8.5.2009 | 14:48
Mismunandi upplifun.
Fróðlegt er að bera saman mismunandi viðhorf Þorvaldar Gylfasonar og Ögmundar Jónassonar til Aþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þorvaldur lýsir AGS í blaðagrein sem ígildi Vogs þar sem fíklar fara í meðferð til þess að komast á réttan kjöl. Vogur er styrktur af almennafé til þess að þeir, sem sjá fram á það að fara í þrot vegna fíknar sinnar, geti komist á hæli, þar sem þeir verða að vísu að gangast undir harðar reglur breyttrar hegðunar, sem jafngilda tímabundinni frelsissviptingu.
En þeim er jafnframt ljóst að hin leiðin, að halda áfram á sömu braut, er ófær.
Ég hef áður bloggað í þessa veru varðandi þá stöðu sem við Íslendingar erum komnir í gagnvart alþjóðasamfélaginu.
Þorvaldur getur þess ekki að jafnfram tímabundinni frelsissviptingu, afvötnun og endurhæfingu, kemur oft til beinn stuðningur, til dæmis frá vinnuveitanda sem sér til þess að fíkillinn fá greidd laun á meðan á meðferðinni stendur, rétt eins og hann hefði orðið veikur af einhverjum öðrum sjúkdómi og orðiða að fara á spítala.
Harðneskja Breta og skilningsleysi ýmissa annarra erlendra aðila er í hrópandi ósamræmi við þann velvilja, skilning og stuðning sem sá, sem fer á Vog, fær yfirleitt frá umhverfi sínu.
Ögmundur upplifir AGS sem illskeytta handrukkara alþjóðlegra gróðaafla og vondra kapítalista.
Þorvaldur vann á sínum tíma hjá AGS og þekkir þar nokkuð til mála. Ég hallast frekar að því sem hann segir.
Það er rétt hjá Ögmundi að fjármálakerfi heimsins er kapitalískt. Honum finnst það vont og þá spyr maður hvað hann vilji í staðinn. Sósíalískt kerfi?
Ögmundur trúir því vafalaust á gagnsemi byltingar í fjármálakerfi heimsins. Gallinn er bara sá að ekki er hægt að sjá minnstu möguleika á því að því verði umbylt á þann hátt sem Ögmund dreymir um.
Þótt nú sé unnið að því af krafti að lagfæra það sem fór úrskeiðis verður fjármálahagkerfi heimsins áfram í meginatriðum kapitalískt, sama hvað Ögmundur og hans trúbræður vilja.
Að sumu leyti minnir afstaða Ögmundar mig á viðhorf fíkils sem finnst allir vera vondir við sig og finnur allt að öllum nema sjálfum sér.
Fíkillinn, sem fer á Vog, hefur áttað sig á því, að hann sjálfur er meginorsök vandræðanna, ekki umhverfið eða aðrir. Þótt honum sé í nöp við umhverfið og þjóðfélagið og getir fundið því flest til foráttu, verður hann að sætta sig við það að þurfa að leita hjálpar þess þegar honum reynist um megn að ráða sjálfur við vandamál sín.
Óraunhæf sjónarmið Ögmundar eru meginástæða þess að ég get ekki gengið til liðs við Vinstri græna þótt innan raða þeirra sé fólk eins og hann, sem ég met persónulega mjög mikils og eru frábærir samherjar mínir í umhverfismálum.
Við höfum svipaðan skilning á eðli stórfyrirtækja sem ásælast íslenskar auðlndir og fara illa með þjóðir og byggðalög í harðsvíraðri sókn eftir gróða. Okkur dreymir um betri heim og viljum leggja okkar af mörkum til að stöðva þá rányrkju og græðgi sem mun bitna hart á afkomendum okkar.
Við erum sammála um að jafnrétti til frelsis gildi ekki aðeins um núlifandi kynslóð, heldur líka jafnrétti á milli kynslóða. En það er óraunhæft að láta eins og að við getum farið út úr alþjóðasamfélaginu rétt si svona, og orðið að eins konar Norður-Kóreu Evrópu.
Því miður, Ömmi góði frændi, - getum við ekki orðið sammála um alla hluti þótt fáa viti ég vini betri eða betri menn en þig.
Heimslögregla kapítalismans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður pistill, Ómar
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.5.2009 kl. 15:50
Eg met bæði Þorvald og Ögmund mikils, og líka Ómar.
Trúir Ómar því sem Eva Joly sagði um daginn, að fyrir hvern dollar sem ríku löndin settu í aðstoð við lönd Afríku (fer að stórum hluta í hendur glæpamanna, því miður), þá tækju þau tíu dollara af þeim? Ef þetta er rétt hjá Evu, hvers vegna skyldi það viðgangast?
Rómverji (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 15:50
Ómar, þú ættir að lesa bókina "The Shock Doctrine" eftir Naomi Klein. Það er hörð ádeila á heimskapitalismann, og þá ofurtrú, sem a.m.k. síðust 30 árin hefur gegnsýrt IMF og fleiri slíkar stofnanir, á kerfi sem fyrst og síðast gagnast þeim sem mesta hafa peninga, og þar sem frelsi sérhvers einstaklings hefur í praxis ekkert vægi, heldur er það algjört "frelsi fjármagns" sem öllu máli skiptir.
Klein er svo "róttækur vinstrisinni", að hún vill að heimurinn taki sér samfélagsbyggingu Norðurlanda til fyrirmyndar!
Þetta er ekki spurning um svart eða hvítt - annað hvort óheftan heimskapitalisma og "corporatisma" eða algjöra sósailistiska byltingu. Kannski er til millivegur, þar sem lítil hagkerfi verða ekki leiksoppar í markaðsglundroða og gjaldmiðlar þjóða ekki spilapeningar á Wall Street.
Einar Karl, 8.5.2009 kl. 16:39
Ég er ekki frá því að Ómar sé rödd skynseminnar hvað þetta varðar.
Páll Jónsson, 8.5.2009 kl. 16:45
Mér þykir nú Þorvaldur Gylfason vera komin út á ystu nöf í þessum málflutningi.
Í fyrsta lagi hvaðan hefur hann þá hugmynd að fíklar séu sviptir frelsi við það að fara á Vog?
Í öðru lagi þá fer því fjarri að fíklar séu glæpamenn þótt sumir þeirra séu það. Þess eru reyndar mörg dæmi að glæpamenn gerist fíklar og feli sig á bak við meinta fíkn, en það voru glæpamenn sem komu Íslandi þangað sem það er.
Í þriðja lagi þá verður að semja við lánadrottnana upp á nýtt, við eigum einfaldlega ekki tvöfalda GDP til að láta þá fá.
Það er því mjög auðvelt að fara svo frjálslega og heimspekilega með hlutina. Hagfræði er ekki vísindagrein og byggja hagfræðingar allt of sjaldan þykir mér á blaður sitt á neinu viti.
Menn óðu með landið þangað sem það er með hagfræðinga og greiningardeildir hægri vinstri sér til aðstoðar.
sandkassi (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 17:23
Þótt Þorvaldur hafi unnið fyrir AGS, þá var hann bara á "Need to know basis" eins og allir hjá svona stofnunum. Hann veit ekkert endilega meira en Jón úti í bæ. John Pilger sýnir okkur nokkuð vel hvernig þessi stofnun hefur komið fram í gegnum tíðina. Og svo með kapítalismann og sósíalismann, þá stendur sama klíkan á bakvið bæði fyrirbærin. Heimskur múgurinn hefur alltaf verið spilaður fram og til baka af þessari klíku og svo mun það vera í framtíðini ef múgurinn fer ekki að vakna upp af þessum transi sem hann er og hefur verið í. Á meðan múgurinn skinjar ekki hvað er í gangi, getur þessi klíka gert hvað sem er.
World of smokescreens and mirrors.
Alexander (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 18:08
Ómar. Ég met þig mikils og alltaf hef ég haft mikla trú á þér. Getur þú gert mér og ótal öðrum grein fyrir hvers vegna helmingur af "fíklum" lenda á Vogi 20-30 sinnum og jafnvel oftar? Getur þú gert þátt um ADHD sjúklinga sem eru alltaf að reyna að lækna sjálfa sig með alls konar lyfjum og dópi vegna þess að lyfjafyrirtækin vilja hafa alla hliðarsjúkdóma ómeðhöndlaðs ADHD ástands? þú yrðir góður í að grafa þennan sannleika upp. Getur þú útskýrt fyrir allmenningi hvers vegna þetta er svona? Ert þú til í að líta inn á heimasíðu ADHD samtakanna og kynna þer málið? Ég veit að þú ert velviljaður og heiðarlegur í þínum málflutningi. Vil bara sjá meira af þér í íslenska inbakassanum. þú hefur alltaf staðið fyrir þínu þar að mínu mati.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.5.2009 kl. 18:35
Við höfum nú starfað í um 1/2 ár með AGS og enn ekkert sem bendir til þess að þeir séu að neyða okkur til eins eða neins. Þessvegna hljómar lýing Þorvaldar ekki ósannfærandi. Ögmundur er búinn að vinna beint með AGS í 3 mánuði sjálfur og nefnir engin dæmi fyrir löggutali sínu sem það samstarf snerta. Því hljómar hann ekki sannfærandi heldur eins og pólitíkus á atkæðaveiðum.
Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 21:06
Í hinni norrænu útgáfu þjóðfélagsgerðarinnar er hvorki kapítalismanum né sósíalismanum úthýst, - þetta er blanda af markaðshyggju og félagshyggju þar sem reynt er að nýja helstu kosti þessara tveggja kerfa og víkja ókostunum frá.
Hvað snertir Vog þá liggur fyrir að í vist þar, sem vistmaðurinn hefur þó kosið að gangast undir af fúsum og frjálsum vilja, gengst hann undir það að vera lokaður þar inni og einangraður frá öllu því sem reynslan sýnir að hann muni ekki hafa þrek til að umgangast.
Hann þarf að hlíta ströngum reglum staðarins í einu og öllu.
Eftir að hann kemur út og fer út í lífið á ný verður hann að hlíta ströngum reglum áfram varðandi það að sækja AA-fundi reglulega og hafa yfir sér svonefndan "sponsor" sem hefur úrslitavald varðandi það hvar fíkillinn fer og hverja hann umgengst.
Allan tímann verður fíkillinn að taka sín mál fyrir með sínum nánustu undir leiðsögn og fræðslu kunnáttumanna, því að svonefndir "kóarar" fíkilsins, sem hafa neyðst til að vernda hann með lygum og feluleik, þurfa að horfast í augu við vandamálið og vinna úr því, - fara í sína eigin meðferð að þessu leyti.
Smám saman vinna fíkillinn og hans nánustu sig út úr vandanum.
Ég þekki ekki nógu vel til til þess að segja til um það hvenær loksins er útséð um það að fíkill fái ekki lækningu. Mig skortir árangurstölur hvað það snertir, til dæmis hve margir, sem hafa farið t. d. fimm sinnum í meðferð, komast loksins á rétt ról.
Um þetta vita sérfræðingar Vogs betur en ég.
Ómar Ragnarsson, 8.5.2009 kl. 22:06
Vil bæta því við hvaða vistmaður á Vogi sem er getur staðið upp og sagt: Ég er hættur og farinn!
Menn gera það hins vegar sjaldnast því að það er ávísun á að fara beint í hundana.
Við Íslendingar getum líka staðið upp hvenær sem er og sagt: Við erum hættir og farnir, viljum ekki frekara samstarf og neitum að borga.
Af hverju eigum við þá ekki bara að gera það? Mitt svar er: Af því að það er óskynsamlegt, jafnvel þótt við hefðum mikla skömm á alþjóðasamfélaginu.
Ómar Ragnarsson, 8.5.2009 kl. 22:11
Hið sjúklega væri að keyra íslenskt samfélag í þrot til þess að borga skuldir svindlara á borð við Björgólf Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson. Skuldir óreiðumanna. Skuldir sem íslenskur almenningur ber ekki ábyrgð á nema e.t.v. í heimspekilegum skilningi. Ekki löglega og ekki formlega (það er að minnsta kosti ósannað og mikið vafamál). Varla siðferðilega heldur nema að því leyti, að við höfum kosið yfir okkur aumingja á borð við Davið Oddsson og látið apaketti eins og Styrmi Gunnarsson ráðskaðst umboðslausa með hagsmuni okkar. SINNULEYSI.
Hvað felst í því að dæma íslenskt samfélag til fátæktar? Eiturlyf, glæpir, tortryggni, vonleysi ...
Hudson hefur rétt fyrir sér, að minnsta kosti að því marki að það er verið að spila á sómatilfinningu fólks - og með heiðvirt fólk - þegar þegar meintar skuldir almennings á Íslandi eru annars vegar.
Þetta er verra en Kárahnjúkavirkjun, Ómar. Miklu verra. Og það verður auðveldur eftirleikurinn þegar búið verður að svipta Íslendinga sjálfsvirðingunni, en einmitt þangað liggur stefnan til fátæktar. Þá fyrst stígur álbrækjan fyrir alvöru yfir landið, í allra kvikinda líki.
Rómverji (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 22:36
Ég skil og virði þína afstöðu Ómar, ég held bara að það verði ekki hægt að greiða allar þessar skuldir. Vonandi verður ljós við endann á þessum göngum fyrr en varir, en mér líst ekki á þessa skuldastýringu hjá þeim.
sandkassi (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 22:36
Hér eru annars greinar Hudsons:
http://larahanna.blog.is/album/ymsar_bladagreinar/image/823339/
http://larahanna.blog.is/album/ymsar_bladagreinar/image/823340/
Rómverji (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 22:52
"Ögmundur upplifir AGS sem illskeytta handrukkara alþjóðlegra gróðaafla og vondra kapítalista". Það gera ýmsir:
http://andrigeir.blog.is/blog/andrigeir/entry/872646/
http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/871480/
. (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 23:09
Gleymdi að kvitta þarna næst að ofan.
EE elle
. (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 23:11
Mér sýnist Ómar gera því skóna að það séu bara vinstri-sinnar eins og Ögmundur sem gagnrýna framferði AGS. Þetta er auðvitað ekki svo, því að mjög hörð gagnrýni á AGS hefur komið frá mörgum hægri mönnum.
Staðreyndin er sú, að það sem datt upp úr Gordon Bulldog Brown er flestum ljóst sem þekkja til AGS. Alþjóða gjaldeyrissjóðnum var komið á legg 1944, þegar Bretton Woods samkomulagið var gert. Lang sterkustu aðilarnir í stjórn sjóðsins eru Bretland og Bandaríkin og hafa verið frá upphafi.
Hægt er að sanna misbeitingu AGS við mörg tækifæri, svo að hvers vegna ætti misbeiting að vera útilokuð núna ? Ég fullyrði, að Sossarnir í Bretlandi ætluðu að koma okkur á kné með hryðjuverkalögunum og að þeir líta á AGS sem tæki til þess sama.
Loftur Altice Þorsteinsson, 8.5.2009 kl. 23:48
Já, eitt enn :
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/788533/
EE elle
. (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 00:29
Ég minni á samanburðinn við þá afstöðu sem vinveittir sýna fíklinum. Þess er gætt að ekki sé gengið svo hart að honum að hann nái sér aldrei á strik. Hann fær að hluta til aðstoð sem aldrei er ætlast til að hann endurgjaldi vegna þess að það er best fyrir alla að hann komist út úr vandræðunum.
Það er engum í hag að honum séu allar bjargir bannaðar. Bretar og fleiri koma bæði illa og óskynsamlega fram við okkur. Það var ekki að ástæðulausu sem Hitler öfundaði Breta og bauð þeim í bandalag við sig 1940, - sagði meira að segja að hann væri reiðubúinn að verja breska heimsveldið fyrir þá og eyða andstæðingum Breta.
Breska heimsveldið og tilurð þess, hvernig stórveldi lagði undir sig lönd með hráu hervaldi hringinn í kringum hnöttinn og mergsaug auðlindir þeirra, var módel fyrir heimsveldastefnu Hitlers.
Slavar, svertingjar, Gyðingar og Sigaunar voru í augum Hitlers hliðstæður við þá mynd sem þá var gefin af "villimönnunum, mannætunum og Hottentottunum", sem voru frumbyggjar nýlendna Breta.
Nasisminn fór hins vegar í raunverulegri villmennsku sinni svo langt fram úr öllu sem þekkst hafði fram að því að það gekk fram af vestrænum lýðræðisþjóðum. Og það afrek Breta að standa einir gegn Hitler eftir fall Frakklands má aldrei falla í gleymsku.
Og ég tel það Íslendingum til sóma að hafa lagt okkar lóð á vogarskálr við að leggja skrímsli nasismans að velli.
En aftur að hinum mistæka Aþjóðlega gjaldreyrissjóði, sem hefur svosem ýmislegt slæmt gert um dagana.
Það er höfuðatriði að allt sé gert sem unnt er til að framkoma annarra þjóða við okkur sé sanngjörn og uppbyggjandi.
En við verðum líka að horfast í augu við umhverfi okkar af raunsæi og sýna með eigin verkum að við verðskuldum að endurvinna traust, velvilja og sanngirni í okkar garð.
Ómar Ragnarsson, 9.5.2009 kl. 00:32
Ef eitthvað kæmi mér á óvart eftir þessi skoðanaskipti ykkar góðir hálsar væri það að svo ólíklega færi að Loftur Altice hefði ekki rétt fyrir sér.
Árni Gunnarsson, 9.5.2009 kl. 00:38
Punktur.
EE elle
. (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 00:54
Kæri forseti Íslands, Ómar Ragnarsson, alltaf mælirðu satt og rétt og af meiri heilindum en aðrir menn sem við þekkjum. Þess vegna biðjum við þig að vera tilbúinn að flytja að Bessastöðum fyrirvaralítið, ef himpigimpið sem þar bælir nú sessur skyldi átta sig á því að enginn kærir sig um að hafa hann þar lengur.
Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 01:06
Enginn? Ómar er fínn. En 'Olafur líka.
Jón (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 01:53
Heil og sæl gott fólk,
Þorvaldur Gylfason hefur þá náðargáfu umfram aðra snillinga, að geta útskýrt flókin og óaðlaðandi fræði sín á mannamáli. Hann hefur og þann hæfileika að hrífa fólk með sér, af því að hann talar tæpitungulaust, en þó gjörsamlega laus við hroka sem öðrum er svo tamt (án þess þó að hafa nokkurn "hrokaviskuvagn" undir sér.)
Mér fannst þessi samlíking hans við Vog mjög skýrandi og skiljanleg, án þess þó að ég færi að setja það í nokkurt einasta samhengi við eitthvert fólk, sem góðu heilli hefur sótt þennan stað af fúsum og frjálsum vilja.
fyrrv. nemandi ÞG í þjóðhagfræði (sem var ekki beint uppáhaldsfagið en ÞG tókst að glæða lífi, áhuga og skynsemi í fræðina)
Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.5.2009 kl. 04:40
AGS er kannski svona eins og afvötnunarstöð rekin af kirkjusöfnuði. Getur gert langt leiddum fíklum gagn, en trúarleg innræting er ekki öllum að skapi. Það má ekki efast um hið heilaga orð, að fullkomið frelsi fjármagns geri heiminn betri.
Einar Karl, 9.5.2009 kl. 14:06
Vil taka undir með Gunnari Þorsteinssyni.
Annars er líking Þorvaldar að AGS starfi eins Vogur ein sú allra misheppnaðasta sem ég hef heyrt um vegna þess að litlar líkur eru á að fólk "læknist" eftir meðferð, flestir sem á annað borð eiga við fíkn að stríða eiga í henni og fylgifiskum hennar alla ævi og lifa fæstir eðlilegu lífi. Vogur eins og AGS veitir nauðsynlega hjálp og gerir sitt besta en ég ætla bara rétt að vona að fleiri þjóðir nái bata hlutfallslega en fíkill sem leitar á náðir Vogs.
Benedikt Halldórsson, 9.5.2009 kl. 16:45
Er Þorvaldur kannski að meina að við eigum að sækja AGS (AA) fundi það sem eftir er? Og fara í einu og öllu eftir AGS (AA) bókinni?
En mikið assgoti hefði Ómar orðið góður forseti, er það nokkuð of seint?
Benedikt Halldórsson, 9.5.2009 kl. 16:49
Snillingar sem skammast yfir innlendri landbúnaðarframleiðslu fá ekki háa einkun hjá mér þó þeir hafi heimsótt Vog oftar en einu sinni! Gylfi sagði eitt sinn að innlend framleiðsla hefði óæskileg áhrif á gengi krónunnar. Hún héldi genginu uppi!
Það mátti ráða af orðum Gylfa að best væri að flytja allt inn frá útlöndum því þá væri krónan minna virði og Íslendingar fátækari. Fátækt fólk væri ekki að fjarfesta í einhverji vitleysu t.d. eigin húsnæði.
Þetta er örugglega rétt hjá manninum en mikið óskaplega fyrirlítur hann almenning og kaupmátt!
Björn Heiðdal, 9.5.2009 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.