Glöggt er gests augað.

Robert Wade hefur nú kveðið upp úr með það sem öllum mátti ljóst vera, að samhliða glýjunni um "Íslenska efnahagsundrið" var jafnve enn meiri blekking og glýja í gangi varðandi það að á Íslandi væri minnsta spilling á byggðu bóli í heiminum.

Wade spyr hvernig í ósköpunum hefði verið hægt að komast að jafn fráleitri niðurstöðu um land þar sem allt væri morandi í spilltum hagsmunatengslum og vinatengslum sem sköpuðu sjálfttöku- og oftökustjórnmál, sjálfa kveikju spilltrar einkavinavæðingu bankanna með tilheyrandi afleiðingum.

Ekki bætti úr skák slímseta tveggja stjórnmálaflokka í ríkisstjórn í áraraðir.

Wade leggur til að færir erlendir vísindamenn rannsaki það hvernig þetta gat orðið. Hann hefur þá væntanlega í huga að hægt verði að koma í veg fyrir að einstakar þjóðir komist framvegis upp með það að gefa öðrum þjóðum alranga mynd af raunverulegu ástandi mála hjá sér.

Ég skal nefna eitt lítið dæmi. Fyrir nokkrum árum var gerð alþjóðleg úttekt á því hvernig umhverfismálum væri háttað í löndum heims.

Ísland komst hátt á blað í þessari könnun og það beint í kjölfar mestu umhverfisspjalla sögunnar við Kárahnjúka. Ísland komst hátt á blað þrátt fyrir hina hrikalegu jarðvegseyðingu sem hér hefur viðgengist og stafar á sumum afréttum landsins af því að þeir eru beittir með sauðfé þótt þeir séu ekki beitarhæfir.

Ég bað um skýrsluna hjá Umhverfisráðuneytinu og þegar ég fór að glugga í hana sá ég að í reitnum "ástand jarðvegs" skiluðu Íslendingar skammstöfuninni "NA", sem sé "not awailable."

Íslendingar sögðu blákalt við alþjóðasamfélagið að ekki lægju fyrir gögn um þetta atriði þótt Ólafur Arnalds hefði nokkrum árum áður fengið Umhverfisverðlaun Norðurlanda fyrir rannsóknir sínar á þessu sviði.

Þegar ég gluggaði betur í skýrsluna sá ég að nokkrar aðrar þjóðir, svo sem Króatía og Ukraina höfðu gert það sama og Íslendingar varðandi upplýsingar um ástand jarðvegs. Sameiginlegt var þessum löndun að vera með allt niður um sig í þessum málum.

Í Ukrainu höfðu til dæmis orðið stórfelld spjöll vegna Chernobyl-slyssins og voru Íslendingar þarna í hinum versta selskap.

Þöggunin á Íslandi um raunverulegt ástand og einstök málefni á sér slæmar hliðstæður erlendis. Nú eru 20 ár frá atburðunum á Torgi hins himneska friðar. Í Kína hefur ríkt þöggun um þennan atburð og allt er gert sem unnt er til þess að viðhalda þeirri þöggun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Það er líka merkilegt að netmiðlarnir mbl.is og visir.is ásamt eyjunni nefna þessa umsögn dr. Roberts Wade´s ekki einu orði. Þöggunin er ansi ríkur þáttur í umfjöllun mála hér á landi. Þakka þér annars fyrir að undirstrika fréttaflutning rúv af þessu máli, því fjöldi fólks hér á landi hlustar aldrei á fréttir Rúv, raunar ótrúlegur fjöldi, sem hlustar ekki á neinar fréttir! - Já, það er kominn tími til að vakinn sé athygli á þeirri gjörspillingu, sem fylgt hefur framsókn og íhaldi hér um áratugaskeið og vissulega kominn tími til að þjóðin átti sig á að lækning fæst ekki nema útiloka þær klíkur frá því að óhreinka stjórnmál hérlendis. Stjórnmál eru nauðsynleg og þátttaka almennings í stjórnmálastarfi grunnur þess að lýðræði sé til staðar.

Sólon Islandus (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 14:07

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

og nú hrynur enn ein ímynd þjóðarinnar. Við verðskuldum það að vera afhjúpuð sem spillt og gráðug.

Finnur Bárðarson, 4.6.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband