DV endurvekur gamlar RUV-minningar.

Það bankar í gamlar og góðar minningar að DV muni hætta að koma út á fimmtudögum, - minnir á þá tíma þegar ríkisssjónvarpið var í fríi á fimmtudögum.

Þegar Stöð tvö ákvað að sjónvarpa alla daga leið ótrúlega langur tími þar til Sjónvarpið tók við sér og gerði hið sama. Á meðan reyndist það gríðar mikils virði fyrir Stöð tvö að sitja ein að auglýsingamarkaðnum á fimmtudögum og ég man hvað ég var mótfallinn þeim rökum RUV að það væri sparnaður fólginn í því að senda ekki út á fimmtudögum.

Þvert á móti tapaði RUV áreiðanlega meiri auglýsingatekjum en sem nam þessum sparnaði.

Hins vegar varð maður var við það að ýmsir útlendingar öfunduðu okkur af því að geta lokað á skjáinn einn dag í viku og víst var það gott fyrir félagslífið og fjölskyldulífið í landinu.

Að ekki sé nú talað um hvað það var gott fyrir sumarfríin að loka sjoppunni alveg í ágúst og leyfa þjóðinni að finna sjálfa sig úti í náttúrunni eða bara í einhverju öðru en að sitja inni og glápa á sjónkann.


mbl.is Breyting á útgáfu DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott að DV dregur saman.  Þá minkar "Gróa á Leiti".

Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 00:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Meira að segja Rússar vita að hér var ekkert sjónvarp á fimmtudögum.

Enda er menntun þeirra mun betri en Íslendinga.

Hvað vita Íslendingar um Rússa?

Ekkert.

Þorsteinn Briem, 6.5.2009 kl. 01:01

3 identicon

Ég sakna stundum sjónvarpsbindindisins.Yndi bindindisins óbundinn yndi bindiskyldunnar á bindafylleríi óbundin bindindisskyldunni.

Hörður Halldórss... (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 01:15

4 identicon

Það er gaman að rifja þetta upp. Ég held svei mér þá að ennþá megi greina leifar þessa siðar, t.d. bókasöfn á landsbyggðinni sem hafa opið til kl. 22 á fimmtudagskvöldum.

En sirka áratug eftir að RÚV fór að sjónvarpa á fimmtudagskvöldum eins og öðrum kvöldum, var ég vinnandi sem þjónn á veitingahúsi í Bretlandi. Oft kom það fyrir að fólk spurði hvaðan ég væri, kom ekki þessum skrýtna hreim alveg fyrir sig.

Sérstaklega man ég eftir rosknum hjónum sem ég ég bauð velkomin og rétti matseðil: He's Dutch! ...No darling, I've been there,  he's not Dutch... maybe Dutch-German or German-Danish, osfrv :)

Þegar þau loks spurðu, og ég leysti gátuna, höfðu þau álíka áhuga á að fræðast um mitt heimaland eins og að panta mat. Og furðulegt nokk spurðu þau um sjónvarpslausu fimmtudagskvöldin. Þau spurðu hvort þetta væri virkilega satt, að á Íslandi væru fimmtudagskvöldin sjónvarpslaus, í þeim tilgangi að viðhalda íslenskri menningu.

Ég sagði þeim sem var, að sá "siður" hefði verið aflagður fyrir áratug, og þessi meinti "menningar"-tilgangur hans hefði ávallt verið fyrirsláttur fyrir sparnaði. Þau hlógu mikið, en sögðu þó Maybe the BBC should have tried that! :)

Eysteinn Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 01:37

5 Smámynd: Jón Daníelsson

Hárrétt Ómar.

Þetta voru góðir dagar. Meira en það. Þjóðin var held ég öll sammála. Fimmtudagskvöldin voru laus fyrir fundi og fjölskyldusamkvæmi. Alveg fram til 1986.

Nú er þetta því miður gleymt. Rétt eins og "misgengið" sem hófst 1983. Atburðarásin var svipuð og nú. Nema þá voru ekki sett ein einustu lög til að bjarga heimilum. Það fólk sem hafði nýlega keypt íbúð, glataði henni í mörgum tilvikum, en þurfti samt að borga lánin. Þess voru dæmi að fólk missti íbúðir sínar á uppboð fyrir að hafa skrifað upp á íbúðalán fyrir börnin sín.

Hvað varð um hina áhugasömu blaðamenn og fréttaskýrendur? Af hverju ber enginn saman ástandið í dag og fyrir aldarfjórðungi? Og af hverju veltir enginn fjölmiðlamaður fyrir sér mismunandi viðbrögðum nú og þá?

Jón Daníelsson, 6.5.2009 kl. 01:53

6 Smámynd: Einar Indriðason

Ágúst?  Ertu ekki að meina júlí-mánuð?  Minnið mitt segir sjónvarpslausan júlí-mánuð?

Einar Indriðason, 6.5.2009 kl. 08:47

7 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Markús Örn Antonsson kom einu sinni með einfalda útskýringu á sjónvarpsleysinu í júlí og á fimmtudögum; það var einfaldlega til að starfsfólkið fengi frí.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 6.5.2009 kl. 16:08

8 identicon

Sjónvarpslausir fimmtudagar eru ekki gleymdir í "minni" Íslands, gríðarmörg félagasamtök halda sína fundi ennþá á fimmtudagskvöldum, sem ég tel vera arfur frá þeirri tíð þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum, ég hef og er félagsmaður í nokkrum félögum sem hafa þennan háttinn á

baddi (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband