ekki verið það og verður það ekki.
Ég á nú bara einn son, svo ég viti, og ég leigði íbúð þar til hann fæddist. Þá keypti ég fyrst íbúð. Og nú er hann í námi hér á framhaldsskólastigi, greiðir 600 þúsund króna skólagjöld tvisvar á ári úr eigin vasa, á ekki bíl, tekur strætó í skólann og er hvorki með debet- né kreditkort.
Það held ég nú, kisulóran mín.
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 22:19
EE elle mín ég er ekki að tala um þig, ég er að tala um viðhorf borgarbarnanna til landsbyggðarfólksins - almennt.
Og við Ragna erum ekki fædd í gær.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 22:28
EE elle, hér er eitt dæmi, hér er verið að ræða ESB á einni síðunni á blogginu.
,,Það versta við ESB andstæðinga er að þeir vilja ekki einu sinni leyfa fólkinu að velja! Af hverju eruð þið hræddir við lýðræðið? Eruð þið e.t.v. ekki lýðræðissinnar? Ég hef nú fylgst dálítið með skrifum ESB sinna og andstæðinga og mér finnst nú andstæðingarnir heldur orðljótari í skrifum sínum. Og hverra hagsmuna eruð þið andstæðingar ESB að gæta? Nánast allt atvinnulífið að undanskyldum nokkrum kvótakóngum og bændum vill fara í aðildarumræður. Eruð þið sérstakir verndarenglar þessara stétta??
Ragnar Thorarensen, 6.5.2009 kl. 21:04
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 22:31
"þá keypti ég fyrst íbúð" sagði Steini!
Er fullkomlega sammála þér eins og alltaf, ljúfurinn - hvað sem þú varst annars að segja
Hlédís, 6.5.2009 kl. 22:51
Kæri Steini. Fullt af fólki hélt það væri að taka hagstæð lán, vissi ekki að þau ættu eftir að fljúga upp um milljónir. Villt var um fyrir fólki af glæpabönkum og rotnum lánafyrirtækjum. Það var ekki verk fólksins að passa upp á gengið og verðbólguna. Það var verk yfirvalda. Og skuldarar geta þ.a.l. ekki verið haldnir ábyrgir fyrir gengis-kol-fallinu og meðfylgjandi óðaverðbólgu og ósvífinni hækkun lánanna um milljónir. Fólk vildi oft bara öruggt skjól fyrir börnin sín. Og fólk getur þurft bíl þó það nenni vel að labba. Glæpabankarnir, peningagróðaniðingarnir og yfirvöld ættu að vera haldin ábyrg fyrir milljónunum.
EE elle
. (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 22:56
Kæri Högni. Veit þú varst ekki að tala um mig persónulega. En vildi bara að þú sæir að við viljum þetta ekki öll sem búum í bænum.
EE elle
. (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 22:59
Sömuleiðis, snúllan mín. Ég keypti reyndar íbúðina áður en stráksi fæddist. Íbúðin var þá gerð upp, hátt og lágt, og þar var ekki þverfótað fyrir iðnaðarmönnum í nokkra mánuði, smiðum, pípurum, múrurum, málurum og rafvirkjum.
Og þegar sonurinn fæddist tók ég mér frí í einn dag á Mogganum.
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 23:10
EE elle, sem betur fer er ekkert algilt í þessu sem dæmi þá er bóndi hér á næsta bæ sem vill ólmur komast í ESB.
Enn aðeins að því sem þú varst að senda Steina, er það þannig að einhverjir "toppar" eiga að gæta alls fyrir okkur hin, áttum við ekki að hlusta betur á T.D. Steingrím Joð og Davíð Oddsson sem marg vöruðu við og þá er ég nú bara að tala almennt bæði íbúðakaup, sem nota bene eru í okkar fagra landi nausynlegt ennþá, en líka bílainnkaupin, sumarhúsakaupin, alltof stórar íbúðir ofl.ofl. Ég er með lítinn rekstur og er með bankaviðskipti í Kaupþing banka annarsvegar á Hellu og hins vegar í Hveragerði með einkareikningin í báðum útibúunum ráðlöggðu stjórarnir öllum frá því að taka erlend lán.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.5.2009 kl. 23:23
Líkt hjá okkur, lingurinn minn! Ég tók smápásu frá námi í hvert skipti sem mér fæddist barn
Fyrsta íbúðin datt næstum gratís í fangið á mér
- það er langt síðan þetta var!
Hlédís, 6.5.2009 kl. 23:28
EE elle. Fólk verður alltaf að fara eins varlega og hægt er í fjármálunum og reyna að leggja fyrir en verðbréfa- og hlutabréfakaup geta alltaf farið illa og að sjálfsögðu geta allir orðið gjaldþrota, til dæmis vegna veikinda.
En margir Íslendingar hafa gert grín að til dæmis Svíum og Þjóðverjum vegna þess að þeir leggja yfirleitt fyrir áður en þeir fara í dýr ferðalög, kaupa bíl eða íbúð.
En sá hlær best sem síðast hlær, segja þeir náttúrlega núna við Íslendingana sem gerðu grín að þeim fyrir alla sparsemina. Nema útlendingarnir sem treystu íslensku bönkunum.
Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 23:34
Högni, vissulega voru líka heiðarlegir bankamenn og bankastjórar. Og þar varst þú lánsamur að hitta á heiðarlega menn. Ekki vour allir lántakendur það lánsamir. Gengislánum var oft ýtt að grunlausu fólki. Og því miður vissu ekki allir hvað Guðni Á. og Steingrímur J. voru að segja. Veit ekki með Davíð O.
Steini, já eins og þú segir:"En margir Íslendingar hafa gert grín að til dæmis Svíum og Þjóðverjum vegna þess að þeir leggja yfirleitt fyrir áður en þeir fara í dýr ferðalög, kaupa bíl eða íbúð". Þeir sem eyddu eins og vitleysingar og hlógu að fólki fyrir að spara, geta þá bara sjálfum sér um kennt. En það var fjöldinn allur af fólki sem eyddi ekki miklu og vildi bara venjulegt þak yfir höfuðið og venjulegan fólksbíl. Dæmi: Ég hafði alltaf ekið gamla og notaða bíla og borgað út (eða notað strætó ) þangað til ökufantur ók aftan á bílinn minn og gereyðlagði. Eftir það tók ég billán í fyrsta sinn, gengislán sem var sviksamlega lýst sem hagstæðu og flaug upp um 130% á 15 mánuðum. Gengislán sem líklega var ólöglegt:
http://www.heimilin.is/varnarthing/index.php?option=com_content&view=article&id=199:gengistryggd-
lan-ologleg&catid=58:frettir
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/04/16/lantakendur_stefna_og_vilja_lanum_hnekkt/
EE elle
. (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 23:58
Auðvitað er flottræfils-kjánagangurinn í Íslendingum ævintýralegur! Sögurnar af 'rispunum' erlendis eru óteljandi og man ég nokkrar sjálf frá því umgekkst Hafnarstúdenta - og víðar að.
Lítum á HKL sem flottaði sig ca. einn dag, er fékk fé að heiman og lifði svo á loftinu fram að næstu peningasendingu.
Hlédís, 7.5.2009 kl. 00:06
Íslenskt efnahagslíf hefur aldrei verið í góðu lagi og hafi menn haldið að svo væri fyrir nokkrum árum sjá þeir það núna að svo var engan veginn.
En ég mæli með gullinu. Eitt sinn passaði ég upp á að gullinu okkar undir Svörtuloftum yrði ekki stolið en það er margra milljarða króna virði.
Þorsteinn Briem, 7.5.2009 kl. 00:29
Þegar við hjónin keyptum okkar hús var um það að velja að greiða um 80.000 kr í leigu eða kaupa og borga af lánum um 50.000 . Fyrir okkur var það engin spurning hvað átti að velja.
Ég hef aðeins kynnst að vísu í gegnum aðra leigumarkaði Danmerkur og svo Bretlands og það er eitthvað sem ég mundi aldrei sætta mig við.
Til dæmis þurfti vinkona mín sem býr í Danaveldi og á 4 kröftuga stráka sem eiga það nú til að reka bílinn sinn utan í veggin eða fara með sand inná parketið og fl og fl , hún þurfti að greiða fleiri hundruð þúsund þegar hún flutti úr þessari "ódýru" leiguíbúð vegna meintra skemmda sem hún og hennar dregnir höfðu valdið.
Hún átti engan rétt til að mómæla þessu né var henni gefin kostur á að t.d mála íbúðina sjálf. Heldur mætti bara rándýrt iðnaðarmanna teymi þar inn og gerði allt upp og henni sendur reikningurinn eftirá. Hún hefði verið betur stödd ef hún hefði keypt þarna úti strax.
(IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 18:43
Já já þarna er ein hliðin, eða eiginlega tvær þ.e. mismunr á leiguverði og afborgunum af láni.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 7.5.2009 kl. 19:03
Sá sem þarf ekki að greiða nema 50 þúsund króna afborgun á mánuði af íbúðarhúsnæði skuldar nú ekki mikið í því.
Og leigjandi er ekki skyldugur til að greiða hvaða upphæð sem er vegna viðgerðakostnaðar á íbúðinni sem hann leigir, hvort sem það er hér eða annars staðar á Norðurlöndunum. Alltaf hægt að kalla til hlutlausan matsmann vegna skemmdanna, ef því er að skipta.
Leigjendur ganga langflestir vel um íbúðirnar sem þeir leigja og í mörgum tilfellum greiða þeir tryggingu í upphafi leigutímans vegna hugsanlegra skemmda á íbúðinni, til dæmis vegna barna og gæludýra á heimilinu.
Þorsteinn Briem, 7.5.2009 kl. 19:45
Steini minn :)
Hún greiddi umrædda tryggingu í upphafi og reyndi að fá óháðan matsmann en þegar hún vissi hvað það átti að kosta til viðótar guggnaði hún á því, því henni var ætlað að greiða fyrir það að fullu. Ekki var farið illa með íbúðina heldur var þetta eðlilegt slit miðað við aðstæður. En það að mega ekki fá vin sinn smiðinn eða málarann til að gera við þetta fyrir sig er auðvitað alveg með ólíkindum, heldur urðu það að vera einhverjir iðnaðarmenn sem eigandi eignarinnar samþykkti, ja það er ekki mjög réttlátt.
Svona er þetta að verða hér líka, t.d átti sonur minn sem var í íbúð öryrkjabandalagssins að kaupa rándýra málningarþjónustu þegar hann fór úr þeirri íbúð ,sem hann auðvitað hafði engin efni á. Hvernig á einstaklingur sem greiðir í húsleigu 40 þús ( þegar þetta var) hiti og rafm þar fyrir utan en þá hafði hann um 79.000 kr útb í örorkbætur og átti þá eftir að kaupa mat og greiða félagsþjónustu fyrir aðstoð við þrif???? Hvar á fólk í hans stöðu að geta önglað saman fyrir jafn dýrri vinnu og iðnaðarmenn eru tilboð hljóðaði uppá 250.000 ?? Eitt var jú að taka marga mánuði í að spara fyrir efni, en hitt var vonlaust dæmi. En þar fyrir utan þá gerði ég þetta bara og spurði ekki kóng eða prest að því. En það er alltof mikið að svona veseni við það að leigja sem er alveg óþolandi.
(IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 20:19
Jamm, fólk getur alltaf lent í einhverju rugli og því eins gott að hafa þessi mál öll á hreinu í leigusamningunum þegar íbúðirnar eru leigðar.
Ég leigði eitt sinn íbúð í 50 þúsund manna bæ í Svíþjóð af félagi sem átti helminginn af öllum íbúðum í bænum og man ekki eftir neinu svona veseni þar. Félagið er með iðnaðarmenn á sínum snærum sem gera við eðlilegt slit á íbúðunum og að sjálfsögðu er slíkt ekki á kostnað leigjendanna, samkvæmt húsaleigulögum.
Þorsteinn Briem, 7.5.2009 kl. 20:43
Húsaleigu-háfar/hákarlar í Danmörku eru farnir að iðka þennan leik með háa viðgerðareikninga í lok leigutíma. Eldri reglur voru mun sanngjarnari þar og Svíar voru með sanngjarnar reglur eins og Steini lýsir, síðast er ég vissi.
Hlédís, 7.5.2009 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.